Eitt stærsta vandamál Íslands sem hefur verið rauður þráður í sögu þessa lands eru leiðinlegir valdhafar. Fyrst voru þeir þrælahaldarar og víkingar sem drifu alþýðuna í borgarastyrjöld, síðan kom danskt yfirvald með sínum tveim vöruskipum á ári, einokun og áhugaleysi yfir málum þessa lands, og loks kom sjálfstæðisbaráttan og íslenskir stjórnmálamenn ruddu sér til rúms. Gamlir karlar sem eru svo ómerkilegir að það er ekki einu gerð tilraun til að kenna okkur um þá í skólum.
Talandi um rauða þræði; hafa ekki allir farið til útlanda, komið heim og óskað þess að við hefðum eitthvað sem var þar ytra? Almenningssamgöngur, stór og spennandi söfn, skemmtilegar göngugötur og spennandi matarmenningu eru allt hlutir sem við erum einungis nýbyrjuð að fikta í hér á landi. Af hverju? Ég tel að það sé vegna valdhafa sem álitu óhefðbundin skáld eyðileggja íslensk ljóð, orlofsíbúðir augnasár í náttúrunni, afnám einokunar storkun við vilja guðs og fleira en eitt flugfélag óraunhæft.
Það glerþak sem mikilvægast er að brjóta í samtímanum er glerþakið fyrir spennandi hugmyndir. Mesta gleði sem ég upplifði á síðasta ári var þegar ég fann kebab sjálfsala, já kebab sjálfsala. Á Íslandi. Í Engihjallanum. Þetta er veisla, af hverju getum við ekki gert meiri veislu úr hlutum?
Ég held að þetta sé raunhæft, og veisluhyggja mun alltaf spila hlutverk í ákvörðunum framtíðarinnar. Við höfum ítrekað orðið vitni að því hvernig afslappað hugarfar leiðir til góðra hluta. Skerðing á vinnutímum hafa leitt til aukinnar framleiðslugetu verkamanna, velferðarkerfi minnka glæpatíðni og réttindi kvenna og minnihlutahópa margfalda samfélagsleg gæði. Margar hugmyndir sem flokkast undir veisluhyggju virðast vera fáránlegar fyrir framkvæmd, en um leið og veisla er byrjuð og þú ert í henni miðri er afar erfitt að vera fúll á móti.
Flestir skilja og eru sammála veisluhyggju varðandi samfélagsskipan. En erfiðustu hlekkirnir í myndun veisluvædds samfélags eru mikil ádeilumál. Að sjálfsögðu er lestin og sporvagninn eitthvað sem auðvelt er að vera á móti sökum kostnaðar, og nýja stjórnarskráin (sem er veisla) hefur fengið sinn skerf að þöggun og gagnrýni. Ef ég þarf að réttlæta veisluhyggju skaltu líta til framtíðar þar sem þú tekur sporvagn til að mæta tímanlega á Solstice eftir að hafa skrifað undir lagafrumvarp sem fer inná þing þökk sé borgaralýðræði, og hinsvegar framtíð þar sem þú mætir seinn í bíó því strætó seinkaði. Myndin er upplestur Eddukvæða styrkt af Norsku laxeldisfyrirtæki.
Höfundur er nemi við Menntaskólann á Akureyri.