Stóll er alltaf stóll, þó að hann sé notaður sem trappa

Viðar Halldórsson, prófessor í félagsfræði, skrifar nokkur orð til viðbótar um heimildarmyndina Hækkum rána og viðbrögðin sem fyrri grein hans um viðfangsefnið kallaði fram.

Auglýsing

Fyrir nokkrum dögum þá birtist hér gagnrýni mín á óhefðbundnar þjálfunaraðferðir 8-11 ára stúlkna í körfubolta, sem sáust í heimildamyndinni Hækkum rána (sjá hér). Viðbrögðin við greininni hafa verið gríðarleg sem sýnir að ekki voru allir á eitt sáttir við efni myndarinnar, og er viðfangsefnið greinilega viðkvæmt. Sitt sýnist þó hverjum og fólk nálgast viðfangsefnið frá mismunandi sjónarhornum og oft útfrá miklum tilfinningum. Einhverjir sjá þetta í öðru ljósi en ég geri, og horfa þá fyrst og fremst til þeirrar jákvæðu hugmyndar sem myndin gekk útfrá; að valdefla þessar flottu stúlkur í gegnum körfuboltann. Ég hef aftur á móti reynt að koma að ákveðnu sjónarhorni hvað þetta varðar sem ég tel mikilvægt að tekið sé inn í stóru myndina í þessu máli. Ég tel því þörf á að tjá mig frekar um málið og setja umræður um afreksvæðingu barna í víðara samhengi. 

Leikur að orðum

Grundvallargagnrýni mín á efni myndarinnar beinist fyrst og fremst að þeirri hugmyndafræði þjálfunar sem beitt var á þessar ungu stúlkur. Í fyrri grein minni um efnið útskýrði ég í lengra máli að um væri að ræða skýrt dæmi um óæskilega afreksvæðingu barnaíþrótta. Þjálfarinn og stuðningsfólk hans hafa í kjölfarið svarað því til að alls ekki sé um afreksvæðingu að ræða, án þess þó að hrekja þær forsendur sérstaklega. Þess í stað segja þau að það sé fyrst og fremst verið að framfylgja svokallaðri „eljustefnu“ en ekki „afreksstefnu“. Þetta er bara leikur að orðum og hugtökum. Við getum kallað hluti hvaða nafni sem okkur sýnist, það breytir þó ekki eðli hlutanna. Stóll er alltaf stóll, þó svo hann sé notaður sem trappa. Afreksvæðing er afreksvæðing, þó hún sé í þessu tilfelli kölluð „eljustefna“.

Auglýsing
Það sem kom fram í myndinni, auk þeirra upplýsinga sem ég hef fengið hjá fjölda fólks á undanförnum dögum, sýnir svo ekki er um villst að um afreksvæðingu barnastarfs var að ræða. Afreksvæðing íþrótta byggir á snemmbærri sérhæfingu í ákveðinni íþrótt, óhóflega miklu magni æfinga fyrir unga og óharðnaða líkama, útilokun ákveðinna iðkenda vegna skorts á færni, áhuga eða annarra bjarga eins og tíma eða fjármagni, og pressu á framfarir og árangur iðkenda, svo eitthvað sé nefnt, með það að leiðarljósi að móta afreksfólk framtíðarinnar (sjá nánar í yfirlýsingu íþróttafræðafólks hér). Allt ofangreint á við í þessu tilfelli og því miður eru ýmsar vísbendingar þess efnis að ýmsar neikvæðar afleiðingar þeirrar stefnu hafi einnig fylgt þessu starfi. Ég hef fengið það staðfest frá fjölda fólks.

Afreksstefna barna í íþróttum er víðast hvar á undanhaldi, þar sem rannsóknir, reynsla fólks af slíku starfi, sem og breyttur tíðarandi, hafa dregið úr trú á slíkri nálgun. Sem dæmi þá hætti þýska knattspyrnustórveldið, og stórfyrirtækið, FC Bayern Munich nú síðast með allt starf fyrir yngstu iðkendurna – iðkendur á svipuðum aldri og rætt er um hér. Með þessu segir félagið að það sé að axla félagslega ábyrgð á að varðveita æsku iðkenda. Já, þetta snýst einmitt um félagslega ábyrgð íþróttahreyfingarinnar á æsku landsins.

Að vinna heimavinnuna sína

Aðstandendur verkefnisins hafa haldið því fram að ég hafi ekki unnið heimavinnuna mína þegar ég kom fram með gagnrýni á þjálfunaraðferðir stúlknanna og viti því ekki um hvað ég er að tala. 

Því vil ég taka fram að við gerð fyrri greinar minnar um efnið þá hafði ég samband við ýmsa aðila, sem tengdust verkefninu sem um ræðir. Í þeim samtölum komu upp á yfirborðið upplýsingar sem studdu ekki einungis upphaflega greiningu mína á sjálfri myndinni heldur báru þær með sér að staðan væri enn alvarlegri en ég hafði gert mér í hugarlund í fyrstu. Upphafleg grein mín varð því í raun hvassari en ætlunin hafði verið.

Í kjölfar birtingar fyrri greinar minnar um efnið þá hef ég þar að auki fengið ótal símtöl og skilaboð frá ýmsum aðilum eins og foreldrum barna í flokknum, öðrum þjálfurum, foreldrum andstæðinga liðsins, sem og öðrum sem höfðu sögur að segja af því sem þarna fór fram. Þetta var almennt fólk sem þakkaði mér sérstaklega fyrir að rýna á bak við glansmyndina sem sett var fram í myndinni og segja frá hlutunum eins og þeir voru. Foreldrar stúlku sem var í flokknum lýstu til að mynda greiningu minni sem „nákvæmri upplifun“ á því sem þarna fór fram. Önnur skilaboð sem fólk sendi mér voru á svipuðum nótum.

Ég get því ekki annað en að vísa þessari gagnrýni til föðurhúsanna.

Tilraunastarfsemi á börnum?

Umræða síðustu daga hefur varpað ljósi á að einhverjar brotalamir kunni jafnframt að vera í skipulagi íþrótta hér á landi. Íþróttafélögin eru að stórum hluta rekin með styrkjum frá sínum sveitarfélögum og ríki og hafa því ákveðnu samfélagslegu hlutverki að gegna. Í lögum um íþróttir nr. 64/1998 segir til að mynda að samstarf ríkis og sveitarfélaga við hina frjálsu íþróttahreyfingu skuli taka mið af gildi íþróttaiðkunar fyrir uppeldis og forvarnarstarf. Aðferðir við þjálfun barna í íþróttafélögum eru því ekki einkamál hvers þjálfara, frekar en að aðferðir sérhvers kennara í grunnskólum landsins er einkamál hans. Mikið starf er unnið innan félaganna í þeim tilgangi að bæta það starf sem þar fer fram á grundvelli bestu þekkingar hverju sinni á svipaðan hátt og gert er innan grunnskólanna. Ljóst er að starfið er ekki óbrigðult en ég vil þó taka fram að framfarirnar hafa verið miklar á undanförnum árum og árangurinn hefur verið eftir því. 

Auglýsing
Þær þjálfunaraðferðir sem sýndar voru í myndinni Hækkum rána virðast vera hugarsmíð þjálfarans sjálfs frekar en að þjálfunin hafi fylgt þeim reglum og viðmiðum sem íþróttahreyfingin gerir kröfu um. Í viðtali á dögunum þá greindi þjálfari stúlknanna frá því að hann væri að prófa sig áfram með sínar eigin aðferðir með þessar stúlkur. Aðferðum sem ganga að miklu leiti gegn almennum viðmiðum og leiðbeiningum vísindasamfélagsins sem og stefnu íþróttayfirvalda. Aðferðum sem hann segist sjálfur ekki treysta öðrum þjálfurum landsins til þess að beita þar sem hann búi einn yfir þeirri þekkingu og færni sem slík þjálfun byggi á. Þessar aðferðir eru því fjarri lagi yfir gagnrýni hafnar og í raun er mikið umhugsunarefni að þjálfarinn hafi, jafn lengi og raun bar vitni, fengið að beita þessum umdeildu aðferðum í sínu starfi. Með öðrum orðum þá er þjálfarinn í raun búinn að upplýsa að hann hafi verið að beita tilraunastarfsemi á börn í íþróttum, tilraunastarfsemi sem hvorki hefur verið prófuð, sannreynd eða fengið viðurkenningu óháðra og ábyrgra aðila. Hér vakna ótal spurningar um ábyrgð þjálfarans sem og ábyrgð íþróttahreyfingarinnar.

Aðferðin sem beitt var í þessu tilfelli er í besta falli vafasöm og í versta falli stórskaðleg. Og það eru ekki forsendur sem við getum boðið börnum uppá í fyrstu skrefum þeirra í íþróttastarfi. Því er brýnt að íþróttahreyfingin efli eftirlitshlutverk sitt með þjálfun barna í íþróttum, bæði til að tryggja að bæði stelpur og strákar fái rétta og góða þjálfun og til að koma í veg fyrir að vafasömum aðferðum sé beitt við þjálfun þeirra. Það er of mikið í húfi til að horft sé framhjá tilraunastarfsemi einstaka þjálfara á svo viðkvæmum hópum. 

Í kjölfar umræðunnar

Umræða síðustu daga sýnir að það er mikilvægt að brýna fyrir þjálfurum og foreldrum að þeir þurfa að vera meðvitaðir um afleiðingar afreksvæðingar og gera sér jafnframt grein fyrir því að það er alltaf áhættusamt að setja börn í tilraunaaðstæður. Einnig sýnir hún að það er mikilvægt að íþróttahreyfingin taki skýra afstöðu gegn afreksvæðingu íþróttastarfs barna til að tryggja það að réttindi allra barna séu tryggð og virt í öllu íþróttastarfi um komandi framtíð. 

Spurningar sem umræðan hefur jafnframt komið af stað um hvort að við sem samfélag gerum nægilega miklar kröfur til barna og ungmenna nú til dags eða hvort stelpur fá sömu tækifæri og strákar eru enn knýjandi. Það er því upplagt að nýta þá umræðu sem spunnist hefur í kringum umrædda tilraun þjálfarans sem hvatningu til okkar sem samfélags til að ræða og móta uppbyggilega stefnu og aðferðir til að styrkja og valdefla börnin okkar til framtíðar. En það er samfélagslegt verkefni okkar allra að móta slíka stefnu, og verður hún að byggja á bestu og áreiðanlegustu þekkingu hvers tíma, en ekki á umdeildum aðferðum einstaklinga – sem ganga jafnvel gegn viðurkenndri þekkingu á sviðinu.

Að lokum

Eftir umræðu og atburði undanfarinna daga þá bý ég nú yfir enn frekari upplýsingum um þá hugmyndafræði og þær þjálfunaraðferðir sem stundaðar voru hjá þessum stúlkum en ég gerði í upphafi. 

Þessar upplýsingar staðfesta réttmæti upphaflegu gagnrýni minnar á þjálfunaraðferðir stúlknanna. Ég stend því að fullu við fyrri ummæli mín um að allt bendi til þess að skýr og óæskileg afreksstefna hafi verið rekin í þjálfun þessara stúlkna, þó svo að hlutirnir hafi verið kallaðir öðrum nöfnum. Það breytir þó ekki því að stelpurnar í myndinni eru frábærar í körfubolta og ekki er annað hægt en að dáðst að hugrekki þeirra í þeirri baráttu sem þær heyja og í þeirri sögu sem sögð er í myndinni. En, stelpurnar sem heltust úr lestinni á leiðinni eða fengu ekki að vera með eru líka frábærar og það er ekki við þær að sakast að hafa lent í aðstæðum sem voru bæði óeðlilegar og ósanngjarnar, og að þeirra saga hafi ekki verið sögð. Ég vona bara að þær láti ekki deigan síga. Þeirra tími kemur síðar.

Höfundur er prófessor í félagsfræði við Háskóla Íslands.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Losun koldíoxíðs út í andrúmsloftið á stóran þátt í því að þolmarkadagur jarðar er jafn snemma á árinu og raun ber vitni.
Þolmarkadagur jarðarinnar er runninn upp
Mannkynið hefur frá upphafi árs notað þær auðlindir sem jörðin er fær um að endurnýja á heilu ári. Til þess að viðhalda neyslunni þyrfti 1,7 jörð.
Kjarninn 29. júlí 2021
Örn Bárður Jónsson
Ný stjórnarskrá í 10 ár – Viska almennings og máttur kvenna
Kjarninn 29. júlí 2021
Til að fá að fljúga með flugfélaginu Play verða farþegar að skila inn vottorði um neikvæða niðurstöðu úr PCR-prófi eða hraðprófi.
Hafa þurft að vísa vottorðalausum farþegum frá
Flugfélagið Play hefur fengið jákvæð viðbrögð við þeirri ákvörðun að meina farþegum um flug sem ekki hafa vottorð um neikvætt COVID próf. Fyrirkomulagið verður enn í gildi hjá Play þrátt fyrir að vottorðalausum muni bjóðast sýnataka á landamærunum.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kamilla Jósefsdóttir og Alma Möller landlæknir.
Sértæk bóluefni gegn delta-afbrigði „okkar helsta von“
Frá því að fjórða bylgja faraldursins hófst hér á landi hafa sextán sjúklingar legið á Landspítala með COVID-19. Tíu eru inniliggjandi í dag, þar af tveir á gjörgæslu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Kort Sóttvarnastofnunar Evrópu sem uppfært var í dag.
Ísland orðið appelsínugult á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu
Mikil fjölgun greindra smita hér á landi hefur haft það í för með sér að Ísland er ekki lengur grænt á korti Sóttvarnastofnunar Evrópu. Væru nýjustu upplýsingar um faraldurinn notaðar yrði Ísland rautt á kortinu.
Kjarninn 29. júlí 2021
Jóhann Björn Skúlason, yfirmaður smitrakningateymis almannavarna.
Smitrakningunni „sjálfhætt“ ef fjöldi smita vex gríðarlega úr þessu
Miklar annir eru nú hjá smitrakningarteymi almannavarna. Á bilinu 180-200 þúsund notendur eru með smitrakningarforrit yfirvalda í símum sínum og það gæti reynst vel ef álagið verður svo mikið að rakningarteymið hafi ekki undan. Sem gæti gerst.
Kjarninn 29. júlí 2021
Ari Trausti Guðmundsson
Faraldur er ekki fyrirsjáanlegur
Kjarninn 29. júlí 2021
Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra.
„Ekki má hringla með marklínuna“
Dómsmálaráðherra vonar að stjórnarandstöðunni „auðnist ekki að slíta í sundur þá einingu sem ríkt hefur meðal landsmanna í baráttunni gegn veirunni“. Samhliða útbreiddri bólusetningu þurfi að slá nýjan takt og „leggja grunn að eðlilegu lífi á ný“.
Kjarninn 29. júlí 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar