Í rúman áratug hafa staðið harðar deilur um aðgengi og náttúruvernd í Vonarskarði.
Annars vegar er hópur sem fékk því framgengt að akstur og hjólreiðar um gamla ökuleið eftir endilöngu skarðinu yrði bannaður á þeirri forsendu að viðkvæm náttúra og sérlega viðkvæmt jarðhitasvæði þyldi ekki þá umferð.
Umferðin og ökuleiðin voru að auki sögð skerða víðerni í samræmi við heimasaumaða skilgreiningu sem sagði sérhverja ökuleið skerða víðerni á 10 km breiðu belti. Enginn greinarmunur var gerður á fáfarinni óruddri ökuleið líkt og í Vonarskarði og 2+2 Keflavíkurveginum með umferðarbrúm og lýsingu.
Rétt er að geta þess að í stjórnunar og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarð er Vonarskarð ekki flokkað sem víðerni.
Hinn hópurinn eru útivistarmenn sem benda á að öku- og hjólaleiðin er lítt áberandi, fjarri jarðhitasvæðinu og liggur alfarið um ógróið land sem hvorki er viðkvæmara, sérstæðara eða torfærara en land og leiðir norðan og sunnan Vonarskarðs.
Sami hópur hefur látið sig varða umferð og náttúruvernd á sjálfu jarðhitasvæðinu sæm fær nú á sig álag af nær allri umferð um Vonarskarð en jarðhitasvæðið þarfnast betri verndar og hertra umgengnisreglna.
Á meðan þessari rimmu hefur staðið merkti þjóðgarðurinn gönguleiðir um Vonarskarð sem allar liggja inn í sjálft jarðhitasvæðið. Allan þennan tíma hefur ekkert verið gert til þess að greiða mönnum för um svarta, kalda hluta Vonarskarðs sem þolir betur umferð og ágang. Þar er um að ræða þau 97% Vonarskarðs sem eru ógrónir melar, skriður, eyrar, sandar og klettar.
Farsæl lausn í fyrri rimmu
Þessar deilur minna á eldri rimmu útivistarmanna og þjóðgarðs frá þeim tíma er suðurhluti Vatnajökuls var gerður að þjóðgarði. Þjóðgarðurinn bannaði notkun hesta og hjólhesta á jökli, ásamt því að setja þær takmarkanir við tjöldun að sækja þyrfti um leyfi þjóðgarðsvarðar til næturgistingar á jökli. Í sárabætur fengu ferðamenn tjaldstæði í Tjaldmýri í Esjufjöllum.Ekki lagðist þetta regluverk vel í Samtök útivistarfélaga (Samút) og eftir nokkurra mánaða þref, fundi og bréfaskriftir fékkst sú breyting að bann við hjólreiðum og útreiðum á jökli var afnumið og tjöldun á jökli gefin frjáls. Að auki fékk Samút því framgengt að tjöldun yrði bönnuð í Tjaldmýri, –það viðkvæma gróðurlendi ætti fyrir alla muni að vernda fyrir ágangi tjaldgesta.
Þessar farsælu málalyktir tryggðu ferðamönnum vandræðalausa för um jökulinn og Tjaldmýri þá vernd sem þurfti. Í núverandi stjórnunar- og verndaráætlun Vatnajökulsþjóðgarðs er Tjaldmýri og nokkuð stórt svæði í nágrenninu í hæsta verndarflokki sem kallast 1a eða náttúruvé.
Þessar málalyktir eru í raun skólabókardæmi um það hvernig farsælt regluverk tryggir bæði gott aðgengi og vernd viðkvæmra svæða.
Vonarskarðdeilan er í raun sömu gerðar. Lagðir eru steinar í götur sem liggja um þann hluta Vonarskarðs sem er greiðfær og lítt viðkvæmur en allri umferð stefnt inn á ofurviðkvæmt jarðhitasvæðið – rétt eins og að var stefnt um Tjaldmýri á árum áður.
Skipulagið í Vonarskarði mætti með réttu kalla „Hámarks skaðsemi, – lágmarks aðgengi“.
Stefna Samút
Það er stefna Samút að jarðhitasvæðið í Vonarskarði verði friðlýst sem náttúruvé í verndarflokki 1a líkt og Tjaldmýri og horfið verði frá núverandi stefnu um að leiða alla sem leggja leið sína í Vonarskarð inn á viðkvæmasta hluta skarðsins.Gömlu ökuleiðina ætti að opna alfarið fyrir hjólreiðamönnum sem þurfa þó að krækja inn á syðsta hluta gönguleiðar til að sneiða fram hjá vöðum á Köldukvísl. Þetta er mikið hagsmunamál fyrir hjólreiðamenn á ferð þvert yfir landið, sem þannig sleppa við stríðar jökulár vestan og norðan Tungnafellsjökuls.
Þar sem ökuleiðin liggur næst jarðhitasvæðinu er fjarlægðin áþekk vegalengdinni frá Reykjavíkurhöfn upp að Stýrimannaskóla.
Gönguleiðir ætti að leggja víðar en að jarðhitasvæðinu og er vert að minna á ægifagurt vindsorfið móberg í undirhlíðum Bárðarbungu í NA-hluta skarðsins, – land sem ekki er viðkvæmt fyrir gestagangi. Einnig er athugandi að merkja gönguleið á fjallið Deili í miðju skarðinu og hvetja gesti til að líta jarðhitasvæðið úr fjarska, a.m.k. á meðan ekki hefur verið útfært skipulag sem tryggir þar skaðlausa umferð.
Ekkert er því til fyrirstöðu að flokkunarfræðingar fái Vonarskarð uppfært í „víðernisflokkinn“ 1b í samræmi við skilgreiningu hans í íslenskum náttúruverndarlögum, þar sem fáfarin, órudd öku- og hjólaleið er ekki skilgreind sem „víðernisskerðing“.
Í umsögn sem Náttúruverndarsamtök Suðurlands (NSS) sendu Svæðisráði Vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs vorið 2020 segir:
„NSS telja áríðandi að nú sé róið að því öllum árum að ná sátt um málefni Vonarskarðs, en sú styr sem staðið hefur um þau undanfarinn áratug telja samtökin hafa verið óheppilega og jafnvel skaðlega fyrir náttúruvernd á landinu í stærra samhengi. Í þessu samhengi benda NSS einnig á að Alþjóða náttúruverndarsamtökin, IUCN, leggja í dag ríka áherslu á samhug um þær leiðir sem valdar eru til náttúruverndar, jafnvel frekar en stranga vernd – þegar sýnt er að ekki sé um hættu á varanlegum/óafturkræfum skemmdum að ræða.“
Í bráð, – er fótum troðið jarðhitasvæðið fyrir botni Snapadals fórnarlamb núverandi skipulags.
Til lengri tíma er þessi deila stórskaðleg íslenskri náttúruvernd og fátt hefur komið meira óorði á þjóðgarða og náttúruvernd.
Í 2. grein laga um Vatnajökulsþjóðgarð segir um hlutverk þjóðgarðsins:
- Vernda náttúru svæðisins, svo sem landslag, lífríki, jarðmyndanir og menningarminjar.
- Gefa almenningi kost á að kynnast og njóta náttúru og sögu svæðisins.
Lausn Tjaldmýrardeilunnar ætti að vera það fordæmi sem horft er til.
Höfundur er félagi í Íslenska Alpaklúbbnum og fulltrúi Samút í svæðisráði Vestursvæðis Vatnajökulsþjóðgarðs.