„Við erum stöðnuð í jafnréttismálum. Það er engin raunveruleg framþróun,“ sagði formaður BSRB, Sonja Ýr Þorbergsdóttir, fyrir nokkrum dögum. Hún lét þessi stóru orð falla í fréttum um þann sláandi tekjumun sem mælist á tekjum kvenna og karla í nýuppfærðri tekjusögu stjórnvalda. Þar kemur fram svart á hvítu að aukin menntun kvenna gagnast þeim ekki til tekna. Því meira sem konur mennta sig, því meiri munur verður á launum þeirra og karla. Háskólamenntaðar konur eru með langtum lægri tekjur en háskólamenntaðir karlar. Þeirra menntun er ekki metin til fjár og laun menntaðra kvenna eru sambærileg við minna menntaða karla.
Þungu orðin sem formaður stéttarfélags opinbera starfsmanna lætur falla í ljósi þessara upplýsinga eru því miður hárrétt. Þegar kemur að því að meta störf kvenna að verðleikum er munur á heildarlaunum kynjanna gríðarlegur. Jafnréttisparadísin Ísland er stöðnuð þegar kemur að launamun og okkur hefur ekki tekist að vinna bug á kynskiptingu vinnumarkaðarins. Þessu þarf að breyta strax og þó fyrr hefði verið.
COVID og kvennastörfin
Þessar fréttir koma ofan í það mikla álag sem starfsfólk í framlínustörfum hefur verið undir í rúmt ár vegna heimsfaraldursins. Faraldurinn sýndi okkur hvaða störf eru í raun verðmætust. Það eru störfin sem snúast um að sinna manneskjum, hjúkra fólki og kenna börnum. Þetta eru störfin sem kveikt hafa verðskuldað þakklæti í huga almennings, störfin sem fólkið okkar í framlínunni hefur sinnt. Og það þarf varla að minna á að manneskjurnar bakvið störfin í heilbrigðiskerfinu, í leik – og grunnskólum og umönnunarstörfin á hjúkrunarheimilum eru að miklum meirihluta konur. Konur sem margar hverjar hafa mikla menntun, en margar líka sem sinna láglaunastörfum. Konur sem hafa í mörg ár og áratugi fyrir heimsfaraldurinn barist fyrir betri kjörum og virðingunni sem í því felst.
Ríkisstjórnin skipaði að vísu starfshóp þriggja ráðuneyta og fulltrúa samtaka launafólks og samtaka atvinnulífsins um launamun kynjanna í tengslum við gerð kjarasamninga í mars á síðasta ári. Hópnum er ætlað að skila tillögum til aðgerða til að útrýma launamun sem stafar af kynskiptum vinnumarkaði nú í maí. Einu ári og tveimur mánuðum síðar. Ég tel mjög brýnt að flýta þeirri vinnu svo hægt verði að fjalla um tillögur til aðgerða í þessu risastóra jafnréttismáli í þinginu og í samfélaginu áður en kjörtímabilið klárast.
Þurfa konur bara að vera duglegri að mennta sig ?
Það er ljóst öllum sem vilja sjá að okkur hefur ekki tekist að sveigja af þeirri leið sem hefur svo lengi verið rótgróin í samfélagi okkar, að þótt við höfum séð mikilvægar framfari, þá eru störf kvenna ekki metin ekki að verðleikum á atvinnumarkaði. Við þurfum varla fleiri flóknar rannsóknir og fleiri launakerfisútreikninga til að reikna það út. Það er kynbundinn munur á atvinnutekjum bæði á almennum vinnumarkaði og opinberum vinnumarkaði. Munurinn á heildartekjum karla og kvenna er hrópandi og þó að munurinn sé minni á grunnlaunum þá er munurinn á yfirvinnu, öðrum launum og fríðindum sem bætast ofan á þau, allt of mikill. Svigrúmið til að hækka karla í launum virðist alltaf vera meira en til að hækka konur í launum. Mantran um að konur þurfi bara að mennta sig til að fá hærri laun til jafns við karla, hefur því miður reynst blekking og það er í raun óskiljanlegt hvernig stendur á því að kjarabarátta fyrir háskólamenntaðar konur er ekki komin lengra.
Efnahagsaðgerðir fyrir karlastörf
Til að bæta gráu ofan á svart, er ljóst að viðspyrnuaðgerðir ríkisstjórnarinnar til að mæta efnahagsáfallinu vegna heimsfaraldursins, er miðaðar á hefðbundin karlastörf í vegagerð og byggingariðnaði en á þau störf sem harðast hafa farið út úr kreppunni. Þetta gerist þrátt fyrir að þau sem misst hafa vinnuna og lent í vanda, séu að stórum hluta konur; ungar og erlendar konur. Þetta hefur undirrituð og fleiri þingmenn bent á og rannsóknir staðfesta. Félagið Feminísk fjármál bendir líka á þetta með nýjum, ítarlegum greiningum sínum á mótvægisaðgerðunum sem sýna að kynjasjónarmið hafi ekki verið höfð að leiðarljósi við mótun aðgerðanna, heldur verið gripið til dæmigerða kreppuviðbragða og rykið einfaldlega dustað af viðbrögðunum við fjármálakreppunni 2008 sem þó var allt annars eðlis en Covid-kreppan nú.
Konur lifa ekki á þakklætinu einu saman
Til að bregðast við því ójafnrétti sem blasir við okkur í tekjusögunni um mikinn launamun menntaðra kvenna og karla, þarf að hrista verulega upp í hugsuninni um launamuninn. Það þarf að bjóða nýjar leiðir sem snúast um að verðmeta upp á nýtt almenn kvennastörf, konur fái viðurkenndar álagsgreiðslur fyrir tilfinningalegt og andlegt álag sem er mikið í heilbrigðisstörfum, umönnunar – og kennslustörfum og bætist við kynjahallann í umönnunarbyrði á ættingjum sem er meiri á Íslandi í samanburði við önnur Evrópulönd. Flýta þarf vinnu starfshópsins um tillögur til að vinna að og uppræta launamun kynjanna. Og tillögurnar þurfa að vera róttækar og afdráttarlausar.
Síðan þegar kemur að efnahagsviðbrögðum við Covid-19 efnahagskreppunni, þarf að hafa kjark til að endurskoða þær í takt við hvar þörfin er mest.
Viðbrögðin þurfa að vera bæði styðjandi við hópana sem hafa orðið verst úti en líka framsæknar og framsýnar. Það þarf pólitískt hugrekki til að endurskoða efnahagsviðbrögðin út frá jafnréttisvinklinum enda bráðnauðsynlegt. Í Ábyrgu leið Samfylkingarinnar er að finna tillögur að atvinnusköpun og fjölgun starfa í bæði opinbera geiranum, eins og í heilbrigðiskerfinu og velferðarþjónustu, en líka með markvissum stuðningi við fyrirtæki. Þær tillögur eru í takt við þörfina og raunveruleikann í íslensku samfélagi. Við þurfum fjölbreyttari lausnir til að skapa fjölbreyttari störf en nú hefur verið gert.
Stjórnvöld þurfa að sýna raunverulegt þakklæti í garð kvennastarfa og viðurkenningu á því sem fram hefur komið í heimsfaraldrinum, að þau störf eru ómissandi. Stjórnvöld þurfa að sýna vilja til umbóta og viðurkenningar á þessum störfum með sýnilegum áhrifum á launaumslög kvenna og starfsumhverfi þeirra. Konur lifa nefnilega ekki á þakklætinu einu saman.
Það hefur aldrei dugað neinum að bíða eftir jafnrétti, það hefur alltaf þurft að fremja jafnrétti og krefjast róttækra breytinga. Þessar upplýsingar úr tekjusögunni og af greiningu á efnahagsaðgerðunum sýna svo ekki verður um villst, að svo það verði ekki hjákátlegt þegar við montum okkur í enn eitt sinn af jafnréttisparadísinni okkar, verður baráttan að halda áfram.
Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar.