Margar þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til í kjölfar efnahagsáhrifa COVID-19 heimsfaraldursins miða að því að örva hagkerfið og auka peningamagn í umferð. Þetta telst til dæmigerðra kreppuviðbragða og eru margar þeirra aðgerða sem gripið hefur verið til sambærilegar þeim sem notast var við í Hruninu. Ólíkt Hruninu sem kom til vegna ofþenslu hagkerfisins, kemur COVID-kreppan til fyrir tilstilli utanaðkomandi óútreiknanlegra þátta. Heimsfaraldur hefur valdið tekjustoppi í ferðaþjónustu og tengdum þjónustugreinum og starfsfólk þeirra missir vinnuna. Þetta starfsfólk eru til að mynda konur og fólk af erlendum uppruna, og mest eru áhrifin á Suðurnesjum.
Ekki hefur dregið eins mikið úr einkaneyslu eins og í fyrstu var talið og sama má segja um íbúðafjárfestingu. Hér er líklega um samspil margra þátta að ræða en ljóst er að sá hluti þjóðarinnar sem haldið hefur vinnunni, hefur færi á að vinna heima og hefur ekki mjög íþyngjandi umönnunarskyldur heima fyrir, heldur áfram að búa við efnahagslegt öryggi. Á sama tíma heldur atvinnulausum áfram að fjölga. Þetta dregur fram ólík áhrif COVID-kreppunnar á mismunandi hópa fólks.
Það er ljóst að Hrunið og COVID-kreppan koma ólíkt við heimilin í landinu og óvenjuleg kreppa líkt og þessi kallar á sértæk viðbrögð til að koma til móts við þau sem hafa orðið verst úti fjárhagslega. Sú leið sem hefur verið farin er að reyna að koma peningum til fólks og fyrirtækja í gegnum markaðinn og bankakerfið í formi almennra aðgerða, en vegna áhrifa heimsfaraldurs og sóttvarnaraðgerða skila þessir peningar sér ekki endilega í hendur þeirra sem höllustum fæti standa.
Annað dæmi er ferðagjöfin sem er aðgerð sem átti að virkja þær greinar sem urðu fyrir tekjustoppi vegna heimsfaraldurs, og kostaði tæplega 800 milljónir (hingað til). Nú er ljóst að stór hluti þess fjármagns endaði í höndum fyrirtækja sem urðu ekki fyrir verulegum beinum áhrifum af heimsfaraldrinum og standa nú jafnvel sterkari en þau gerðu áður, s.s KFC, Olís og N1. Það kann að vera að ferðagjöfin hafi átt þátt í auknum ferðalögum Íslendinga innanlands, en í ljósi framangreinds sést að aukið peningamagn í umferð skilaði sér ekki nógu vel þangað sem markaðsbresturinn átti sér stað.
Úttektarheimild valfrjáls séreignarsparnaðar er enn annað dæmi. Úttektin hentar fremur þeim sem eru með stöðuga þátttöku á vinnumarkaði, í fullri vinnu og með meðaltekjur eða hærri. Konur eru líklegri til að vera í hlutastarfi, hafa almennt lægri tekjur og taka meiri tíma frá launaðri vinnu vegna þyngri umönnunarbyrði. Það er því líklegt að konur eigi almennt lægri séreignarsparnað en karlar, ef þær eiga hann yfir höfuð. Karlar hafa tekið út meirihluta fjárhæðarinnar sem greidd hefur verið út, enda hentar úrræðið þeim betur en konum. Auk þess er ólíklegt að úrræðið gagnist fjölda fólks af erlendum uppruna sem nú er án atvinnu.
Þá má einnig spyrja sig hverjir hafa notið góðs af á átakinu Allir vinna. Aðgerðin á að hvetja fólk til að nýta sér þjónustu og fá 100% endurgreiðslu virðisaukaskatts af vinnunni, en sú þjónusta sem þar fellur undir er að stærstum hluta unnin af körlum og ólíkleg til að skapa störf fyrir þann hóp sem misst hefur vinnuna vegna Covid-19 heimsfaraldurs. Aðgerðin á að auka umsvif hagkerfisins, en gerir slíkt á kostnað jafnréttis því stuðningurinn fer fyrst og fremst til karla-stétta og nýtist best þeim sem eru það efnahagslega vel stæð að þau hafi yfir höfðu efni á að nýta sér þá þjónustu sem endurgreiðslan nær til.
Við komum þá óhjákvæmilega að spurningunni um forgangsröðun fjármagns sem stjórnvöld veita í stuðning til fólks og fyrirtækja vegna COVID-19. Efnahagsaðgerðir stjórnvalda vegna COVID eru annars vegar hugsaðar til að auka umsvif og hins vegar til að auka jöfnuð. Er nokkuð til of mikils mælst að þær aðgerðir sem auka eiga umsvif í hagkerfinu stuðli sömuleiðis að jafnrétti og réttlæti? Því það er besta nýtingin á almannafé.
Höfundar eru félagar í Femínískum fjármálum, félagi áhugafólks og sérfræðinga um kynjuð fjármál.