Stjórnmálaumræðan á heimsvísu hefur tekið miklum breytingum á undanförnum árum og tengja það margir við tilkomu samfélagsmiðla sem hefur stóraukið möguleika almennings og kjörinna fulltrúa á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri, með góðu og illu. Landslagið hér á landi er gjörbreytt frá þeim tíma þegar opinber stjórnmálaumræða í fjölmiðlum takmarkaðist að mestu við fáeina dálksentimetra í örfáum dagblöðum sem flest hver voru í eigu stjórnmálaflokka og með takmarkaða útbreiðslu. Samhliða þessum breytingum hefur harkan í samfélagsumræðunni vaxið til mikilla muna og á stundum þróast yfir í hreina hatursorðræðu gagnvart einstaklingum og hópum í samfélaginu og stundum í stjórnmálunum.
Við Íslendingar höfum gegnum tíðina blessunarlega verið að mestu laus við alvarleg ofbeldisverk gegn kjörnum fulltrúum, þó nokkur dæmi séu um að gerður hafi verið aðsúgur að stjórnmálamönnum og heimilum þeirra t.d. í kjölfar bankahrunsins.
Skotárásir á stjórnmálamenn og flokka
Á dögunum var gerð skotárás á bíl í eigu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra við heimili hans þar sem friðhelgi einkalífs stjórnmálamanns var rofin með þeim hætti að öryggi fjölskyldu hans og jafnvel nágranna var stefnt í hættu. Þessi atburður kemur í kjölfar skotárása á skrifstofur nokkurra stjórnmálaflokka í borginni á undanförnum misserum. Lærdómurinn er sá að við horfum á breytt landslag þar sem stjórnmálamenn geta átt von á því að verða fyrir ofbeldisárásum sem jafnvel ógna lífi. Þetta er grafalvarleg þróun sem markar vatnaskil en kemur því miður ekki alveg á óvart.
Fordæmið að vestan
Við höfum á undanförnum árum orðið vitni að því að öfgakenndum málflutningi hefur vaxið fiskur um hrygg á alþjóðavísu og öfgaöfl hafa fengið byr undir báða vængi eftir að maður af þvi sauðahúsi settist í stól Bandaríkjaforseta og notaði þann valdastól til að kynda undir ofsóknum og andróðri m.a. gegn ákveðnum þjóðfélagshópum. Þessi framganga náði hámarki eða frekar nýjum lægðum þegar fráfarandi forseti eggjaði stuðningsmenn sína til mótmæla sem enduðu með því að fjöldi óeirðaseggja réðist til inngöngu í bandaríska þingið með þeim afleiðingum að fimm létu lífið þar með talinn einn lögreglumaður. Fólk um allan heim hefur fundið sér stað í bergmálshelli fyrrv. Bandaríkjaforseta og deilt skoðunum hans og málflutningi, þar á meðal hér á landi – þó öllum þorra almennings á Íslandi hafi reyndar blöskrað framganga hans á valdastóli. Nýlegt myndband um framkvæmdir við Óðinstorg og nágrenni er því miður dæmi um áróður sem byggir á alvarlegum rangfærslum og beinist gegn borgarstjóra og fjölskyldu hans með ósvífnum hætti.
Við líðum ekki ofbeldi
Ég tel að við séum komin á þann stað að það sé algjörlega nauðsynlegt að draga slíkt ofbeldi og hótanir fram í dagsljósið og leggja þá línu að við líðum ekki ofbeldi og mætum því að fullum þunga. Við sjáum dæmi þess hvað getur gerst ef við þegjum og látum slíkt ofbeldi yfir okkur ganga. Þess vegna þakka ég Degi B. Eggertssyni borgarstjóra fyrir að segja frá árásinni og opna þannig umræðuna á opinberum vettvangi, þó það hafi örugglega ekki verið honum eða fjölskyldu hans léttbært. Ég vil líka þakka Hildi Björnsdóttur borgarfulltrúa fyrir að hafa stigið fram fyrir skjöldu og fordæmt ósmekkleg ummæli félaga hennar í borgarstjórnarflokki Sjálfstæðismanna og Eyþóri Laxdal Arnalds oddvita flokksins fyrir að taka á málum þess einstaklings af festu ásamt félögum sínum.
Borgarstjórn fordæmir einróma
Við fordæmum hvers kyns ofbeldisverk sem beinast að almenningi og stjórnmálafólki hvaða flokki sem það tilheyrir. Þau skilaboð þurfa að vera skýr og koma úr öllum áttum – og við höfum tækifæri til að láta þetta atvik verða okkur tilefni til að bæta vinnubrögðin í stjórnmálunum og málflutning kjörinna fulltrúa. Við erum kjörnir fulltrúar almennings, sem hefur verið treyst fyrir því ábyrgðarhlutverki að taka ákvarðanir og marka stefnu um hvernig megi bæta hag og lífsskilyrði almennings. Við erum í forréttindastöðu því fáir eru útvaldir til að sinna þessu mikilvæga hlutverki og þeim ber að fara vel með það vald og þá ábyrgð sem þeim er falið. Við höfum tímabundið umboð í borgarstjórn til að láta gott af okkur leiða – nýtum það umboð vel og gerum okkar besta til að bæta stjórnmálamenninguna fyrir almenning í borginni og þá sem á eftir okkur koma. Mikilvægt skref var stigið í vikunni þegar borgarstjórn samþykkti einróma ályktun þar sem árásir á bíl borgarstjóra og höfuðstöðvar stjórnmálaflokka voru fordæmdar og öllu ofbeldi tengdu stjórnmálum hafnað. Það er gott skref í rétta átt.
Höfundur er borgarfulltrúi Samfylkingarinnar.