Í vikunni voru kynntar stórtækar aðgerðir ríkisstjórnarinnar í húsnæðismálum. Sitt sýnist hverjum eins og oft vill verða þegar ríkið beitir sér með jafn stórtækum hætti og nú stendur til. Aðgerðirnar sem ráðuneyti Eyglóar Harðardóttur ætlar að ráðast í hafa allar göfugt markmið. Með þeim á að reyna að tryggja tekjulægsta fólki landsins húsnæði á verði sem það ræður við, breyta húsnæðisbótakerfunum þannig að þau verði sanngjarnari og finna leiðir til að hjálpa kaupendum fyrstu íbúða að komast inn á markaðinn. Þótt markmiðin séu góð þá eru hins vegar mjög skiptar skoðanir um útfærslurnar og hvort þær muni raunverulega skila einhverju öðru en aukinni þenslu og fleiri krónum inn á reikninga leigusala.
Eitt atriði í tillögum Eyglóar hefur vakið meiri eftirtekt í bakherberginu en önnur. Það er sú hugmynd að sett verði sérlög um fasteignalán til neytenda sem veiti lánveitendum „svigrúm til að horfa til fleiri þátta en niðurstöðu greiðslumats við ákvörðun um lántöku“.
Greiðslumat er, líkt og flestir þekkja, tæki til að finna út hversu háar afborganir af lánum fólk ræður við að greiða. Á grundvelli þess ákveða bankar hversu há lán þeir eru tilbúnir til að lána fólki, og lágmarka þá áhættu sína á því að fólkið borgi lánin ekki til baka.
Undirrót þeirra vandræða sem alþjóðlegt efnahagskerfi rataði í fyrir hrun var einmitt sú að fullt af fólki fékk fullt af peningum lánað án þess að hafa nokkra getu til að endurgreiða lánin. Á íslensku voru þessi lán kölluð undirmálslán.
Neytendasamtökin létu sér svona lánveitingar á Íslandi töluvert varða á árunum eftir hrun. Þau sendu meðal annars bréf á Gylfa Magnússon, þá efnahags- og viðskiptaráðherra, árið 2009 þar sem þau sögðu m.a.: „Undanfarin misseri hefur berlega komið í ljós að sumir lántakendur hafa tekið að láni meira fé en þeir ráða í raun við að greiða til baka. Greiðsluörðugleikar heimilanna skrifast ekki eingöngu á gengisfall íslensku krónunnar eða vaxandi verðbólgu og atvinnuleysi, heldur einnig það að framboð af lánsfé var of mikið. Lánsfjárhæðir voru því oft í engu samræmi við greiðslugetu og framfærslukostnað lántaka. [...]Gera má ráð fyrir því að hefði íslensku bönkunum verið skylt að framkvæma raunhæft greiðslumat fyrir allar lánveitingar væru færri heimili í greiðsluvandræðum.“
Á árinu 2013 voru samþykkt ný lög um neytendalán á Alþingi. Þau byggðu að mestu á Evróputilskipun um neytendalán. Í þeim var kveðið á um skyldu til greiðslumats og eftir gildistöku laganna hafa ugglaust margir fundið fyrir því hversu reglur um lán, til dæmis yfirdráttarlán, hafa verið hertar.
Í ljósi þess að stór hluti vandræða heimsins í hruninu stafaði af lánum til fólks sem gat ekki borgað af þeim, þess að aðgerðir sem gripið hefur verið til út um allan heim í kjölfarið miða allar að því að herða reglur um lánveitingar þá er útspil Eyglóar frekar einkennilegt og þarfnast hið minnsta frekari skýringa. Ef ekki á að miða við getu fólks til þess að borga af láni þegar lánsfjáræð er ákveðin, hvað á þá að miða við?