Nú um áramótin gengu í gildi tvenn ný lög sem geta, ef rétt er á haldið, verið mjög áhrifarík og gagnleg til að verja íslenskt samfélag og hagsmuni almennings gegn spillingu. Um er að ræða lög um vernd uppljóstrara og lög um varnir gegn hagsmunaárekstrum í stjórnarráði Íslands. Ástæða er til að hvetja fólk og fyrirtæki til að kynna sér þessi lög og fjölmiðla til að kynna þau vel og fylgjast náið með framkvæmd þeirra.
Áhrif þessara laga eru mjög undir því komin að íslensk stjórnvöld taki skyldur sínar samkvæmt þeim alvarlega og hagi framkvæmd laganna, eftirliti með að þau séu virt og viðbrögðum við brotum gegn þeim í samræmi við það. En það er þó fyrst og fremst undir okkur sjálfum komið hvernig gengur að verja samfélagið okkar og hagsmuni gegn spillingu. Þrýstingur á stjórnvöld, fyrirtæki og einstaklinga í áhrifastöðum, kröfur almennings um gagnsæi og óspillt vinnubrögð, ábyrgir og vakandi fjölmiðlar, virðing fyrir öflugum og kjarkmiklum rannsóknarblaðamönnum og virk vernd og fullnægjandi stuðningur við uppljóstrara hafa þar mest áhrif.
Hvað varðar mælingar gegn spillingu njóta alþjóðlegu Transparency International (TI) sérstakrar viðurkenningar á alþjóðavettvangi. Samtökin voru stofnuð árið 1992 og hafa um langa hríð verið ein áhrifaríkustu samtökin sem vinna að heilindum í stjórnmálum, stjórnsýslu og viðskiptalífi hvarvetna í heiminum. Samtökin eru sjálfstæð og óháð stjórnvöldum og eru ekki rekin til að skila hagnaði. Þau starfa í meira en 100 löndum og berjast gegn spillingu og því mikla óréttlæti og margs konar samfélagslega skaða sem hún veldur.
Samtökin birta árlega niðurstöður mælinga á spillingu í flestum löndum heims, sem byggist á áliti sérfræðinga og aðila í viðskiptalífinu í viðkomandi löndum. Þessi mæling og niðurstöður þeirra kallast Corruption Perception Index (CPI) á ensku. Fyrir u.þ.b. 15 árum var Ísland á toppnum á CPI-listanum, ásamt öðrum norrænum löndum þar sem spilling mælist almennt einna minnst í heiminum. Síðan þá hefur Ísland færst hratt niður CPI-listann og var á síðasta ári í 11. sæti og töluvert langt á eftir hinum norrænu ríkjunum. Transparency International mun næst birta niðurstöður CPI-mælinga sinna nú í lok janúar.
Íslandsdeild TI er nú að taka til starfa. Upplýsingar um hvernig hægt er gerast félagi í deildinni má nálgast á heimasíðunni: www.transparency.is).
Höfundur er framkvæmdastjóri Íslandsdeildar TI.