Flestir Íslendingar hafa nóg að borða af hollum og góðum mat. Það á samt ekki við um alla. Samkvæmt Hagstofunni búa á bilinu 18-35 þúsund við fátækt hverju sinni, eða 5-10% landsmanna. Af þeim eru sjö til tíu þúsund í mikilli neyð og búa við sárafátækt. Stærstur hluti þeirra eru einstæðir foreldrar, lífeyrisþegar og innflytjendur. Fátækt takmarkar möguleika fólks með ýmsum hætti. Margir láta sér nægja fábreyttan, óhollan mat.
Í febrúar 2021 kom út skýrslan Fæðuöryggi á Íslandi unnin af sérfræðingum Landbúnaðarháskóla Íslands (LBHÍ). Þar er útskýrt hvað þarf til að tryggja öflugt fæðuframboð en ekki nefnt að margir geta ekki keypt sér fjölbreytta og holla fæðu.
Skýrslan er unnin af LBHÍ fyrir landbúnaðarráðuneytið sem ef til vill skýrir að horft er á málið út frá framleiðendahliðinni en neytendahliðinni sleppt.
Skýrslan sýnir mikilvægi frjálsra og opinna viðskipta milli landa sem er vel. Við á Íslandi þurfum að flytja ýmislegt inn sem ekki hentar að framleiða hér, til dæmis ávexti, grænmeti, kornvörur og einnig aðföng til matvælaframleiðslu eins og eldsneyti, vélar, tæki, áburð og dýrafóður. Á móti flytjum við út fisk og fleira og erum „nettó útflytjendur“ matvæla.
Holl matvæli kosta gjarnan meira en óholl. Fátækt fólk neytir því hlutfallslega mikils af ódýrum mat svo sem núðlum, hrísgrjónum og sykurbættum mat. Um 20% barna teljast of þung og um 60% fullorðinna eru yfir kjörþyngd. Ástæðurnar eru ofneysla orkuríkrar fæðu og ónóg hreyfing. Afleiðingarnar eru lífstílssjúkdómar sem stytta meðalævi fólks og kosta þjóðina yfir 10 milljarða á ári varlega áætlað.
Hvað á að gera við afa?
Í gamla daga var fæðuöryggi spurning um líf eða dauða. Börn voru borin út eða hent í foss til að létta á heimilunum og aldraðir gengu jafnvel fyrir ætternisstapa í sama tilgangi. En nú eru aðrir og betri tímar og hægt að bæta fæðuöryggi allra. Það þarf ekki að skilja neina út undan.Við þurfum líka að breyta neysluvenjum fyrir okkur og umhverfið. Núverandi styrkjakerfi landbúnaðarins ræður ekki við þessar áskoranir og þarfnast uppfærslu.
Leiðin fram á við
Til að bæta fæðuöryggi fátækra þurfum við að lækka matarverð, sérstaklega hollrar fæðu. Það má gera með gagnkvæmri niðurfellingu matartolla við aðrar Evrópuþjóðir eins og þær hafa fyrir löngu gert sín á milli.Við þetta eykst framboð hollrar fæðu, vöruverð lækkar og hagur fátækra neytenda og landsins sem ferðamannalands vænkast.
Um leið þarf að bæta hag bænda með því að koma á grunnstuðningi við virka bændur óháð því hvaða grein landbúnaðar þeir stunda og nýta kosti markaðarins, líka til að færa framleiðsluna yfir í þær vörur sem eftirspurn er eftir.
Höfundur er viðskiptafræðingur og situr í stjórn Neytendasamtakanna.