Evrópusambandslöndin tapa á Brexit

Andrés Pétursson segir að færa megi góð rök fyrir því að enginn græði á Brexit. Í þessari þriðju og síðustu grein um málið segir hann að ESB verði að líta í eigin barm og gera sér grein fyrir því að lítill vilji sé til enn nánari samruna sambandsins.

Auglýsing

Það eru ekki bara Bretar sem tapa á Brexit. Evrópusambandið sjálft hefur misst eitt af sínum mikilvægustu aðildarlöndum. Bretland var ekki bara þriðja fjölmennasta ríki sambandsins heldur líka boðberi frjálslyndra sjónarmiða í verslun og viðskiptum bæði innan og utan ESB. Norrænu ríkin, Írar, Eystrasaltsríkin og Holland litu mjög til forystu Breta á þessu sviði. Nú hafa þessi lönd misst mikilvægan bandamann og þetta truflar ákveðið valdajafnvægi innan sambandsins sem var samþykkt með Nice-sáttmálanum árið 2001 og uppfært með Lissabon-sáttmálanum árið 2007. Vegna stækkunar sambandsins var mikilvægt að samþykkja reglur sem ekki gæfu hverri einustu þjóð neitunarvald varðandi hvert einasta mál sem sambandið þurfi að ná í gegn. En aðildarlöndin voru ekki heldur tilbúin að samþykkja að einfaldur meirihluti myndi ráða í öllum málum. Því voru samþykktar reglur sem gera löndunum kleyft að mynda bandalög um framgang ýmissa mála.

Aðalregla ESB um ákvarðanir er samt sem áður einhugur og samstaða allra, en í nokkrum tilteknum málaflokkum ræður meirihluti. Án þess að fara út í mikil smáatriði þá veittu þessir samningar ákveðnum ríkjablokkum möguleika á því að keyra mál í ákveðnum málaflokkum í gegn þrátt fyrir að einstök lönd væru gegn þeim breytingum. Á sama tíma gátu hins vegar lönd beitt neitunarvaldi gegn ákveðnum málum. Lykiltala í þessum efnum er 35% neitunarvald en með brotthvarfi Breta ráða þessi frjálslyndari lönd einungis yfir um 30% af atkvæðamagninu. Margt bendir til að taka þurfi upp þetta kerfi enda ólíklegt að þessi frjálslyndari lönd sætti sig við minnkandi völd.

Evrópusambandið verður að líta í eigin barm

Evrópusambandið og leiðtogar annarra Evrópusambandsríkja þurfa líka að líta í eigin barm varðandi brotthvarf Breta. Hægt er færa góð rök fyrir því að samningur sá sem Bretar fengu þegar þeir gengu í sambandið árið 1973 var ekki nógu góður. Bretar höfðu hins vegar lengi sóst eftir aðild og voru því tilbúnir að ganga nokkuð langt til að komast inn í klúbbinn. Nettóframlög Breta til samstarfsins voru strax mun meiri en þeir fjármunir sem þeir fengu til baka í styrkjum. Þetta skapaði fljótlega streitu í samskiptum og náði hámarki á Thatcher tímanum þar sem krafa Thatcher um „peningana til baka“ litaði öll samskipti Bretlands við ESB. Þrátt fyrir að Bretar hafi náð að rétta sinn hlut þá hefur eymt eftir af þessari tortryggni allar götur síðan. Ekki má gleyma því að mismunandi lagahefð ESB-ríkja og svo Bretlands hefur oft flækt málin. Bretland, ólíkt flestum öðrum löndum, er ekki með neina formlega stjórnarskrá. Þetta hefur stundum skapað óvissu og misskilning á milli aðila. Einnig hefur þessi mismunandi hefð alið á ótta hjá almenningi í Bretlandi að Evrópusambandið ætlaði sér að eyða breskri lagahefð. Ekki hafa stanslausar árásir bresku götublaðanna heldur hjálpað til að bæta ímynd Evrópusambandsins í augum bresks almennings. Fylgismenn aðildar í Bretlandi ofmátu hins vegar eigin styrk og vöknuðu of seint upp við vondan draum.

Auglýsing

Frá upphafi hefur almenningi þótt stjórnkerfi Evrópusambandsins og yfirbragð þess vera fjarlægt hinum almenna borgara. Einnig hafa óteljandi málamiðlanir til að halda því gangandi skapað þá ímynd að ESB sé bákn og óskiljanlegt flækjukerfi. „Hver vill elska 49 ára gamlan mann,“ söng Þursaflokkurinn svo eftirminnilega á sínum tíma og á margan hátt á það við um Evrópusambandið. Það er erfitt að skapa miklar tilfinningar til einhverrar andlitslausrar stofnunar í öðru landi sem virðist helst skipta sér af smámálum eins og hávaða frá sláttuvélum og gæði gúmmís í getnaðarvörnum. Auðvitað er þetta mikil einföldun á því hvað Evrópusambandið stendur fyrir. En andstæðingum Brexit mistókst að sannfæra meirihluta bresku þjóðarinnar að hagsmunum bresks almennings væri betur borgið innan en utan sambandsins. Þrátt fyrir að mjög mjótt væri á mununum í þjóðaratkvæðagreiðslunni árið 2016, og skoðanakannanir bendi til þess að meirihluti Breta myndi fella Brexit núna, þá er dómurinn fallinn og honum verður ekki breytt. Bretar eru gengnir úr sambandinu og þurfa báðir aðilar að aðlaga samskipti sín að þeim veruleika.

Brexit mun breyta þróun Evrópusambandsins á komandi árum. Þrátt fyrir að helstu leiðtogar Evrópusambandsríkjanna hafi staðið saman og ekki látið Breta etja sér saman hver gegn öðrum og látið embættismönnum um samningaviðræðurnar þá er ljóst að menn munu hugsa sinn gang. Bæði framkvæmdastjórn Evrópusambandsins og ekki síður þeir sem ráða ferðinni, leiðtogar Evrópuríkja, gera sér grein fyrir því að ekki er áhugi hjá meirihluta almennings í Evrópu að stefna að nánari pólitískum samruna. 

Stöðugleiki álfunnar veltur á góðum samskiptum Bretlands og ESB

Samskipti Bretlands og Evrópusambandsins standa nú á krossgötum. Efnahagslegur og pólitískur stöðugleiki álfunnar veltur á því að þessi samskipti verði sem best. Þrátt fyrir að flestir gangi að friði og stöðugleika í Evrópu sem gefnum hlut þá er stutt í að hver þjóð hugsi fyrst og fremst um sína hagsmuni þegar á móti blæs. Töluverð umræða hefur til dæmis verið í ýmsum löndum hvort rétt hafi verið að miðstýra innkaupum á COVID-19 bóluefni í gegnum Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins. Framkvæmdastjórnin hefur verið harðlega gagnrýnd, meðal annars í Þýskalandi, hvernig staðið hefur verið að samskiptum við helstu bóluefnaframleiðendur. Sú gagnrýni á að hluta til rétt á sér því það er ljóst að samningar Framkvæmdastjórnarinnar við þessa aðila voru of almennt orðaðir. Það gerði fyrirtækjunum kleift að selja hluta framleiðslunnar til landa eins og Bandaríkjanna, Bretlands og Ísrael áður en staðið var við samninga við Evrópusambandið. Eins og gefur að skilja brást ESB illa við þessu enda var sambandið búið að styrkja bóluefnarannsóknir þessara evrópsku fyrirtækja rausnarlega. Einnig verður að hafa í huga að 75% af því bóluefni sem framleitt er í heiminum gegn COVID-19 kemur frá löndum innan ESB.

Þótt staðan í Evrópu í dag sé engan veginn sambærileg við stöðuna í álfunni árið 1914 þá mega menn aldrei gleyma sögunni. Það hefðu fáir trúað því í upphafi árs 1914 að álfan myndi loga í átökum aðeins nokkrum mánuðum síðar. Stjórnmálamenn töldu að þeir hefðu stjórn á atburðarásinni en misstu gersamlega tökin og fyrri heimstyrjöldin braust út 28. júlí með hörmulegum afleiðingum. Hvort umræðan um COVID-19 verður til þess að styrkja eða veikja samstarf Evrópusambandslandanna í heilbrigðismálum verður að koma í ljós. Menn verða hins vegar að hafa í huga að heilbrigðismál eru fyrst og fremst á forræði aðildarlandanna en ekki Framkvæmdastjórnarinnar. Aðildarlöndin ákváðu hins vegar að fara þessa miðstýrðu leið í þessu máli en hvort að það opni á nánara heilbrigðissamstarf í framtíðinni á alveg eftir að koma í ljós.

Þróun sambandsins verður því líklega eins og undanfarin 25 ár meira í átt til fjölþjóðlegs sambands. Allar hugmyndir um nánari samruna (an ever closer union) hafa reyndar átt undir högg að sækja síðan Jacques Delors var forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins árið 1985-1995. Undir stjórn Delors voru tekin stór skref í samvinnu á peningasviðinu meðal annars með upptöku evru árið 1999. En síðan þá hefur pólitískt vald færst meira frá framkvæmdastjórninni yfir til leiðtoga aðildarlandanna og Evrópuþingsins. 

Samstarf og samvinna Evrópuríkja mun halda áfram að þróast enda mörg þeirra verkefna sem ríkin standa frammi fyrir eins og mengun, farsóttir, alþjóðlegir glæpir, aukin völd alþjóðlegra netfyrirtækja og flóttamannastraumur þess eðlis að þau verða ekki leyst innan eins lands. Það þýðir hins vegar ekki að Evrópa sameinist undir einni ríkisstjórn, einum fána og einni stjórnarskrá. Það hefur Brexit að minnsta kosti tryggt!

Höf­undur er með M.Sc. gráðu í Evr­ópu­fræðum frá London School of Economics, hefur kennt Evr­ópu­fræði við Háskóla Íslands og hefur starfað að Evr­ópu­málum í 26 ár.


Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður Viðreisnar, í forystusætinu á RÚV í gærkvöldi.
Það liggur ekki fyrir hvort Ísland geti gert tvíhliða samning til að tengja krónu við evru
Staðreyndavakt Kjarnans skoðar fullyrðingu Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur um það sé mögulegt fyrir Ísland að gera samkomulag við Seðlabanka Evrópu um að tengja krónuna við evru.
Kjarninn 23. september 2021
Sigríður Ólafsdóttir
Draumastarf og búseta – hvernig fer það saman?
Kjarninn 23. september 2021
Árni Stefán Árnason
Dýravernd: Í aðdraganda kosninganna er blóðmeraiðnaðurinn svarti blettur búfjáreldis – Hluti II
Kjarninn 23. september 2021
Segist hafa reynt að komast að því hvað konan vildi í gegnum tengilið – „Við náðum aldrei að ræða við hana“
Fyrrverandi formaður KSÍ segir að sambandið hafi frétt af meintu kynferðisbroti landsliðsmanna í gegnum samfélagsmiðla. Formleg ábending hafi aldrei borist.
Kjarninn 23. september 2021
Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, og Katrín Jakobsdóttir, forsætisráðherra og formaður Vinstri grænna.
Fleiri kjósendur Sjálfstæðisflokks vilja Katrínu sem forsætisráðherra en Bjarna
Alls segjast 45,2 prósent kjósenda Sjálfstæðisflokksins að þeir vilji fá formann Vinstri grænna til að leiða þá ríkisstjórn sem mynduð verður eftir kosningar.
Kjarninn 23. september 2021
Hugarvilla að Ísland sé miðja heimsins
Þau Baldur, Kristrún og Gylfi spjölluðu um Evrópustefnu stjórnvalda í hlaðvarpsþættinum Völundarhús utanríkismála.
Kjarninn 23. september 2021
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands
Völundarhús utanríkismála Íslands – Þáttur 4: Byggir Evrópustefna íslenskra stjórnvalda á áfallastjórnun?
Kjarninn 23. september 2021
Rósa Björk Brynjólfsdóttir
Kosningarnar núna snúast um loftslagsmál
Kjarninn 23. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar