Ritstjóri sem elskar forseta sem elskar múg sem ræðst á grunnstoðir lýðræðis

Auglýsing

Þótt til staðar séu gamalgróin og formföst viðmið og ferlar sem eiga að tryggja áframhald lýðræðis geta stakir menn unnið á því mikinn skaða á skömmum tíma. Stundum gerist það vegna þess að þeir geta nýtt sér ytri aðstæður tímabundið til að grafa undan hinu lýðræðislega ferli. Þannig háttaði þegar Donald J. Trump, raunveruleikastjarna án virðingar eða áhuga fyrir nokkru nema sjálfum sér, var kjörinn forseti Bandaríkjanna í nóvember 2016.

Það sem fleytti Trump, yfirstéttarmanni frá New York sem aldrei hefur liðið skort, til valda var svar við ákalli sprottnu upp úr stóraukinni stéttaskiptingu vegna afleiðinga alþjóðavæðingar og misskiptingu gæðanna í Bandaríkjunum. Trump náði til fólks sem fannst það skilið eftir. Jaðarsett. Hefði engu að tapa.

Ofan á þetta smurði hann kynþáttahyggju, kvenhatri og skýrum vilja til að skerða grundvallarmannréttindi ýmissa minnihlutahópa. Trump skynjaði markað fyrir harðara menningarstríð og hann var tilbúinn að mæta þeirri eftirspurn með nægu framboði.

Úr varð óvænt, og fremur andstyggileg, sigurformúla.

Þótt Trump hafi alltaf átt í sérstöku sambandi við sannleikann, og að einhverju leyti raunveruleikann, þá áttu fáir von á því að forsetatíð hans yrði eins og hún varð. 

Það sem einkenndi hana var meðal annars sniðganga hefðbundinna fjölmiðla, og þeirra gilda sem höfð eru til hliðsjónar í viðurkenndri fréttavinnslu, en útmála fjölmiðla frekar sem óvini fólksins. 

Auglýsing
Þess í stað notaði hann samfélagsmiðla – Twitter og Facebook – sem ofur-gjallarhorn fyrir áróður sinn og árasir. Hann bjó til beint og milliliðalaust samband milli sín og þess hóps sem styður hann af mestur krafti. Hluti hægri sinnaðra fjölmiðla á borð við Fox og Breitbart tók þátt í rússíbannareiðinni og hjálpaði Trump að fóðra skepnuna.

Þessa stöðu notaði Trump til að smíða eigin sannleika, sem á ekkert skylt við raunveruleika sem byggir á staðreyndum. 

Valkvæðar staðreyndir

Trump hefur fyrir vikið komist upp með hegðun, talsmáta og ákvarðanir sem enginn annar forseti hefur nokkru sinni komist upp með. Samkvæmt samantekt Washington Post hafði Trump náð að setja fram 22.247 rangar eða misvísandi staðhæfingar á þeim 1.316 dögum sem liðu frá því að hann settist í embætti og fram að 27. ágúst 2020. Í ágústmánuði í fyrra setti hann fram 56 slíkar á hverjum degi að jafnaði. Á einum degi, 17. ágúst 2020, setti hann fram 147 rangar eða misvísandi staðhæfingar.

Þessi tónn var sleginn strax og forsetatíð Trump hófst. Þrátt fyrir að hann hafi unnið forsetakosningarnar 2016 með því að fá fleiri kjörmenn en Hillary Clinton, lá ljóst fyrir að Clinton fékk fleiri atkvæði. Trump gat þó ekki sætt sig við þetta og hélt því ítrekað fram án sannana að Clinton hefði fengið þrjár til fimm milljónir ólöglegra atkvæða. Stórfellt kosningasvindl hefði verið viðhaft í þremur ríkjum sem hann hefði verið sagður hafa tapað. Þegar Trump sór embættiseið hélt hann því fram að miklu fleiri væru viðstaddir en raun bar vitni. Eftir því sem leið á forsetatíðina urðu lygarnar, andstyggilegheitin og valdamisnotkunin sífellt meiri og meira afgerandi.

Það átti því ekki að koma neinum á óvart að Trump myndi ekki taka því þegjandi og hljóðalaust að tapa fyrir Joe Biden í forsetakosningunum í fyrra. 

Lýðræðið í dauðaspíral

Sitjandi forseti var raunar farinn að undirbúa tap sitt löngu áður en Bandaríkjamenn gengu til kosninga. Í ljósi COVID-19 faraldursins var ljóst að mun fleiri atkvæði yrðu greidd í gegnum póstkosningu eða með öðrum hætti utan kjördags. Við blasti að líklegir kjósendur Biden myndu frekar nýta sér slíkar leiðir en líklegir kjósendur Trump, sem mæta á kjörstað á kjördag. 

Það þýddi að tálmynd af niðurstöðu gæti birst í fyrstu tölum, enda atkvæði greidd á kjördag að uppistöðu talin fyrst. Talið var nær öruggt að stuðningur við Biden myndi aukast eftir því sem fleiri utankjörfundaratkvæði yrðu talin. Þetta gerðist allt eins og eftir handriti.

Trump brást við með því að reyna að koma í veg fyrir að fleiri atkvæði yrðu talin eftir að hann var með forystu. Þegar honum varð ekki að ósk sinni brást hann við með því að lýsa kosningunum sem ólögmætum og að þeim hefði verið stolið af honum. Lögmenn á vegum Trump höfðuðu yfir 60 mál til að reyna að fá niðurstöðunni með einhverjum hætti hnekkt. Ekkert þeirra bar árangur. 

Trump beitti kjörna embættismenn í sveifluríkjum, úr eigin flokki, súrrealískum þrýstingi um að breyta lýðræðislegri niðurstöðu. Trump krafðist þess að þingmenn úr fulltrúa- og öldungadeild styddu vegferð hans. Trump reyndi að fá innanríkisráðherra Georgíu til að „finna“ atkvæði sem myndu duga honum til sigurs í ríkinu. Og síðustu daga krafðist hann þess að Mike Pence, varaforseti hans, myndi taka sér vald sem hann hefur ekki til að stöðva staðfestingu á niðurstöðu kjörmanna allra ríkja um að Biden, sem fékk sjö milljónum fleiri atkvæði og 74 fleiri kjörmenn en Trump í kosningunum í nóvember, væri réttkjörinn forseti. Pence neitaði. 

Á sérstökum þingfundi beggja deilda Bandaríkjaþings sem staðfestir kjör nýs forseta, og fór fram í gær, mótmæltu nokkrir þingmenn Repúblikanaflokksins niðurstöðunni. Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana í öldungadeildinni, kvað sér þá hljóðs og flutti áhrifamikla ræðu þar sem hann hvatti til þess að rétt niðurstaða forsetakosninganna yrði virt. Á meðal þess sem McConnell sagði var að ef forsetakosningum yrði snúið á grundvelli ásakana sem ekkert virtist sanna myndi það senda lýðræðið í dauðaspíral.

Trump elskar þá sem ráðast inn í þinghús

Sama dag héldu stuðningsmenn Trump fjölmennan baráttufund nálægt Hvíta húsinu. Yfirskrift viðburðarins var „Save America“. Trump ávarpaði fjöldann, sagði að þau myndu fara saman í þinghúsið og ekki sýna veikleika. Hann bætti við: „Við munum aldrei gefast upp. Við munum aldrei viðurkenna ósigur.“

Mannfjöldinn – margir með hinar frægu Make America Great Again derhúfur eða Trump-fána, sumir með Suðurríkjafána en sárafáir með grímur – kyrjaði til baka „við munum stöðva stuldinn“. Fyrir liggur að Trump valdeflir hópinn. Í gegnum hann finnst stuðningsmönnunum að þeir skipti máli á ný. Og þeir vilja ekki að sú tilfinning hverfi. 

Skömmu síðar réðst hluti hópsins inn í þinghúsið í Washington og stöðvaði þar með þingfund sem var að staðfesta kjör réttkjörins forseta Bandaríkjanna.  

Það er í fyrsta sinn sem það gerist frá því að Bretar réðust inn í þinghúsið árið 1814 og báru eld að því. 

Hópurinn ógnaði og eyðilagði. Fólk lést. Óhug sló fólk út um allan heim sem horfði á. Það hrikti í stoðum lýðræðis í beinni útsendingu. Trump sjálfur hellti olíu á eldinn með Twitter-færslum. Eftir harða gagnrýni alls staðar að úr heiminum birti Trump einnar mínútu langt myndband á Twitter þar sem hann bað múginn að fara heim en endurtók líka fyrri ósannindi um að það væri verið að stela forsetaembættinu frá honum og stuðningsmönnum hans. Forsetinn sagðist skilja að stuðningsmennirnir væru reiðir. Við hópinn sem réðst inn í þinghúsið sagði hann: „Við elskum ykkur.“ 

Lokað á gjallarhornið

Þetta virtist vera dropinn sem fyllti mælinn. Bæði Twitter og Facebook lokuðu tímabundið á reikning Trump. Ofur-gjallarhornið sem hann hefur nýtt til að skapa hliðarveruleika valkvæðra staðreynda var allt í einu þagnað, að minnsta kosti um sinn. Eftir stendur skaðinn sem það hefur valdið. 

Auglýsing
Ákvörðun Facebook um að loka á Trump fram yfir valdatöku Biden hið minnsta bætir ekki upp fyrir gegndarlausa meðvirkni samfélagsmiðlarisanna með hegðun hans síðustu árin, þar sem forsetinn hefur fengið að dæla út hatursáróðri, lygum og fyrirlitlegum árásum sem eru í algjörri andstöðu við settar reglur þeirra. En hún er skref í rétta átt. 

Ekki virðist vanþörf á. Trump-kokteillinn sem fengið hefur að blandast undanfarin fjögur ár, og tugir milljóna manna í Bandaríkjamanna drekka án þess að efast um innihaldið, hefur leitt til einnar mestu, ef ekki mestu, skautunar í bandarísku samfélagi sem mælst hefur.

Ein birtingar mynd hennar er niðurstaða skoð­ana­könnunar sem fram­kvæmd var af fyr­ir­tæk­inu YouGov á meðan að atburðir gær­dags­ins í Washington stóðu yfir. Í henni kom fram að 45 pró­sent þeirra sem svör­uðu og eru skráðir kjós­endur Repúblikanaflokksins hreinlega studdu innrásina í þinghúsið.

Tekið undir með Trump úr Hádegismóum

Þótt lítið sé um það samfélagslega hráefni sem Trump hefur tekist að virkja sér til stuðnings á Íslandi á forsetinn sína fylgismenn hérlendis líka. Í könnun sem gerð var í fyrrasumar sögðust um fjögur prósent aðspurðra að þeir myndu kjósa hann í forsetakosningunum sem framundan voru, hefðu þeir rétt til þess. Langmestur var stuðningurinn hjá kjósendum Miðflokksins. Alls sögðust 29 prósent þeirra að þeir myndu kjósa Trump, gætu þeir það. 

Fyrirferðamesti, og sýnilegasti, stuðningsmaður Trump er þó Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins og fyrrverandi forsætisráðherra Íslands. Í gegnum alla forsetatíð hans hefur ritstjórinn varið aðgerðir Trump, tekið undir samsæriskenningar hans, kynt undir andúð forsetans á fjölmiðlum og endurtekið glórulausa þvælu um pólitíska andstæðinga Trump. 

Eftir að Biden sigraði í forsetakosningunum í nóvember í fyrra, og sá sigur var „kallaður“ með hefðbundnum hætti, setti vefmiðill Morgunblaðsins fyrirvara á þann sigur. Í Reykjavíkurbréfi sem fylgdi var Trump málaður sem upp sem fórnarlamb óbilgjarnra alþjóðlegra eftirlitsmanna, gagnrýnandi á hátterni forsetans kallaður „eitthvert fyrirbæri“ og meginstraumsfjölmiðlum úthúðað.

Nokkrum dögum síðar var tekið undir að Biden hefði framið valdarán, og væri lyfjaður, í ritstjórnarefni Morgunblaðsins. 

„Sko hann“

Í leiðara Morgunblaðsins í dag, nokkrum klukkutímum eftir að múgur réðst inn í þinghús Bandaríkjanna til að andmæla staðfestri niðurstöðu í lýðræðislegum forsetakosningum og búið var að „kalla“ niðurstöðu í kosningum um tvö öldungardeildarþingsæti, er eftirfarandi það sem ritstjóri blaðsins hafði að segja við þá sem fá blaðið frídreift á fimmtudögum: 

  • Leiðarahöfundur véfengir niðurstöðu kosninga til öldungadeildarinnar þrátt fyrir að hún hafi verið „kölluð“.
  • Leiðarahöfundur endurtekur möntru sína um að Joe Biden hafi verið „geymdur í kjallaranum“ alla kosningabaráttuna. Hana hefur hann farið með í fjölmörg skipti, og apar þar með upp Twitter-færslur Trump. 
  • Leiðarahöfundur segir að Joe Biden hafi verið „rækilega studdur af bandaríska fjölmiðlaveldinu“ sem hafi brugðist algjörlega á síðasta kjörtímabili. Það hafi evrópskir fjölmiðlar líka gert.
  • Leiðarahöfundur segir að Biden, verðandi forseti Bandaríkjanna, gangi „ekki á öllum“. 
  • Leiðarahöfundur segir að „enginn forseti á síðari tímum hefur sætt öðru eins einelti og Trump“.
  • Leiðarahöfundur segir að Gallup hafi birt könnun í gær þar sem fyrir hafi legið að Trump væri dáðasti maður Bandaríkjanna. Þar vísar hann væntanlega í könnun sem birt var 29. desember. Þar kom fram að 18 prósent Bandaríkjamanna dáðu Trump mest allra landa sinna. Vert er að geta þess að í 60 af þeim 74 skiptum sem Gallup hefur framkvæmt umrædda könnun hefur sitjandi forseti Bandaríkjanna verið í efsta sæti. Frá 1980 hafa einungis tveir sitjandi forsetar ekki náð að vera í því sæti: George W. Bush árið 2008 og Donald Trump árin 2017 og 2018. 
  • Daginn eftir að Trump stýrði með upplognum ásökunum – sem stafa af sjúklegri sjálfhverfu og særðu stolti en algjöru skeytingarleysi fyrir frelsi og lýðræði – endar leiðarahöfundur Morgunblaðsins skrif dagsins á eftirfarandi orðum: „Sko hann.“

Það getur fallið hratt á

Ástæðan fyrir því að Davíð, og margir mótaðir úr svipuðum leir, tengja við Trump er ekki sú sama og fólkið sem réðst inn í þinghúsið í gær. Davíð er ekki fátækur né jaðarsettur. Hann hefur ýmsu að tapa, t.d. því litla sem eftir stendur af arfleið hans. 

Það sem Davíð sér í Trump er líklega einhverskonar ómur af þeim stjórnmálamanni sem hann var einu sinni sjálfur. Sterki karlinn sem traðkaði á andstæðingum sínum og skilgreindi hugtök eins og sjálfstæði, fullveldi og frelsi sem samþjöppun valds í höndum sjálfskilgreindra yfirburðamanna. Sá sem fyllir öll herbergi sem hann stígur inn með persónuleika sínum.

Auglýsing
Það féll hratt á Davíð eftir að stjórnmálaferill hans fór að missa flugið. Síðast þegar hann fékk mælingu, í forsetakosningunum 2016, fékk Davíð 25 þúsund atkvæði eða 13,7 prósent þeirra sem greidd voru, og lenti í fjórða sæti, þrátt fyrir að hafa rekið dýrustu kosningabaráttuna og verið allra þekktastur þeirra sem voru í framboði. Alls greiddi hann 1.103 krónur fyrir hvert atkvæði sem féll honum í skaut. Forsætisráðherrann fyrrverandi, sem lítur á sig sem stærsta stjórnmálamann Íslandssögunnar, var niðurlægður.

Það er erfitt að kyngja gamalli mjólk af skyldurækni

Á sínum rúma áratug við stjórn Morgunblaðsins hefur Davíð tekist að fara langt með að eyðileggja þá merku fjölmiðlastofnun, því miður. Tugþúsundir lesenda hafa yfirgefið blaðið og nú er svo komið að lesturinn er við það að fara undir 20 prósent (hann var 40 prósent skömmu áður en að Davíð tók við). Hjá fullorðnu fólki undir fimmtugu er hann rétt um ellefu prósent (hann var 30 prósent skömmu áður en að Davíð tók við). 

Fyrir þessa hnignun greiðir ofurstétt útgerðarmanna marga milljarða króna svo Morgunblaðið geti rekið sig áfram á afturhalds-pólitískum, ekki rekstrarlegum, forsendum. Kannski vegna þess að þeir fengu einhvern tímann einhver áhrif út úr eignarhaldinu á Morgunblaðinu, þegar það hafði slagkraft. Kannski vegna þess að hún telur sig skulda Davíð eitthvað. Kannski vegna þess að hún er orðin svo rík að milljarðar króna eru bara orðnir einhverskonar smælki.

Að minnsta kosti er engin rökrétt ástæða fyrir því að halda Davíð í vinnu við að leiða afvegaleiddan miðil enn lengra inn í þrengra samtal við sjálfan sig og örfáa aðra með sömu áferð.

Davíð er enda ekki maður sem fólk óttast lengur, heldur fyrst og síðast brjóstumkennanlegur. Skrif hans verða sífellt hjákátlegri og úr takti við allan raunveruleika. Hann er gamall valdakarl kominn langt fram yfir síðasta söludag og þeir sem kaupa það sem hann er að bjóða kyngja þeirri kekkjóttu mjólk af skyldurækni frekar en áhuga. 

Fátt endurspeglar það jafn vel og skrif hans um Trump.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiLeiðari