Samtök um líkamsvirðingu vilja lýsa yfir áhyggjum og vonbrigðum með efnistök Ríkisútvarpsins (RÚV) þegar kemur að umfjöllun um holdafar.
Einhliða og skaðleg efnistök um holdafar á dagskrá
Nú í janúar hafa verið sýndir tveir heimildaþættir frá BBC á RÚV. Annarsvegar er um að ræða þáttinn Skyndimegrunartilraunin (The Big Crash Diet Experiment) þar sem fylgst er með fjórum feitum einstaklingum sem settir eru á öfgafullan, fljótandi megrunarkúr þar sem þau fá einungis að neyta um 700 hitaeininga á dag í 9 vikur. Niðurstaða þáttarins er sú að það slæma umtal sem fylgir öfgakenndum megrunarkúrum eigi ekki rétt á sér og að það sé vel á það reynandi að skella sér á slíka kúra. Þessi niðurstaða er þvert á niðurstöður áratuga rannsókna sem hafa tekið af öll tvímæli um að skyndimegranir sem þessar séu stórhættulegar líkamlegri, andlegri og félagslegri heilsu.
Fyrir utan lélegar árangurstölur þegar kemur að langvarandi þyngdartapi, sem eru á bilinu 3-5%, þá hefur ekki enn tekist að sýna fram á að þyngdartapið sjálft leiði til heilsubótar. Algengasta útkoman úr þyngdartapstilraunum, hvaða nafni sem þær nefnast, er þyngdaraukning (1, 2, 3 og 4).
Líkurnar á því að feitt fólk nái einhvern tímann kjörþyngd á ævi sinni eru stjarnfræðilega lágar (5). Þetta orsakast ekki af skorti á viljastyrk heldur mótvægisaðgerðum sem líkaminn grípur til þegar hann upplifir hungursneyð og hafa fylgt mannkyninu frá upphafi.
Í heimsfrægri tilraun Ancel Keys þar sem 36 karlmenn tóku þátt í hálfsveltitilraun í 24 vikur voru afleiðingarnar þessar:
Líkamlegar afleiðingar:
· Nagandi hungur
· Kuldi
· Líkamlegur vanmáttur
· Svimi
· Yfirþyrmandi þreyta
· Vöðvarýrnun
· Hármissir
· Umfang hjartans minnkaði um 20%
· Púls lækkaði
· Líkamshiti lækkaði
· Grunnbrennsla lækkaði um 40%
Andlegar afleiðingar:
· Þráhyggjukenndar hugsanir um mat
· Átkastahegðun
· Djúp geðlægð
· Mikil andleg neyð
· Pirringur
· Minnkuð kynhvöt
· Áhugi á öllu nema mat hvarf
· Félagsleg einangrun
· Taugaveiklun
Karlarnir í þessari tilraun neyttu 1560 hitaeininga á dag. Tvöfalt fleiri en þátttakendur neyttu í þættinum sem RÚV sýndi nú í janúar. Við teljum okkur geta fullyrt að enginn heilbrigðisstarfsmaður eða næringarfræðingur gæti mælt með þeim aðferðum sem viðhafðar voru í þættinum.
Hinn þátturinn sem RÚV bauð upp á er heimildaþáttur frá BBC sem kallast Sannleikurinn um offitu (The Truth About Obesity). Þrátt fyrir örlítið gagnrýnari umfjöllun um orsakaþætti er meginþráður þáttarins áhyggjur af heilsufarslegum og fjárhagslegum kostnaði við „flóðbylgju“ og „faraldur“ offitu þar sem spjótin beinast aðallega að hreyfingu og mataræði. Sýnt hefur verið fram á að birtingarmynd fjölmiðla af feitu fólki sem byrði á samfélaginu ýti undir fitufordóma í samfélaginu (6, 7). Slíkri umfjöllun er oft ætlað að vekja upp viðbjóð og reiði hjá áhorfandanum og er hún oftar en ekki skekkt þar sem hún fjallar um holdafar einungis frá þyngdarmiðaðri nálgun (weight-normative approach), en aldrei þyngdarhlutlausri nálgun (weight-neutral approach). Þyngdarhlutlaus nálgun fjallar meðal annars um heilsufarslegar afleiðingar fitufordóma, mismununar og endurtekinna þyngdartapstilrauna. Sýnt hefur verið fram á að umfjöllun um holdafar af þessu tagi, þar sem hallar mjög á aðra hliðina, hafi mjög skaðleg áhrif út í samfélagið.
Við höfum jafnframt miklar áhyggjur af umfjöllun og efnistökum RÚV þegar kemur að offituaðgerðum, allt frá fréttaskýringarþáttum eins og Kveik (20) yfir í útvarpsviðtöl við skurðlækna og sjúklinga sem hafa gengist undir slíkar aðgerðir, nú síðast 19. janúar í morgunútvarpi Rásar 2 þar sem skurðlæknir líkti magaermisaðgerðum við gallblöðruaðgerðir. Var ákveðnum dýrðarljóma slegið um þessa tegund aðgerða án þess að farið væri djúpt í aukaverkanir og áhættu, rétt eins og oft áður. Samtök um líkamsvirðingu hafa áður gert athugasemd við fjölmiðlaumfjöllun um offituaðgerðir og reynt að vekja athygli á hættunum við slík vinnubrögð (21). Við teljum áðurnefnda umfjöllun á villigötum enda er um mikla og flókna aðgerð að ræða með ekki síður miklum og flóknum fylgikvillum, og fólk sem fer í hana með óraunhæfar væntingar er í sérstaklega mikilli áhættu (22).
Það sem kemur aldrei fram í þessari umfjöllun er að fólk sem undirgengst aðgerðirnar upplifir ekki alltaf bætt lífsgæði og stundum versna þau. Algengt er að fólk þyngist aftur eftir að það hefur náð sinni lægstu þyngd eftir aðgerð og að sjúkdómar á borð við kæfisvefn og sykursýki 2 sem fóru í sjúkdómshlé láti á sér kræla á ný eftir örfá ár. Átraskanir og áfengis- og vímuefnanotkun eru einnig tíðari meðal þeirra sem hafa gengist undir aðgerð af þessu tagi. Krónísk vannæring, kviðverkir og niðurgangur eru viðbúin vandamál. Aðgerðin hefur áhrif á hormónajafnvægi og dregur úr ghrelin-magni í líkamanum sem minnkar matarlyst en eykur líkur á þunglyndi. Minni hæfni líkamans til að draga til sín nauðsynleg næringarefni gerir það síðan að verkum að hann er ekki fær um að taka til sín virk efni þunglyndislyfja eins og áður og er því erfiðara að lyfjastilla þunglyndið. Sjúklingar lýsa erfiðum tilfinningum við að upplifa breytt viðmót umheimsins þegar þeir grennast og fitufordómar og mismunun minnkar, en vonleysi þegar þeir þyngjast nær óhjákvæmilega aftur og verða fyrir jaðarsetningu á ný. Skömmin, vonleysið og sjálfsásökunin sem fylgir þessu ferli er stórhættuleg en eðlileg ef tekið er tillit til þess að hvergi heyrum við að þetta séu eðlilegar og náttúrulegar afleiðingar aðgerðarinnar og mótvægisaðgerðir líkamans við henni. Þess í stað tönnlast forsvarsfólk aðgerðanna stöðugt á því að árangur af aðgerðinni fari að nær öllu leyti eftir því hversu duglegur sjúklingurinn er við að tileinka sér „nýja lífshætti“ og ábyrgðin þannig sett í hendur sjúklingsins. Afleiðingin er sú að sjálfsvígstíðni meðal feitra sem hafa farið í offituaðgerð er mun hærri en hjá jafn feitum sem hafa ekki farið í slíka aðgerð (22).
Jaðarsetning og afmennskun feitra
Í nútímasamfélagi er feitt fólk jaðarsett og verður fyrir kerfisbundinni mismunun. Þegar við sjáum feita manneskju hefur samfélagið skilyrt okkur til að dæma hana sem lata, gráðuga, óaðlaðandi, heimska og siðferðislega óæðri (8). Samfélagsleg skilaboð þess eðlis dynja á okkur úr öllum áttum, ekki síst frá fjölmiðlum. Tíðni fitufordóma í Bandaríkjunum var orðin sambærileg tíðni kynþátta- og kynjafordóma árið 2008 (9). Nýleg rannsókn sem skoðaði þróun meðvitaðra og ómeðvitaðra fordóma gagnvart kynhneigð, kynþætti, húðlit, aldri, fötlun og þyngd á tímabilinu 2007-2016 sýndi fram á að neikvæð viðhorf til allra þátta höfðu annaðhvort minnkað eða staðið í stað, nema til þyngdar. Fordómar á grundvelli þyngdar jukust á tímabilinu (10).
Skýrsla Landlæknisembættisins „Fordómar á grundvelli holdafars í íslensku samfélagi“ (11) sýndi að fitufordómar lifa góðu lífi á Íslandi. Þar kom einnig fram að „sökum þess hve fordómar á grundvelli holdafars koma fram víða má færa rök fyrir því að feitt fólk búi við kerfislægt misrétti sem eigi sér rætur í almennum viðhorfum og gildismati samfélagsins“ og voru fjölmiðlar og birtingarmyndir feitra sem þar sjást tiltekin sem orsakaþáttur.
Afleiðing þessarar þróunar er sú að feitt fólk hefur verið afmennskað af samfélaginu. Rannsóknir sýna að þátttakendur eru óhræddir við að staðfesta að þeir álíti feitt fólk síður mennskt og síður þróað en fólk sem er ekki feitt. Þeir sýna feitu fólki einnig minni samkennd en grennra fólki (12, 13). Afmennskunin hefur þau áhrif að fordómar, mismunun og ofbeldi gegn feitu fólki verður samþykkt og réttlætanleg. Veigamikill þáttur þarna er áðurnefnd birtingarmynd fjölmiðla.
Vönduð umfjöllun um holdafar er lýðheilsumál
Það þarf ekki frjótt ímyndunarafl til að sjá að áðurnefnd félagsleg staða feitra hefur áhrif á líkamlegt, andlegt og félagslegt heilsufar. Rannsóknir meðal samfélagshópa sem hafa orðið fyrir mismunun sýna auknar líkur á ýmsum heilsufarskvillum, svo sem háþrýstingi, langvinnum verkjum, kviðfitu, efnaskiptavillu, æðakölkun og brjóstakrabbameini, jafnvel þegar tekið hefur verið tillit til annarra áhrifaþátta (14). Rannsóknir sýna ennfremur að reynsla af fitufordómum eykur líkur á þunglyndi, neikvæðu sjálfsmati, slæmri líkamsmynd, ofátsvanda og minni þátttöku í hreyfingu (14).
Nýleg rannsókn sýndi fram á að reynsla af fitufordómum hafi forspárgildi og nái að útskýra nærri þriðjung af þróun lífstílssjúkdóma sem hafa hingað til verið útskýrðir með sjálfri líkamsfitunni (15).
Í minnisblaði vinnuhóps Landlæknisembættisins um aðgerðaáætlun til að draga úr tíðni offitu frá 2013 (16) segir: „Rannsóknir undanfarinna áratuga sýna að fitufordómar (anti-fat prejudice) og mismunun á grundvelli holdafars er algeng í vestrænum samfélögum og hafa íslenskar rannsóknir m.a. staðfest að slík mismunun á sér stað í atvinnulífinu hér á landi. Við innleiðingu aðgerða þarf því að leggja áherslu á að þær stuðli allt í senn að andlegu, líkamlegu og félagslegu heilbrigði og vellíðan en verði ekki til þess að auka neikvæð viðhorf eða vanlíðan í tengslum við holdafar. Þvert á móti er mikilvægt að efla virðingu fyrir fjölbreyttum líkamsvexti í samfélaginu þar sem slæm líkamsmynd og fordómar vegna holdafars geta haft neikvæð áhrif á heilsutengda hegðun, heilbrigði og líðan. Því er ráðlagt að aðgerðir stjórnvalda felist í eflingu heilbrigðra lifnaðarhátta á breiðum samfélagslegum grundvelli án sérstakrar áherslu á offitu eða líkamsþyngd.“
Það er því ekki einungis mannréttindamál að umfjöllun um holdafar sé vönduð og í jafnvægi, heldur einnig brýnt lýðheilsumál. Á þeim grundvelli hefur Alþjóðaheilbrigðisstofnunin (WHO) vakið athygli á fitufordómum sem heilsuvá og tiltekið sérstaklega fjölmiðla sem stóran áhrifaþátt (16).
Lagalegar skyldur RÚV sem fjölmiðils í almannaþágu
Hér að ofan má sjá inngang að frétt RÚV frá árinu 2010. Fram kemur í myndatextanum að Íslendingar þurfi að hugsa sinn gang og herða sóknina gegn offitu þar sem ný skýrsla sýni að Íslendingar séu í hópi mestu „fituhjassa“ í heimi. Fréttin er enn aðgengileg á vef RÚV (17).
Nærtækara dæmi er umfjöllun um ráðstefnu um offitu sem Íslensk erfðagreining stóð fyrir í febrúar 2020. Kári Stefánsson kom af því tilefni í útvarpsviðtal á RÚV og var skrifuð frétt upp úr því sem einnig var birt á vef RÚV (18). Kári segir m.a.: „ef við hugsum um þetta út frá klassísku mati okkar í samfélaginu á hegðun fólks, þá er offitan að meðaltali tjáning á heldur lélegri starfsemi heilans, það er ósköp einfalt.“ Í kjölfarið af ráðstefnunni þar sem máluð var upp mynd af feitu fólki sem heimsku og óhlýðnu skrifaði formaður Samtaka um líkamsvirðingu pistil (19) og gagnrýndi þessa orðræðu. Pistillinn var sendur á tölvupóstfang RÚV og óskað eftir því að fjallað yrði um þá hlið umræðunnar til að gæta jafnvægis. Erindinu var ekki svarað.
Í fyrstu málsgrein 1. kafla laga um Ríkisútvarpið, fjölmiðil í almannaþágu (nr. 23/2013), segir að markmið laganna sé að „stuðla að lýðræðislegri umræðu, menningarlegri fjölbreytni og félagslegri samheldni í íslensku samfélagi með fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu. Ríkisútvarpinu er falin framkvæmd hennar eins og nánar er kveðið á um í lögum þessum. Ríkisútvarpið er þjóðarmiðill og skal rækja fjölbreytt hlutverk sitt af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu.“
Við óskum eftir opnu samtali við útvarpsstjóra til að ræða hvernig við getum, sem fagfólk og aðgerðasinnar, stutt Ríkisútvarpið við að framfylgja áðurgreindu lagaákvæði eftir bestu getu.
Í stuttu máli ...
- Samtök um líkamsvirðingu lýsa yfir áhyggjum og vonbrigðum með efnistök Ríkisútvarpsins (RÚV) þegar kemur að umfjöllun um holdafar.
- Borið hefur á einhliða og skaðlegri umfjöllun um holdafar á vegum RÚV sem málar feitt fólk upp sem byrði á samfélaginu. Slík birtingarmynd hefur afmennskandi áhrif á feitt fólk og ýtir undir fitufordóma í samfélaginu (6, 7).
- Fitufordómar og mismunun á grundvelli holdafars hafa alvarlegar líkamlegar, andlegar og félagslegar afleiðingar fyrir feitt fólk (14, 15). Vönduð umfjöllun fjölmiðla um holdafar er því ekki einungis mannréttindamál heldur brýnt lýðheilsumál.
- RÚV ber skylda til þess samkvæmt lögum að sinna hlutverki sínu af fagmennsku, metnaði, heiðarleika og virðingu.
- Samtök um líkamsvirðingu óska eftir fundi með útvarpsstjóra í því skyni að eiga opið samtal um hvernig megi koma í veg fyrir skaðlega umfjöllun um holdafar.
Höfundur er félagsráðgjafi og formaður Samtaka um líkamsvirðingu.
Heimildir:
1) https://nutritionj.biomedcentral.com/articles/10.1186/1475-2891-10-9
2) https://www.hindawi.com/journals/jobe/2014/983495/
3) https://escholarship.org/uc/item/0tv27311
4) https://www.facebook.com/notes/2721052264776963/
5) https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/26180980/
6) https://onlinelibrary.wiley.com/doi/full/10.1111/j.1600-0838.2004.00399.x-i1
7) https://pubmed.ncbi.nlm.nih.gov/26395745/
8) https://doi.org/10.1038/oby.2008.636
9) doi: 10.1038/ijo.2008.22
10) https://doi.org/10.1177/0956797618813087
12) doi: 10.1002/oby.22460
13) https://doi.org/10.1016/j.neuroimage.2013.11.041
14) https://ajph.aphapublications.org/doi/10.2105/AJPH.2009.159491
15) https://journals.sagepub.com/doi/10.1177/0956797619849440
16) https://www.euro.who.int/__data/assets/pdf_file/0017/351026/WeightBias.pdf?ua=1
17) https://www.ruv.is/frett/vill-herda-soknina-gegn-offitu
18) https://www.ruv.is/frett/offita-ad-medaltali-tjaning-a-lelegri-heilastarfsemi
19) https://www.visir.is/g/2020200209861/feit-heimsk-og-ohlydin
20) https://www.facebook.com/fitufordomagleraugun/posts/502505666949886