Sjálfstæðismenn eru nú að hefja undirbúning að sölu ríkisbankanna, með stuðningi VG og Framsóknar. Þau segja að þetta sé rétti tíminn til þess.
Allir vita að Sjálfstæðismönnum er ekki treystandi til að hafa almannahag að leiðarljósi við sölu bankanna. Það sýndi reynslan af einkavæðingu bankanna á áratugnum fram að hruni – með skelfilegum afleiðingum fyrir þjóðina.
Vill fólk endurtaka þann leik?
Helstu rök sem sett hafa verið fram fyrir sölu bankanna eru aukin skuldastaða ríkisins vegna Kóvid kreppunnar. Söluandvirðið muni þá lækka skuldir ríkisins.
Þetta eru skárri rök en hin venjulega blekkingarklisja frjálshyggjumanna um að einkaaðilar geri allt betur en ríkið. Nú er Landsbankinn í eigu ríkisins betur rekinn en Arion einkabankinn. Munið það.
Hin leiðin
En ef menn vilja nota bankana til að greiða niður skuldir ríkisins vegna Kóvid kreppunnar þá er önnur leið augljóslega betri.
Ríkið leggur um 200 milljarða í beinar mótvægisaðgerðir á árunum 2020 og 2021 (sjá skýrslu fjármálaráðuneytisins hér).
Arðgreiðslur út úr ríkisbönkunum í ríkissjóð námu um 207 milljörðum á aðeins fimm árum, frá 2014 til 2018 (sjá hér). Pælið í þessu.
Það mun því væntanlega vera hægt að greiða niður allar skuldir vegna þessara auknu útgjalda á einungis fimm árum eftir að uppsveiflan hefst á ný, með arðgreiðslum úr ríkisbönkunum. Vilja menn frekar að þetta fé renni í vasa einhverra auðmanna í Sjálfstæðisflokki eða Framsókn? Er það hagur almennings?
Ef bankarnir verða seldir nú þá fæst ekki raunvirði fyrir þá, frekar en venjulega við einkavæðingu – og ekki nóg til að greiða allan kostnað vegna Kóvid kreppunnar.
Til viðbótar þessum 200 milljörðum vegna mótvægisaðgerða hefur ríkið orðið fyrir umtalsverðu tekjutapi í kreppunni, vegna minni skatttekna. Það bætist við ríkisskuldirnar líka.
Með því að eiga bankana tvo áfram þarf líklega ekki meira en 7 til 10 ár til að greiða hinar auknu skuldir ríkisins að fullu vegna kreppunnar, með arðgreiðslum af rekstri bankanna í ríkissjóð.
Nú er því augljóslega rétti tíminn til að eiga bankana áfram og láta þá greiða þennan reikning. Þannig má forðast skattahækkanir og niðurskurð í velferðarmálum og innviðframkvæmdum á næsta áratug.
Þegar búið verður að greiða allan kostnað ríkisins vegna kreppunnar á þennan veg mætti hugsanlega selja hlut úr Íslandsbanka til að greiða fyrir kostnað við byggingu hins nýja Landsspítala – ef þáverandi stjórnvöldum verður treystandi.
Það hljóta allir að sjá skynsemina í þessu – nema auðvitað þeir sem vilja sjálfir hirða þennan arð úr bönkunum í eigin vasa.
Höfundur er prófessor við HÍ og sérfræðingur hjá Eflingu – stéttarfélagi.