Reglulega kemur upp umræða um að ófarir íslenskra drengja innan menntakerfisins séu áhyggjuefni. Í PISA könnun frá árinu 2018 kemur fram að 34% drengja og 19% stúlkna séu undir öðru hæfnistigi og teljist því ólæs. Allt að einn þriðji drengja sem útskrifast úr grunnskóla eru ekki færir um að lesa sér til gagns. Náttúrufræðigreinar fylgja fast á eftir en þar eru um 25% nemenda undir öðru hæfnistigi.
Þá hlýtur að fylgja í kjölfarið spurningin hvers vegna? Getur verið að menntakerfið hreinlega afskrifi svona stóran hluta nemenda? Grunnskólar víðast hvar í heiminum eru ennþá starfræktir eftir líkani sem var fullkomnað í kringum aldamótin 1900. Þó er þetta ekki algilt og inn á milli eru framsýnir vel starfræktir skólar.
Covid-19 hafði það í för með sér að menntastofnanir landsins tóku hraðnámskeið í fjarkennslu, búnaður hefur víðast hvar verið uppfærður og því hefur menntakerfið tekið tuttugu ára stökk framávið. Í þessu felast stórkostleg tækifæri til betri árangurs. Ótvíræður kostur við nútíma tækni er að nemendur þurfa ekki að binda sig við sinn skóla ef þeir kjósa annað. Tölvutæknin gerir okkur kleift að hlýða á fyrirlestra og kennslustundir úr öðrum skólum, þess vegna hinum megin á hnettinum.
Gleðitíðindin í niðurstöðum PISA kannananna eru þau að tölurnar um ófarir drengja í íslenska menntakerfinu sem fjölmiðlar slá upp í fyrirsögnum reglulega, segja ekki alla söguna og gefa jafnvel villandi mynd. Samkvæmt rannsókn sem gerð var í Kanada árið 2012 kom í ljós að nokkrum árum eftir útskrift úr grunnskóla, höfðu flestir nemendur sem þá gátu ekki lesið sér til gagns, náð upp þeim hæfileika. Skýringin er líklega sú að þeir hreinlega þurftu þess. Í niðurstöðum rannsóknarinnar kemur fram að ekki allir geta fetað hinn hefðbundna menntaveg. Sveigjanleiki innan kerfisins skipti sköpum fyrir þá nemendur.
Í skýrslu nefndar um menntastefnu frá 1993 var þessi hugmynd reifuð og lagt til að nemendur grunnskóla fengju greiðari aðgang að löggildu iðnnámi. En síðan hún var skrifuð hefur lítið sem ekkert breyst til hins betra. Raunar er nemendum gert erfiðara fyrir með því að stytta framhaldsnám en fækka ekki einingum á móti. Námið var því ekki stytt því var bara þjappað saman. Það er því blaut tuska í andlitið á þeim nemendum sem eiga þegar erfitt uppdráttar í hefðbundnu bóklegu námi og einungis til þess fallið að brjóta þau enn frekar niður.
Vandamálið er að stórum hluta að svona hefur þetta alltaf verið. Frá aldamótum 1900. Allir nemendur eiga að sitja kyrrir og hlýða á sannleikann sem foreldrum þeirra var kenndur. Hefur einhver spurt hvort þau séu til í að læra eitthvað annað? Nám á að vera einstaklingsmiðað og byggt á áhugasviði. Það er ekki nóg að setja hugmyndina í aðalnámskrá. Þessu þarf að hrinda í framkvæmd.
Því legg ég til að nemendur eftir áttunda bekk grunnskóla fái að velja sér framhaldsnám. Í stað þess að þvinga nemendur í enn meira bóknám sem þeir, samkvæmt PISA könnunum, eru hvort eð er ekki að læra. Rannsóknir sýna að þeir nemendur sem ljúka iðnnámi eða sambærilegri menntun fyrir 24 ára aldur vegnar betur heldur en þeir sem ljúka einungis grunnskóla eða menntaskóla. Krakkar sem eru lunknir í höndunum eða hafa áhugasvið utan hefðbundinna námsgreina eiga skilið tækifæri til að móta þessa hæfileika og jafnframt stytta verknám. Ég legg til að fyrir hvert ár stundað í grunnskóla detti út heil önn í samsvarandi námi. Aðalnámskrá verði gerð sveigjanlegri og nemandanum gefin kostur á því að stunda nám sem vekur áhuga á sínum forsendum.
Þetta á ekki eingöngu við verknám þar sem okkar bestu nemendum er haldið aftur og þeir hlekkjaðir við jafnaldra sína. Í grunnskólum landsins er aðstaða til smíða og annars handverks. Við erum þegar með innviðina til að kenna fólki í fjarnámi. Tæknin og tólin eru til staðar. Kennarar hafa sýnt vilja og yfirburðagetu til aðlögunar og framþróunar. Það eina sem uppá vantar er vilji yfirvalda til þess að gera betur.
Eins og einhver sagði, Ef fiskur er metinn á hæfileikum hans til að klifra þá eyðir hann ævinni í þeirri trú að hann sé vitlaus.
Höfundur er frambjóðandi í prófkjöri Pírata í Norðvesturkjördæmi.