Á Parísarráðstefnunni 2015 var öllum ljóst að fyrirheit aðildarríkjanna um samdrátt í losun myndu hvergi ekki duga til að takmarka hlýnun vel innan við 2°C, hvað þá 1,5°C. Lausnin varð að ríki voru hvött til að senda uppfærð markmið sín skrifstofu Rammasamnings Sameinuðu þjóðanna árið 2020.
Nánar tiltekið segir í 35. tölulið ákvörðunar 1/CP.21, sem liggur til grundvallar samþykkt Parísarsamningsins, að á árinu 2020 voru aðildarríkin hvött til „að senda skrifstofu samningsins þróunaráætlanir til langs tíma um litla losun gróðurhúsalofttegunda“. Jafnframt að skrifstofan skuli á vefsetri sínu birta þessar langtímáætlanir ríkjanna.
Ísland er ekki á þeim lista.
Fresturinn rann því út við árslok – en Ísland skilaði auðu. Á hinn bóginn hafa öll önnur norræn ríki skilað sínu og sömuleiðis Evrópusambandið.
Skammtímamarkmið
Samkvæmt fréttatilkynningu forsætisráðherra frá 10. desember sl. liggja fyrir Ný og metnaðarfull markmið í loftslagsmálum og ætlar Ísland í samfloti með Noregi og ESB að auka samdrátt ,,í losun gróðurhúsalofttegunda. Úr núverandi markmiði um 40% samdrátt m.v. árið 1990 í 55% eða meira til ársins 2030, en það markmið tengist samfloti Íslands með ESB og Noregi.“ Er þetta í samræmi við ákvörðun Evrópusambandsins 11. desember sl. Líkt og gerðist eftir ráðstefnuna í París virðist Ísland ekki hafa neinn sjálfstæðan metnað.
Kolefnishlutleysi
Hraður samdráttur í losun gróðurhúsalofttegunda og kolefnishlutleysi fyrir miðja þessa öld eru lykilatriði við uppfærslu markmiða ríkja samkvæmt Parísarsamningnum. Ráðamenn tala gjarnan um kolefnishlutleysi árið 2040 en aðhafast fátt til að gæða hugtakið lífi með því að lögfesta stefnu um kolefnishlutleysi árið 2040 líkt og loftslagsráð hefur lagt til.
Segir í áliti loftslagsráðs:
„Það markmið að Ísland verði kolefnishlutlaust árið 2040 hefur ekki verið lögfest eins og nokkur þjóðþing hafa þegar gert varðandi sambærileg markmið. Slíkt skapar aukna stefnufestu og eykur líkurnar á því að markmiðið hafi varanleg áhrif. Loftslagsráð telur mikilvægt að það skref verði stigið hér á landi.“
Minni losun
Samkvæmt hugveitunni Climate Action Tracker er staðan varðandi áform ríkja um ný markmið um samdrátt í losun eftirfarandi:
Ísland gæti e.t.v. fallið undir grænan hatt ESB en nýtt sjálfstætt og metnaðarfullt markmið um samdrátt í losun, innan ramma samstarfsins við ESB og Noreg, hefur hvorki verið kynnt á vettvangi Rammasamningsins né hér heima.
Enn sem fyrr er loftslagsstefna ríkisstjórnarinnar þykk sem þokan.
Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.