Við höldum oft – göngum jafnvel út frá því – að á Íslandi njóti mannréttindi fólks ríkari verndar en annars staðar. Fjölmiðlar keppast um að færa okkur þær fréttir að við séum best í heimi – að minnsta kosti miðað við höfðatölu. Árið 2020 var Ísland metið friðsælasta ríki heims, og réttindi barna voru álitin best tryggð á Íslandi. Í nóvember síðastliðnum birtist frétt um að á Íslandi væru fæst Covid-19 smit í Evrópu – miðað við höfðatölu – og þó það met hafi fallið fljótt, stærðum við okkur af því strax í upphafi nýs árs að vera á meðal þeirra þjóða sem þegar væru búnar að bólusetja flesta.
Ísland, best í heimi
Samkvæmt úttekt Eystrasaltsráðsins frá árinu 2020 er Ísland bæði áfangaland og millilendingarstaður fórnarlamba mansals; fyrst og fremst kynlífsmansals og vinnumansals. Í skýrslunni kemur fram að kvenkyns fórnarlömb mansals komi einkum frá ríkjum Afríku og Austur-Evrópu; þær séu misnotaðar í vændi sem eigi sér stað á klúbbum og börum og séu stundum sendar hingað til lands til stuttrar dvalar áður en þær halda áfram til annars lands. Samtals 56 mansalsmál voru tekin til rannsóknar hér á landi á árunum 2016-2018.
Aðgerðapakkinn mikli gegn mansali
Árið 2002 varð vitundarvakning um vændi á Íslandi í kjölfar máls fjögurra stúlkna sem grunur lék á að hefðu verið fluttar til landsins til þess að stunda vændi. Þó umræðan hafi ekki beinlínis snúist um mansal heldur fremur um vændi, leiddi hún til þess að í hegningarlög var innleitt sérstakt ákvæði um að mansal skyldi refsivert. Með innleiðingunni voru uppfylltar skyldur okkar samkvæmt alþjóðasamningum, en ráðamenn virtust ekki telja vandamálið umfangsmikið hér á landi enn sem komið var.
Mansalsteymi sett á laggirnar
Árið 2009 voru útlendingalögin svo endurskoðuð og nýrri tegund dvalarleyfa fyrir hugsanleg fórnarlömb mansals bætt í lögin, auk þess sem sett var á fót svokallað mansalsteymi. Hlutverk mansalsteymisins var meðal annars að fylgja eftir vísbendingum um mansal, bera kennsl á möguleg fórnarlömb, tryggja þeim vernd og aðstoð, halda til haga upplýsingum og sinna fræðslu um mansalsmál. Þá átti teymið að vera stjórnvöldum til ráðgjafar í málaflokknum og hafa eftirlit með framkvæmd aðgerðaáætlunar.
Kaldur raunveruleikinn
Þegar fyrsta mansalsfórnarlambið leitaði til mín árið 2009 bretti ég bjartsýn upp ermarnar, enda hafði ég heyrt af þessari herferð, þessari umbyltingu og því átaki sem gert hafði verið til þess að bregðast við stöðunni í mansalsmálum á Íslandi. Ég skyldi aldeilis tryggja það að viðkomandi kæmist beinustu leið inn í þetta frábæra kerfi sem sett hefði verið á fót: Mansalið skyldi afhjúpað, glæpamennirnir gómaðir og þolandinn gæti lifað öruggu, ofbeldislausu lífi hér eftir í mannréttindaparadísinni á Íslandi.
Það kom mér því vægast sagt á óvart þegar ég fór að grennslast fyrir og komst að því að hið svokallaða mansalsteymi vissi ekki sjálft hvað það ætti að vera að aðhafast, engir verkferlar voru til staðar, engin skipulögð móttaka eða meðferð stæði fórnarlömbum mansals til boða, og til þess að bíta höfuðið af skömminni reyndist hið sérstaka dvalarleyfi fyrir fórnarlömb mansals, sem stillt hafði verið upp í útlendingalögin með pompi og prakt, fullkomlega gagnslaust.
Mennskur smyglvarningur
Í öllum þeim málum sem nefnd eru í skýrslu Eystrasaltsráðsins, að ótöldum þeim málum sem aldrei komast upp, ganga ofbeldismennirnir enn lausir. Af 74 málum sem lögregla fékk inn á sitt borð árið 2015 fór aðeins eitt í ákærumeðferð. Ákæran var felld niður.
Eini dómurinn þar sem sakfellt hefur verið fyrir mansal hér á landi féll árið 2010. Þá voru fimm karlmenn sakfelldir fyrir mansal á 19 ára stúlku sem hafði verið beitt ólögmætri nauðung, frelsissviptingu og ofbeldi af hálfu manna sem höfðu tekið við henni, flutt hana og hýst í því skyni að notfæra sér hana kynferðislega. Allar fréttir sem þú hefur lesið, allir undirskriftalistarnir sem þú hefur skrifað undir, allar sögurnar sem þú hefur heyrt: Þær hafa allar, nema þessi einasta eina, endað þannig að ofbeldismennirnir svöruðu ekki til saka.
Man selt …
En það er auðvitað ekki gerandinn og hans örlög sem mestu máli skipta. Í gegnum allt þetta átak hefur fórnarlambið setið eftir, réttindalaust og smáð. Óháð því hvort ákæra er gefin út eða ekki stendur eftir manneskja sem brotið hefur verið á, hún frelsissvipt, barin, nauðgað og misnotuð. Hvaða vernd stendur þessum einstaklingi til boða? Reynsla mín er sú að hún sé takmörkuð, ef nokkur.
Í viðtali árið 2017 lýsti yfirmaður mansalsteymis lögreglunnar því yfir að skýrsla bandarískra stjórnvalda, sem dró fram skort á aðgerðum gegn mansali á Íslandi, væri ekki áfellisdómur yfir lögreglunni. Benti hann á það að gallar væru á úrræðum fyrir mansalsfórnarlömb, sem oft fari úr landi áður en rannsókn á málum þeirra lýkur. Hvernig má það vera? Var ekki búið að kveða á um dvalarleyfi fyrir fórnarlömb mansals í lögum um útlendinga?
… og mani skilað
Vandinn hér er sá að dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals hefur í raun ekkert með fórnarlambið að gera. Leyfið er ekki hugsað fyrir þolandann, til hjálpar eða verndar manneskjunni sem gengið hefur í gegnum helvítið sem verið er að reyna að fletta ofan af. Nei, dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals er fyrir lögregluna, til þess að aðalsönnunargagnið í málinu, lykilvitnið sjálft, renni ekki úr greipum hennar áður en rannsókn málsins er lokið, að minnsta kosti byrjunarstigum hennar.
Dvalarleyfi fyrir hugsanlegt fórnarlamb mansals gildir að hámarki til níu mánaða. Það skapar ekki grundvöll fyrir ótímabundið dvalarleyfi og það er ekki hægt að endurnýja. Það þýðir, á mannamáli: Þegar rannsókn málsins er lokið – engin ákæra gefin út og málið fellt niður, eins og farið hefur með öll mansalsmál nema eitt í allri sögu lýðveldisins – er fórnarlambinu vísað á dyr og það sent „heim til sín“.
Fyrrverandi fórnarlamb mansals
Samkvæmt lögum, bæði alþjóðlegum og íslenskum, telst fyrrverandi fórnarlamb mansals til sérstaks þjóðfélagshóps sem getur átt rétt á vernd sem flóttamaður. Það er því freistandi að ætla að í mannréttindaparadísinni Íslandi gæti einstaklingur sem hrakinn hefur verið á milli landa í ánauð annars fólks, þolað ofbeldi og misnotkun svo árum skiptir, og rambar loks hingað til lands mögulega fengið hér vernd. Eins og fjölmiðlar hafa gert ítarleg skil undanfarið er það hins vegar ekki svo. Jafnvel þegar mál varða einstaklinga frá ríkjum þar sem opinber gögn staðfesta að mansal sé viðvarandi vandamál og aðstoð ýmist af skornum skammti eða ekki fyrir hendi, og þrátt fyrir að heimildir bendi til þess að yfirgnæfandi líkur séu á að fyrrverandi fórnarlamb mansals lendi aftur í mansali við endursendingu til heimaríkis, er svarið nei.
Samkvæmt áðurnefndri skýrslu bandarískra stjórnvalda var Íslendingum talið til tekna að hafa opnað miðstöðina Bjarkarhlíð í Reykjavík, þar sem þolendur ofbeldis, þar á meðal mansals, geta fengið ráðgjöf og stuðning. „Þegar búið er að bera kennsl á manneskju sem þolanda mansals er Bjarkarhlíð staður þar sem er hægt að vinna úr þeim afleiðingum sem fylgja því að hafa sætt mansali,“ sagði verkefnastjóri Bjarkarhlíðar í viðtali.
Þegar stórt er spurt: Ætli Bjarkarhlíð bjóði upp á meðferð í gegnum Zoom?
Höfundur er lögman og frambjóðandi í prófkjöri Pírata í Reykjavík fyrir Alþingiskosningar 2021.