Ég var að koma af kynningarfundi Peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands þar sem sú ákvörðun að halda stýrivöxtum óbreyttum, 4,5 prósent, var kynnt og útgáfa Peningamála sömuleiðis.
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, fór yfir sviðið og eyddi töluverðum tíma í óvissu sem er í hagkerfinu vegna deilna um kaup og kjör. Óhætt er að segja að hann hafi málað upp svarta mynd af því, hvað mun gerast ef samið verður um innistæðulausar launahækkanir, það er án þess að framleiðniaukning í hagkerfinu fylgi með launahækkunum.
Í mati seðlabankans á áhrifum launahækkana á stöðu efnahagsmála, einkum verðbólgu, er miðað við að samið verði um 11 prósent launahækkanir þvert yfir vinnumarkaðinn. Það er heldur minna en kröfur hafa verið uppi um.
Fjölmiðlaumfjöllun um þessar deilur hefur í stuttu máli falist í því að gera grein fyrir sjónarmiðum beggja og fylgjast með hvernig framvindan er. Síðan er líka sú hlið að gera grein fyrir áhrifum af tilteknum samningum, og spá í spilin. Þar hafa allir sem koma að málum eitthvað til síns máls, og mikilvægt að gera grein fyrir öllum þessum atriðum. Upplýsingarnar frá aðalhagfræðingi seðlabankans eru sláandi, en þó einungis í takt við sögulega þróun, þegar kemur að því að semja um launahækkanir sem síðan reynist ekki vera innistæða fyrir.
Eins og sjá má á meðfylgjandi myndum, sem teknar eru úr Peningamálum, bendir margt til þess að íslenska haftahagkerfið, sem er ennþá veikburða eftir nær fordæmalausar hremmingar, ráði ekki við launahækkanir sem nema ellefu prósentum. Staðan er síðan verri ef samið verður um meiri hækkanir. Stjórnvöld virðast meta það þannig, að það sé vel hægt að hækka laun um mun hærri tölur en þetta enda hækkuðu laun hjá læknum um rúmlega 20 prósent, og hjúkrunarfræðingar, ein stærsta kvennastéttin í landinu, með 2.100 innanborðs, gera tilkall til svipaðra launahækkana. Verkfall hjá þeim hefst að óbreyttu 27. maí.
Þetta er snúin staða. Vonandi gera þau sem eru við samningaborðið sér grein fyrir því, að almenningur má ekki sitja eftir með glímu við verðbólgudrauginn, eftir þessa samninga. Enn einu sinni. Hluthafar stærstu fyrirtækjanna verða líka að skynja þá stöðu sem uppi er um þessar mundir, með losun hafta handan við hornið, og leggja fram stór og mikil spil sem þeir eru með á hendi.
Sá geiri sem hefur gengið í gegnum bestu rekstrarár í sögunni að undanförnu, sjávarútvegurinn, er þar augljóslega í brennidepli. Hluthafar stærstu fyrirtækjanna virðast þurfa að slá af arðgreiðslum til sín, og deila þeim peningum með fólkinu á gólfinu í meira mæli. Það gæti verið þeirra framlag, til að hjálpa til við að ná sátt á almennum vinnumarkaði. Það sama má raunar segja um smásöluna og aðra geira, þar sem mögulegt hefur verið að greiða út töluverðan arð á undanförnum árum. Þar gætu hluthafar þurft að ákveða að taka minna fé úr rekstrinum en gert hefur verið, og deila góðri rekstrarafkomu með fólkinu á gólfinu.
Stjórnvöld verða síðan að rökstyðja það betur fyrir almenningi, hvernig þau ætla að haga hagstjórninni í landinu. Svo virðist sem þau hafi verið að blekkja almenning með undanförnum kjarasamningum sínum, vegna þess að það er ekki innistæða fyrir tugprósenta launahækkunum sem ríkið hefur verið að semja um að undanförnu. Greiningar sýna það glögglega, og það er ömurlegt að horfa upp á þetta eftir á.
Samningar um að sleppa verðbólgudraugnum lausum, og leyfa honum að stórskaða fjárhag einstaklinga og fyrirtækja, einkum fjárhag þeirra sem lægstu launin eru með, eiga ekki að vera í boði. Vonandi tekst að semja um launahækkanir sem innistæða er fyrir.