Mikið er nú rætt um hálendisþjóðgarð, sem ríkisstjórnin hefur lagt til að verði stofnaður og fyrir liggur frumvarp um á Alþingi. Þetta er mál sem mikilvægt er að fái mikla og góða umræðu en sem framkvæmdastjóri stærsta þjóðgarðs Íslands, Vatnajökulsþjóðgarðs, þykir mér oft erfitt að sjá mína góðu stofnun dregna inn í umræður um hálendisþjóðgarðinn með neikvæðum formerkjum.
Oft finnst mér nefnilega örla á nokkurri vanþekkingu þegar fjallað er um Vatnajökulsþjóðgarð og virðist sem að fyrirfram gefnar hugmyndir fólks um starfsemi stofnunarinnar rati stundum inn í umræðuna. Þetta á við um rekstrarhlið þjóðgarðsins, stjórnun og verndun ólíkra svæða og nú síðast þróunarverkefni um innleiðingu á sérstakri atvinnustefnu fyrir þjóðgarðinn. Þá hefur jafnvel verið efast um vilja stjórnenda þjóðgarðsins til samráðs og samstarfs við hagsmunaaðila, sem ég get fullyrt að er mjög mikill.
Faglegur metnaður er ráðandi á öllum framangreindum sviðum í starfsemi þjóðgarðsins. Vatnajökulsþjóðgarður er sjálfstæð ríkisstofnun með sérstaka stjórn þar sem sitja m.a. fulltrúar sveitarfélaga, útivistarsamtaka, ferðamálasamtaka og umhverfissamtaka. Reksturinn hefur gengið vel síðustu ár og til marks um það þá hefur þjóðgarðurinn verið rekinn með rekstrarafgangi á hverju ári síðustu þrjú ár. Árleg rekstrarvelta nemur um 950 milljónum króna og var stofnunin orðin að fullu skuldlaus við ríkissjóð um síðustu áramót.
Betri árangur í rekstri og öflugt faglegt starf er grundvöllur fyrir áframhaldandi þróun þjóðgarðsins. Nú stendur yfir mikil uppbygging á innviðum innan marka þjóðgarðsins, svo sem á gestastofum, þjónustuhúsum, gönguleiðum, merkingum og brúm en alls nema framkvæmdirnar rúmlega einum milljarði króna yfir tveggja ára tímabil. Um nær allt ríkir almenn sátt en þó eru ákveðnar undantekningar.
Um hríð hefur verið uppi ágreiningur um akstursslóðann um Vonarskarð, nánar tiltekið um hvort heimila skuli á ný för annarra en gangandi þar um. Sú deila er þó ekki einkennandi fyrir stöðu þessara mála innan þjóðgarðsins. Breið samstaða er almennt um aðgengi og umferð í þjóðgarðinum. Alls eru innan þjóðgarðsins um 1052 km af akstursleiðum og er meirihluti veganna á ábyrgð Vegagerðarinnar. Flesta vegi og slóða innan þjóðgarðsins er að finna uppi á hálendinu þar sem þeir voru lagðir á sínum tíma en almennt hafa vegir og slóðar sem heimilt er að aka innan þjóðgarðsins, verið skilgreindir í nánu samstarfi við hagsmunaaðila.
Innviðir sem þessir skipta máli til að tryggja góða umgengni um þjóðgarðinn. Árið 2019 voru gestir Vatnajökulsþjóðgarðs vel yfir eina milljón og hefur verið byggð upp fjölbreytt þjónusta, tjaldstæði og upplýsingamiðstöðvar til að hægt sé að taka vel á móti öllum þessum gestum.
Starfsmenn Vatnajökulsþjóðgarðs brenna fyrir verkefnunum sem stofnuninni er ætlað að sinna. Hjá okkur eru 35 fastir starfsmenn en á sumrin fjölgar í hópnum þegar við bætast 80-100 sumarstarfsmenn sem sinna landvörslu, þjónustu og fræðslu. Einn mælikvarði á starf þessa hóps er ánægja gest og þjóðgarðurinn varð nýverið í 2. sæti yfir bestu þjóðgarða í Evrópu og í 17. sæti á heimsvísu hjá Trip Advisor ferðavefnum.
Auk starfsmanna þá kemur að starfi þjóðgarðsins margt fleira fólk, í gegnum setu í annars vegar stjórn og hins vegar fjórum svæðisráðum þjóðgarðsins. Í svæðisráðin hefur valist fólk með þekkingu á aðstæðum í heimabyggð sem er mikilvægur þáttur í að þróa þjóðgarð sem þennan. Allt þetta fólk sinnir störfum sínum af óþrjótandi áhuga og metnaði, bæði fyrir náttúrunni og því að samfélögin í kringum þjóðgarðinn blómstri.
Starfsemi þjóðgarðsins hefur á flesta mælikvarða gengið afar vel síðustu ár og vona ég að þessi yfirferð sýni þeim sem nú kynna sér hugmyndafræðina á bakvið þjóðgarða að hún hafi reynst vel á Íslandi, eins og víðast hvar um heiminn og sé góð aðferð til að skapa sátt, en ekki sundrung, um nýtingu og verndun merkilegra landsvæða í almannaeign.
Höfundur er framkvæmdastjóri Vatnajökulsþjóðgarðs.