Ég frétti fyrir nokkrum vikum síðan að það væri rannsókn í gangi á Íslandi sem fjallar um hvaða áhrif það hefur á konur að vera ætlað að bæla alla erfiða reynslu varðandi það að fæða börn í heiminn.
Ég ákvað þá að deila þeim hluta sögu minnar sem er um upplifun á bælingum til þöggunar á líðan. Sú saga er smá dæmi um langtímaafleiðingar þess að mega ekki segja frá.
Um aldir var hvorki sameiginlegur skilningur né samþykki um tjáningu um hinar dýpri tilfinningar í mannkyni. Og það allra síst að það gæti verið óánægja í konum að verða barnshafandi og fjölga mannkyninu. Hvað þá að það gæti verið mögulegt að foreldrar gætu misnotað börn sín.
Dæmin eru um hvað það geri í innra lífi og líkama mannvera, ekki bara kvenna heldur beggja kynja, að vera krafinn um að þegja og bæla. En hér er áherslan á það fyrst og fremst varðandi konur. Áhrif bælingar tilfinninga sem ekki mátti tjá og sem þá lenda sem langtímageymsla í líkamanum, í kerfum líkamans eins og ég hef upplifað en mér var oft bannað að sýna tár.
Reynsla sem konur máttu ekki og gátu ekki tjáð sig um, fyrr en viðhorfin fóru að mýkjast um slíka tjáningu.
Það hafa verið þó nokkrar greinar í blöðum á netinu undanfarin ár um erfiða lífsreynslu yngri kynslóðarinnar á Íslandi. Það er ljúft fyrir mig að sjá að nú megi tjá sig um slíkt opinberlega. Og að mínu áliti er það mikil bylting frá þeim tímum sem ég var ung á Íslandi, fædd um miðja síðustu öld.
Mannverur eru ekki staðlaðar en þannig var álitið
Þegar ég hafði sagt það við vini um árið og þá meina ég fyrir nærri fimmtíu árum síðan að barnið í móðurlífi myndi hafa upplifað vansælu mína, þá var mér sagt að það gæti ekki verið. Hvernig gæti annað verið? Þar sem líkami barns er þá hluti af þínum líkama. Og hér í Ástralíu staðfesti læknir það að stress móður á meðgöngu og eftir hefði áhrif á og í barninu. Svo að stressið í konunni sem ég kom frá var auðvitað eins.
Lífsreynsla er auðvitað heill heimur af allskonar atvikum. En um sumt af þeim hafa samfélögin krafist þöggunar um aldir, af því að það hentaði ekki að opna samfélagið fyrir öllum þeim tilfinningum. Og margir, ef ekki allir eða flestir af eldri kynslóðum hafa lifað við slíkar kröfur um að þegja yfir sinni erfiðu og flóknu lífsreynslu.
Tjáning um lífsreynslu hefur trúlega allavega tvennskonar gagn og markmið. Það er í fyrsta lagi fyrir viðkomandi að koma henni í orð og út. Og létta þannig á því sem inni fyrir býr frá slæmri lífsreynslu. Reynslu sem er og hefur verið byrði. Byrði sem þarf að komast út í ljósið til rökrænnar og tilfinningalegrar vinnslu, svo að sárin skapi ekki langtímavandamál andlega, tilfinningalega, eða líkamlega eins og verið er að viðurkenna af læknavísindum á síðari tímum. Svo er auðvitað meiri tilgangur í tjáningunni ef reynslan gefur öðrum innsýn til að læra af því sem tjáð er. Eða bara vita að þau hafa ekki verið ein um að hafa slíka reynslu. Ég hef heyrt marga varpa öndinni léttar við að læra um aðra sem hafa upplifað það sama og þau.
Svo er það köfunin
Ferlið í að finna orðin fyrir reynslu sem líkaminn hefur geymt í langan tíma er líka byrjunin á heilun og dýpri skilningi á þeim atriðum.
Það getur þó tekið suma langan tíma að fá slíkan orðaforða og opnun fyrir sig og í sér. Það var tilfellið með mig af ótal óvenjulegum ástæðum. Og það ekki síst í máli eins og því íslenska vegna þess að þetta mál er ansi fátækt af tilfinningalegum orðum eins og íslenskukennari í MH viðurkenndi fyrir mér um árið.
Svo er tjáningin frá köfuninni auðvitað mikilvæg til að læra enn meira um hið ríka litróf tilfinninga sinna sem er kjarninn þess að geta lifað öllu sínu eigin tilfinningalífs-litrófi. Tilfinningar voru séðar á sérkennilegan hátt á mínum tímum. Og tjáning um tilfinningar varðandi getnað og meðgöngu voru undir þungu fargi kröfu þöggunar. Þau að mínu mati voru tengd við álit trúarbragða sem kaus að staðla kynin og ákveða hvernig hlutirnir ættu að vera. Það var enginn möguleiki á fjölbreytni um hugsanir um slík mál.
Bældar tilfinningar eru orka sem hlaðast upp
Ég heyrði konur ekki tala um löngun í börn á þeim árum. Konurnar í kring um mig voru líklega konur sem höfðu aðrar þrár en barneignir, og áttu auðvelt með að verða barnshafandi. Svo að það var hluti af náttúrunni sem gat verið burtséð frá hvort það var í raun löngun í barn. Það gæti trúlega hafa verið frá því að mömmur þeirra og ömmur áttu erfitt með sínar meðgöngur vegna fátæktar og annarra vandamála. Og enga læknishjálp að fá.
Ég lifði við þann þöggunararf vegna hegðunar móður í því ástandi. Konan sem fæddi mig í heiminn var ekki glöð þegar hún var þunguð af mér. Seinna þegar ég var tíu ára og svo aftur tólf ára þá vitnaði ég komu tveggja síðustu systra bætast í hópinn.
Ef við berum viðbrögð við komu þeirra saman við það sem gerist í dag eins og í þáttunum „Eitt barn fæðist á mínútu hverri“, eða „One born every minute“ eins og þátturinn kallast á ensku, þá voru þau í meira lagi undarleg.
Ég skildi ekki fyrr en löngu seinna hvað slíkt gleðileysi við komu fínna heilbrigðra barna gerði mér hið innra. Það er af því að þegar maður er svo háður þeim sem fæddu mann í heiminn þá er slíkt á sinn hátt eins og gildra.
Slík hegðun foreldra fer þá hárfínt framhjá manni sem barni og unglingi. Andrúmsloftið situr samt auðvitað í manni. Þögul skilaboð á öldum orkunnar sem segja að það að fæða börn í heiminn sé ekki af neinu mikilvægi, né gleði.
Hin ósýnilega en þunga orka bælinga
Hin neikvæða orkuhleðsla hins óvelkomna getnaðar getur verið á þessa leið. Og var á þessa leið við komu mína í heiminn. Getnaður gerist. Konan er vansæl. Hana dreymdir um starfsframa. Skömmin og smánin í þeim kringumstæðum að verða barnshafandi án þess að hafa sagt já við prest og mann við altari, lét hana verða að fara í felur með þungunina. Það var smán. Smán sem sat í líkama mínum þangað til ég náði að skilja það og ákveða að kveðja þá sekt. Það var auðvitað löngu fyrir tíma þess að þungunarrof væru leyfð.
Þar af leiðandi fóru þær tilfinningar auðvitað sem orka óvildar inn í barnið. Það eru fyrstu skammtarnir af þeirri ósýnilegu neikvæðu orku hleðslu sem fara inn í líkama barnsins. Hin innri skilaboð um að vera ekki velkominn í líf þessarar konu er auðvitað þung orka. Ekki sú létta og ljúfa sem fylgir ást og því að vera fyrirfram óskað eftir og velkominn. Þetta dæmi á ekki bara við um mig og mitt líf, heldur milljónir annarra.
Fæðing fyrir rúmum 73 árum í heimahúsi
Fæðing sem tók 72 tíma. Barnið fæddist með mjöðm úr liði. Sú sem fæddi það í heiminn yfirgaf barnið svo til að fara til annars lands. Það var af því að henni og þeim manni sem hún hafði mökin við var skipað að giftast.
Barnið endaði í sjúkrahúsi á tímum þegar enginn skilningur var á tilfinningalegum þörfum ungra barna fyrir að hafa þá nánustu hjá sér. Sem samkvæmt nútímaskilningi er slæmt. Neðra heilahvolfið fær ekki þá örvun sem er nauðsynleg og tefur þroska þess.
Barnið var í gæslu ömmu og afa fyrstu tvö til þrjú árin. Einn dag kemur þessi kona svo sem fæddi hana í heiminn og tekur hana til þess annars lands sem hún hafði komið frá til að ná í hana. Og sálfræðingur sagði mér barn myndi upplifa slíkt sem mikið áfall. Ólýsanleg reynsla sem barnið getur auðvitað ekki gert neitt við. Tilfinningarnar fara í óaðgengileg hólf í heilanum.
Barnið hefur enga tengingu við þessa konu sem fæddi það í heiminn, eða fær neitt í heilann sem geymir reynsluna um ferðina. Það fær heldur ekki neitt í heilabúið til að muna neitt um dagana í nýju landi og umhverfi, og skilur auðvitað ekki málið sem er talað. Barnið hefur auðvitað enga möguleika til að hafa hugsun um það þá. Ekkert festist í þeim hluta heilans sem geymir minningar og myndir frá lífsreynslu þess. Tengingar á milli lægri og efri hluta heilans eru ekki virkar. Það var auðvitað vegna skorts foreldra á áhuga fyrir þroska hennar, og þeirra tíma hæfnisleysi og þekkingarleysi til að skilja mikilvægi slíks fyrir ung börn. Það að grunnþörf fyrir þróun heilabúa þeirra sé að foreldrar kunni að lesa tilfinningar barna sinna um það sem var að gerast í lífi þeirra og umhverfi. Engin nándartenging hafði gerst á milli hennar og foreldranna.
Annað tímabil um þessar bælingar
Það er ansi sérkennilegt að vita röklega að við fluttum til Íslands árið 1954 en hafa enga minningu um neitt af því. Það staðfestir hið mikla tómarými í sambandinu í fjölskyldunni. Það er líkami sem hafði verið færður eins og peð á tafli í svo mörg ár án tjáningar sem myndu skilja myndir og annað eftir í heilabúinu.
Eftir fjögur ár í öðrum löndum fluttum við til baka til Íslands. Fyrsta barnið, ég sem hafði verið færð eins og peð á tafli í mörg ár, fékk enga glóru í heilann þó að ég væri þriggja ára þegar næsta systir fæddist né þegar líkami minn var fimm ára, að enn eitt nýtt barn væri í vændum og bættist við, og það í tveim mismunandi löndum. Hvar var ég? Ég, eða líkami minn var sjö ára þegar við snerum til baka til Íslands. En ég hef ekkert í heilanum um þá ferð né neitt annað, og veit ekki heldur hvort neinir tóku á móti okkur við komuna, eða hvort við ferðuðumst í flugvél eða á skipi.
Það er sem engin gleði hafi verið í þeim staðreyndum að við vorum þrjár þá. Þjónusta við nauðungargiftingu og kynhvöt virðist hafa ráðið ferðinni.
Svo er spurning hvort að undirliggjandi ástæður hafi hugsanlega verið þjónusta við þörf þjóðarinnar fyrir fjölgun? En ekki neinar tilfinningar í gangi um að hlakka til að eignast börnin og kynnast þeim. Ég lýsi reynslu minni eins og ég hef lært að sjá hana í stærri myndinni eftir á. Svo auðvitað einnig vegna þarfar til að kafa í feril lífs míns. Það lenti ekki í hinu staðlaða formi sem þjóðfélagið ætlaðist til.
Að minni sýn núna var því einnig stýrt allavega að miklum hluta af þeim aðilum trúarbragða sem skálduðu um lífið út frá eigin hentisemi, og vildu sjá mannkyn og hegðun þess staðlaða. Og eins og ég sé þau viðhorf, voru þau hugsuð frá trú sem byggð var á lífi dýra.
Dýr hafa ekki drauma um starfsframa, það hefur mannkyn hinsvegar. Og það þeim mun meira sem iðnvæðing og tækifæri birtust til að nota heilabú og hæfileika komu til sögunnar á þeim tímum. Og það eru ekki allir fyrir það eitt að fjölga genum sínum, sumir kjósa að sleppa því algerlega.
Tímamót nýs skilnings
Það fer allt í huliðsheima eins og greint er frá í bókinni „The Power of Showing up“ eftir Daniel J Siegel, MD og Tina Payne Bryson, PhD.
Höfundar bókarinnar segja að það sé ekki barninu að kenna hvað því sé gert rangt og slæmt. Þó kemur fram að hægt sé að breyta hlutunum fljótt eftir að barnið fer að heiman. Það tækifæri var þó ekki fyrir hendi í mínu tilfelli. Og engin þekking, viðhorf né tækifæri til staðar á Íslandi minna tíma.
Í þessu tilfelli kom það tækifæri til að skilja slíkt ekki fyrr en ég flutti til Ástralíu. Flutningur huga og líkama sem gáfu tækifæri fyrir ótal tilfinningar og orku úr iðrum mínum að rísa frá löngu liðnum tímum.
Það tækifæri kom of seint fyrir mig og börnin sem ég fæddi í heiminn. Þó að betra sé seint en aldrei til að læra meira um veruleikann.
Áhrif þess dulda á hið innra sem kemur upp áratugum síðar
Neikvæð orkuhleðsla frá erfiðum langtímatilfinningum var ekki til í þessu máli á mínum tímum á landinu. Það er mikilvægt hugtak, af því að það lýsir því sem gerist þegar mannveran sem barn eða unglingur er algerlega ófær um að verja sig eða standa upp fyrir sjálfu sér í slæmum kringumstæðum. Eins og til dæmis þegar slæmum orðum er hellt yfir það í gegnum árin og engin vitni til þeirra orða nema þolandi. Neikvæðir orkuskammtar sem ekki var eða er hægt að vinna úr í augnablikinu, né næstu ár og áratugi.
Þá sér björgunarkerfið í undirvitundinni um að demba þeirri orku inn í líkamann, og setja hana einhvers staðar. Á stað sem viðkomandi hefur ekki einu sinni tækifæri til að hafa glóru um hvar er, né getur náð í þær. Þær tilfinningar finna þá leið til hliðarspora eða rása hið innra. Þær fara þangað sem þær finna góða boðleið. Af því að þær fá ekki að vera tjáðar eins og náttúran reiknar með. Stig og gráður tilfinningalegra tjáninga er líkleg til að lækka í sumum kringumstæðum, en hækka í öðrum.
Þær tvær bækur sem hafa varpað hvað mestu ljósi á hvað vantaði í lífi mínu sem barns og unglings eru „The Body Keeps the Score“ eftir Bessel Van Der Kolk. Líkaminn geymir reynsluna, sem Daniel J Siegel, MD og Tina Payne Bryson, PhD, tala líka um í bók sinni „The Power of Showing up“. Þau leggja áherslu á mikilvægi þess að foreldrar lesi tilfinningar barna af mikilli nákvæmni og nærfærni, innsæi og skilningi. Um leið og þau viðurkenna að foreldrar hafi líka öðrum hnöppum að hneppa.
Lesturinn skýrði fyrir mér afleiðingar þess að hafa ekki upplifað þann tilfinningalestur í mér sem þau tala um. Það eru allt hleðsluatriði bælinga til langs tíma.
Lestur foreldra á tilfinningum barna sinna eru hin mikilvægu atriði fyrir börn til að öðlast góða tilfinningu um eigið virði og til að öðlast „tilfinningalegan þroska“. Hugtak sem ég heyrði ekki fyrr en eftir að koma til Ástralíu þegar bók kom út með þeim titli.
Bók Daniels og Tinu staðfesti og sýndi mér fleiri smáatriði sem ég hafði ekki fengið á mótunarárum eða síðar. Það var trúlega vegna þess að þessi fræði höfðu ekki komið fyrir augu almennings. Hin almenna félagslega hlið var það sem ríkti án djúprar persónulegrar nándar, og var það sem ég upplifði í umhverfi mínu. Ég tel að slíkt hafi verið séð sem nægt atlæti á þeim tímum. Þar af leiðandi hafa margir einstaklingar lært að þagga allt erfitt niður.
Bók Sæunnar Kjartansdóttur „Árin sem enginn man“ er líka meiriháttar lestur um mikilvægi þess að foreldrar lesi og sinni tilfinningalegum þörfum barna sinna.
Svo er það staðreynd að hlutverk blórabögguls er aldrei auðvelt. Mistök sem enduðu draum konunnar um starfsframa sem varð barnshafandi gegn eigin vilja eða óskar, og gerðist í stundarkæruleysi nautnar.
Það barn getur ekki orðið annað en langtímablóraböggull, af því að tilvist þess er hin eilífa áminning um það stutta augnablik sem eyðilagði drauminn. Blóraböggullsástandið situr í því þangað til að það vaknar til að enda þá stöðu.
Skuggarnir sem sitja í líkamanum frá íhaldssömum viðhorfum og vanþekkingu
Ástæðurnar fyrir þessari algeru hundsun á mér sem barni voru trúlega tvær. Dæmið var rangt fyrir þau sem einstaklinga, og engin þjálfun var veitt þá í að lýsa eigin tilfinningum fyrir sjálfum sér eða öðrum. Og foreldrar höfðu öðrum hnöppum að hneppa, vinnu á einn veginn, og áhugi fyrir nýja landinu á hinn. Foreldrarnir voru með sína eigin stóru skammta af bælingum, sem ég fékk auðvitað líka í svokallaðan orkuarf með því sem bættist á og í mig í neikvæðum athugasemdum um útlit mitt og tilveru í gegnum árin.
Lestur á tilfinningum barna var trúlega ekki einu sinni orð eða hugsun í málinu á þeim tímum. Voru þau hugsanlega ekki séð sem eitthvað sem þörf væri á að kenna fólki?
Þegar tilfinningar foreldra eru líka hundsaðar af foreldrum þeirra þá fer margt í undirheima. Það má kannski líkja því við að vængir þeirra hafi verið brotnir og þá halda foreldrar áfram að brjóta vængi barna, eða þeirra sem þeim líkar ekki tilvistin á. Tilfinningar fara í aðrar rásir. Og ekki neitt rými fyrir hendi til að skilja og vinna með tilfinningar barnanna. Lög frumskógarins í samfélaginu séð sem nóg.
Hin lærða niðurstaða eftir öll þessi ár
Það sem ég vitnaði í samfélaginu um slæma reynslu, og að vera með tilfinningasemi, var að það var hvorki skilningur né einu sinni vilji til að viðurkenna tilfinningar mínar. Hvað þá að sú staðreynd væri skilin að erfið tilfinningaleg reynsla hyrfi ekki „si svona“ eins og eyðingartakki á tölvu gerir þegar ýtt er á hann um leið og slæma atvikið gerðist. Það var og er þægileg réttlæting fyrir þá sem vildu og vilja ekki þurfa að hugsa um orð sín.
Sem betur fer eru hin huglægu vísindi að afhjúpa þá afneitun nú á tímum. Sá sannleikur að það sé mikilvægt að tjá sig um að vera meðtekinn í landinu. Og þjóðin byrjuð að skilja tjónið af kröfunni um þöggunina.
Bæði kynin hafa auðvitað fengið þá kröfu um að þegja. Karlmönnum var líka skipað að halda tilfinningum sínum fyrir sig, til að sýna sig sem alvöru karlmenn. Sem er auðvitað slæm tegund misnotkunar. Ég veit auðvitað meira um tilfinningalegu tengingarnar um þöggunarkröfurnar sem varða konur. Þó að ég skilji auðvitað að sú krafa til karla hefur valdið ótal ófyrirséðum vandræðum og sársauka í heiminum, sem og í samskiptum kynjanna.
Sorgleg og vanhugsuð kenning sem sett var inn í heilabú karlkyns fyrir mörgum öldum. Og margir eru því miður að lifa þann veruleika og trú í sér enn þann dag í dag.
Þöggunarkrafan hvað varðaði tjáningu um erfiðleika í meðgöngu og eftir hana var frá þeirri trú að konur yrðu að „bera harm sinn í hljóði“ til að þjóna þjóðinni með því að fjölga henni sem átti auðvitað líka við um óþægindi fyrir bæði kyn að sjá sem dyggð að halda fyrir sig.
Konur áttu ekki að afsanna kenningar presta með því að tjá hið gagnstæða við það sem þeir höfðu haldið fram um reynslu barnshafandi kvenna. Álit sem ég sé þannig að þeir töldu sig skilja út frá þessu með dýrin.
Það var séð sem guðlast að segja eitthvað neikvætt gegn því áliti þeirra að konur upplifðu alltaf himnaríkissælu við að vera með barni. Álit án rannsóknar inn í sannleika kvenna.
Ég sé núna sem 73 ára gömul hvernig slík þöggunarkrafa raðaðist hið innra í heilabúið mitt. Og lærði að kerfin mín fundu leiðir til að fara framhjá afleiðingum þeirrar vanrækslu í aðrar áttir og að nota það sem seinna voru góðir hæfileikar fyrir annað.
Afleiðingar þess að vera svo sjálfri ýtt í að finna mann og skaffa þegna af þeim konum sem settu virði mitt sem mannveru á núll, þegar heilabú mitt og sál voru engan veginn komin á réttan stað í mér til að vita hvað ég vildi gera við líf mitt. Sú skipun átti sér auðvitað rætur í mjög vanþroskuðum hugum kvenna sem skildu ekki mikilvægi réttar kvenna til sjálfræðis um líf sitt.
Né höfðu þær neina hugmynd um hvað það gerði taugakerfi ungrar konu með hreinlega ekkert sjálfvirði. Ég hafði ekkert í mér til að neita fullyrðingum þeirra um framtíð mína. Fullyrðingar sem voru neikvæðir spádómar um mig sem fólust í þessum hræðilegu árásum þegar þær helltu þeim hatursfullu orðum að mér. Orðum sem ég lærði ekki að skilja hvers konar tjón hafði skapað og orðið fyrr en meira en hálfri öld síðar. Sú staðreynd varð mér þá fyrst ljós við að lesa bókina „The Power of Showing up“ sem ég hef nefnt fyrr í þessari grein. Stelpur víða um heim eru enn að lifa slík viðhorf.
Ég er að fara í gegnum mjög óvæntar langtímaleifar í mér núna í ellinni. Það var mjög óvænt ferli að upplifa hvernig tilfinningar, sem höfðu verið bældar mest alla ævina, skriðu svo upp, eins og úr leyndum hólfum við réttar athugasemdir fólks. Og líka við að sjá kvikmyndir um lífið.
Við komu mína hingað vissi ég að ég yrði að vinna í sjálfri mér og laga mína brotnu vængi. Ég fann rétta aðila fyrir mig eftir heimsókn til Íslands fimm árum frá brottför, sem staðfesti það enn frekar fyrir mér. Meðferð sem fólst í hreinsun á orkuhjúpum sem og viðhorfum. Aðferðum sem gerbreyttu svo mörgu til góðs í lífi mínu sem leiddi til þess að ég náði að finna mig og tilgang minn.
Þá, eins og áður er sagt, voru greinilega samt djúp atriði sitjandi í undirheimum líkama míns. Veruleikamynd sem heimurinn hafði ekki haft svör fyrir árið 1993 sem ég fór í yfirhalninguna. Svör sem svo birtust frá tveimur aðilum á árinu 2017, 2019 og til dagsins í dag.
Ég tel að afleiðingar bælinga séu að gerjast hjá mun fleirum en nokkurn grunar og sumir geta kannski ekki melt hvað sé að hrærast innra í þeim. Elliheimilin í öllum heiminum gætu verið full af fólki sem upplifir slíkt á einn veg eða annan. Þær gömlu tilfinningar sem gætu birst í óvæntum tárum og sorg. Og þær og þau hefðu öll gott af að fá hjálp til að tjá sig um kröfur um þöggun.
Ég verð að taka fram að ég skrifa þetta út frá eigin reynslu, innsæi og upplifun en ekki sem sérfræðingur frá háskóla. Bara skóla míns eigin lífs og lestri bóka sem hafa staðfest það sem ég upplifði og vitnaði.