Hvað gerum við í dag, við sem tilheyrum stétt verka og láglaunakvenna? Hvað gerum við í dag, á þessum degi sem ætti með réttu að vera okkar; fyrst haldinn hátíðlegur af róttækum, sósíalískum verkakonum, í þeim tilgangi að senda skilaboð um stórkostlegt mikilvægi kvenvinnuaflsins og hvetja til samstöðu í baráttunni fyrir frelsi og réttlæti? Sumar okkar gera það sem við gerum alla daga. Við seljum vinnuaflið okkar á útsölumarkaði samræmdrar láglaunastefnu, sem ómissandi starfsfólk, undirstöðustarfsfólk, á leikskólum, hjúkrunarheimilum, í heimaþjónustu, við þrif. Þar vinnum við og þar finnum við að án okkar hættir allt að virka, án okkar stoppar samfélagið. En okkur er samt aldrei þakkað fyrir nokkurn skapaðan hlut, ekki fyrir eitt einasta handtak, hvorki í dag né aðra daga.
Og sumar okkar vakna inn í atvinnuleysið, vakna inn í vitundina um peninga-leysið; áttundi dagur mánaðarins er runninn upp og það er ekki mikið eftir inn á einkabankanum af atvinnuleysisbótunum, einhverjir þúsundkallar sem munu klárast á næstu dögum. Fyrir þær okkar sem svo er komið fyrir er tilveran orðin einhverskonar fangavist, stöðug bið frá einum mánaðamótum til þeirra næstu, stöðug bið eftir að þau sem fara með völd ákveði að leggja nokkra þúsundkalla í viðbót inn, stöðug bið eftir því að eitthvað breytist, einhvern tímann.
Sumar okkar er ekki hægt að nýta til vinnu. Við erum „bótaþegar“ sem íþyngjum valdastéttinni með „örorkubyrði“. Okkar er í aðdraganda kosninga lofað því að nú verði örlítið réttlæti, smá sanngirni fundin einhvers staðar í fjárkistum yfirvaldsins en alltaf sviknar, af valda-konum jafnt sem valda-mönnum. Við eigum ekkert og megum ekkert, eigum að skammast okkar fyrir að vera til, vera byrði á flotta valdafólkinu. Eigum að skammast okkar fyrir það í dag, líkt og alla aðra daga.
En í dag, 8. mars, ætlar forsætisráðherra Íslands, ekki að gera neitt af þessu. Katrín Jakobsdóttir ætlar að hringja bjöllu í Kauphöllinni. Hún ætlar að fagna þar með þeim sem eiga og mega, fjármagnseigendum sem hafa auðgast stórkostlega í kreppunni; þar er enginn að hugsa um þúsundkalla, þar hefur á kreppuárinu methækkun orðið í hlutabréfaverði og til að sýna aðdáun sína á auðstéttinni hefur ríkisstjórnin ákveðið að útbúa sérstakan skattaafslátt fyrir kaupendur hlutabréf. Hin ríku verða ríkari. Og ríkari. Því ber að fagna, finnst forsætisráðherra.
Ef að eitthvað réttlæti væri að finna væri 8. mars dagur verka og láglaunakvenna. En í stað þess að okkur séu færðar þakkir fyrir að halda umönnunarkerfunum gangandi og í stað þess að gripið sé til sérstaka ráðstafana til að gera tilveru þeirra kvenna sem þjást í atvinnuleysinu betri, er í dag líkt og alla hina dagana athyglinni beint að fjármagnseigendum og valdastéttinni. Og þess krafist af okkur, enn eina ferðina, að við hyllum stjórana í undirgefni og aðdáun á þeim sem ráða. Við eigum enn og aftur að tilbiðja brauðmolakenningu kvenfrelsisins, eigum að tilbiðja velgengi einstakra kvenna, eigum að glápa eins og einfeldningar á sjónarspilið í Kauphöllinni þar sem forsætisráðherra ætlar að hringja bjöllu arðránsins og ímynda okkar að við getum líka orðið svona flottar stelpur, eigum að festast í dagdraumum um peninga og frelsið sem þeir færa fólki. En hverja okkar myndi nokkru sinni langa að ríkja yfir þeirri misskiptingu og stéttskiptingu sem hér fær að vaxa og dafna? Hver vill ríkja yfir kerfi þar sem að aldrei hafa fleiri konur þurft að leita á náðir hjálparsamtaka til að fá mat handa sér og sínum á meðan að samfélagsleg auðæfi renna í peninga-geymslur hina ríku? Þvílík móðgun að láta sér detta til hugar að við viljum nokkuð hafa með þetta ömurlega rugl að gera.
Ég hvet okkur sem tilheyrum stétt verka- og láglaunakvenna, fæddar hér á landi og hingað fluttar, til að hafna hinni femínísku brauðmolakenningu. Hættum að tilbiðja frelsi einstakra kvenna til að ráða yfir okkur. Hættum að taka þátt í skurðgoðadýrkun á valdi og persónulegri velgengni einstakra kvenna. Hættum að leyfa þeim sem ráða að komast upp með endalausa sjálfsupphafninguna og sjálfsdýrkunina. Okkar eigin sjálfsvirðing hlýtur að segja okkur að þær sem sjá ekkert rangt við meðferðina á verka og láglaunakonum eru ekki fulltrúar okkar, hvorki í dag né aðra daga.
Í dag, á meðan valdastéttin heldur áfram að stela deginum okkar án þess að skammast sín, ætla ég að hugsa til allra kvennanna, alls staðar að úr heiminum, ómissandi starfsfólksins sem vinnur í dag eins og alla daga alla hina lífsnauðsynlegu kvennavinnu, og til allra kvennanna sem þjást í atvinnuleysinu og þeim skelfilegu fjárhagsáhyggjum sem því fylgja. Ég ætla að hugsa um samstöðu okkar og baráttu. Ég ætla að hugsa um þær fórnir sem við höfum fært fyrir íslenskt samfélag og færum á degi hverjum. Og ég ætla, eins og aðra daga, að lofa sjálfri mér því að gera allt sem í mínu valdi stendur til að breyta þessu kvenfjandsamlega arðránskerfi. Ég vona af öllu hjarta að þið gerið slíkt hið sama.
Höfundur er formaður Eflingar.