Þagnarhjúpur og skömm hefur umlukið sjálfsvíg og sjálfsvígshugsanir í gegnum aldirnar. Það er ekki skrýtið þegar haft er í huga að sjálfsvíg voru lengi talinn glæpur, sbr. orðið sjálfsmorð, hægt var að gera eigur sjálfsvegenda upptækar og greftrun þeirra í kirkjugörðum var oft bönnuð. Ísland er þar engin undantekning, því eins og sagnfræðingurinn Hrafnkell Lárusson bendir á í nýlegri grein voru „lög sem giltu um sjálfsvegendur á Íslandi fram til ársins 1870 [] mörkuð af fordæmingu á sjálfsvígum“.
Með lagaumbótunum árið 1870 endurspegluðu Íslendingar hægfara hugarfarsbreytingu sem hófst í Evrópu á Endurreisnartímanum og náði hámarki á tímum Upplýsingarinnar. En þrátt fyrir lagaumbætur í sumum löndum og þá opnun umræðunnar um sjálfsvíg, sem David Hume, Wolfgang von Goethe og aðrir 18. aldar hugsuðir stuðluðu að, varð ávinningurinn ekki langvinnur. Þetta er niðurstaða franska sagnfræðingsins Georges Minois í bókinni History of Suicide: Voluntary Death in Western Culture því þegar kom fram á 19. öld urðu sjálfsvíg aftur tabú sem var umlukið þögn. Minios segir vísindi 20. aldar ekki hafa rofið þagnarmúrinn. Í dag ætla ég að rjúfa þögnina og ræða um baráttu mína við tilhugsunina um eigin tortímingu.
Sjálfsvígshugsanir hafa legið á mér eins og mara í tæplega 30 ár. Í vísindasögurannsóknum mínum hef ég ekki einu sinni fengið frið fyrir þessum hryllingi enda voru tvö af helstu viðfangsefnum rannsókna minna, bresku líffræðingarnir Julian Huxley (1887-1975) og Lancelot Hogben (1895-1975), illa haldnir af sjálfsvígshugsunum sem ungir menn. Á þessum langa tíma hef ég gengið í gegnum gríðarlega erfiðleika. Hér er hvorki staður nér stund til þess að rekja þá sögu, enda geri ég hana að umtalsefni í greininni „Hugleiðing um áföll og sjálfsvígshugsanir“ sem birtist í nýjasta hefti Tímarits Máls og menningar. Þess í stað hyggst ég einblína á tvö afdrifarík augnablik úr ævi minni þar sem ég stóð við dauðans dyr og velta fyrir mér hvaða lærdóm er hægt að draga af reynslunni.
Sjálfsvígstilraun á sólríkum sumardegi
Það var á sólríkum sumardegi sem ég gerði fyrstu alvarlegu sjálfsvígstilraunina, þá 25 ára gamall. Allt þetta sumar heltóku sjálfsvígshugsanir líf mitt. Frá því ég vaknaði og þar til ég fór að sofa þutu hugsanir um eigin tortímingu stöðugt í gegnum hugann. Svefninn veitti mér því miður enga hvíld enda herjuðu hryllilegar martraðir á mig á hverri nóttu. Ég fyrirleit sjálfan mig og þráði svefninn langa.
Það er mér í fersku minni þegar ég kom dag einn heim frá vinnu, náði í öll lyfin mín og innbyrti þau af mikilli yfirvegun. Á meðan á þessu stóð fann ég ekki fyrir neinni hræðslu og upplifði í raun ánægjulega spennu. Þetta breyttist fljótt. Þegar ég fór að finna fyrir áhrifum lyfjanna fylltist ég skyndilega mikilli hræðslu og fann að mig langaði eftir allt saman ekki að deyja. Hringdi því strax í besta vin minn og bað hann um að keyra mig á bráðamóttökuna. Ég man óljóst eftir að því að setjast upp í bílinn hans en eftir það verður allt svart.
Þegar kviknaði á meðvitundinni lá ég í spítalarúmi tengdur alls konar tækjum. Fyrstu einstaklingarnir sem ég sá voru systir mín og móðir. Næst kom ég auga á lækni og hugsaði: „Af hverju léstu mig ekki deyja?“ Ég man ekki eftir að hafa rætt þessa reynslu af alvöru, hvorki við geðheilbrigðisstarfsmann, fjölskylduna né vin minn. Hér liggur hundurinn einmitt grafinn því þessi þrúgandi þögn gerði það að verkum að hvorki ég né fjölskylda mín höfðum nokkurn möguleika á að skilja hvað lá að baki sjálfsvígshugsunum, sjálfsfyrirlitningunni og þeirri ólýsanlegu einmanakennd sem ég upplifði. Hin lamandi þögn átti líklega stóran þátt í því að ég losnaði ekki úr fangelsi þessara skelfilegu hugsana.
Get ég bjargað lífi mannsins?
Á einum stað í Mýtu Sisyfosar veltir franski rithöfundurinn Albert Camus upp nokkrum líklegum skýringum á sjálfsvígum. En eins og Camus bendir á verðum við einnig „að vita hvort vinur örvæntingarfulla mannsins hafi nokkuð ávarpað hann kæruleysislega þann sama dag. Hann er sá seki“. Ég lenti í hliðstæðri reynslu undir lok síðasta árs.
Allan síðasta vetur var ég undir miklu álagi. Á sama tíma og ég gekk í gegnum erfiða en árangursríka áfallameðferð hjá sálfræðingi á Landspítalanum fetaði ég mig aftur út í lífið eftir að hafa meira og minna einangrað mig frá umheiminum í mörg ár. Ég fékk vinnuaðstöðu á stórum vinnustað þar sem ég gat sinnt ritstörfum mínum. Það var mjög erfitt að horfa daglega framan í hóp af einstaklingum sem vissu líklega ekki hver ég er. Óöryggið minnkaði þó smátt og smátt þegar leið á veturinn.
Tilfinningalega álagið sem fylgdi ritstörfunum flækti lífið hins vegar verulega. Ástæða þessa er sú að áföll, sjálfvígshugsanir, sjálfsfyrirlitning og gríðarlegur einmanaleiki spiluðu stórt hlutverk í textunum sem ég skrifaði síðast liðinn vetur. Hér er annars vegar um að ræða grein um breska líffræðinginn Lancelot Hogben, sem er væntanleg í Journal of the History of Biology, og hins vegar greinin um sjálfan mig, sem hefst á þessari setningu: „Í ljósinu frá jeppanum blasti gapandi brjóstkassinn við og ég hugsaði skelfingu lostinn: ‚Get ég bjargað lífi mannsins‘?“
Álagið sem fylgdi sálfræðimeðferðinni, veru minni á vinnustaðnum stóra og ritstörfunum tók því verulega á mig. Þegar maður býr við svona ágjöf getur áreiti, sem virðist sárasaklaust, kveikt gríðarlega sterkar sjálfsvígshugsanir. Þetta gerðist nokkrum sinnum síðasta vetur.
Eftirminnilegasta atvikið átti sér stað á nöprum nóvemberdegi er ég var á gangi við Þjóðarbókhlöðuna. Þá fékk ég símtal þar sem mér var tilkynnt að ég þyrfti að flytja mig yfir á annað skrifborð. Minn viðkvæmi hugur einblíndi hins vegar bara á fyrstu setninguna sem ég heyrði: „Það er búið að flytja dótið þitt af skrifborðinu.“ Þá kviknaði strax gríðarlegur ótti um að nú ætti á henda mér út af vinnustaðnum. Þó setningarnar sem fylgdu strax í kjölfarið leiðréttu þennan misskilning var stíflan brostin og ekki aftur snúið. Óhugnanlegar sjálfsvígshugsanir helltust yfir mig og gekk ég eins og í leiðslu niður á höfn og hugðist henda mér í sjóinn. Þegar þangað var komið rankaði ég við mér og vissi, ólíkt því þegar ég var 25 ára gamall, nákvæmlega hvað ég átti að gera. Ég hringdi í sálfræðinginn, sagði henni frá atvikinu og róaði hún mig niður.
Hér erum við komin að kjarna málsins. Ég hafði aðgang að mjög færum sálfræðingi (og hef raunar enn) sem hlýddi kalli mínu samstundis þegar svartnættið virtist vera að kaffæra mig. Það er ekki allt, því forsenda þess að ég gat nýtt mér skyndihjálpina var leiðsögn hennar sem gerði mér kleift að rata hægt og rólega út úr dimmu völundarhúsi sjálfshaturs og –fyrirlitningar. Nú stend í fyrsta skipti í áratugi, nokkuð óstyrkum fótum, í sólbjörtu landslagi þar sem kærleikur og gleði eru eðlilegur hluti af lífinu. Sólin blindar mig en dagbókin, þar sem ég skrái niður jákvæðar lýsingar á athöfnum dagsins, verndar mig fyrir glýjunni. Það vaknar eðlilega ótti innra með mér við tilhugsunina um að halda út í landslag sem ég hef ekki gengið um í áratugi. En sá ótti er léttvægur í samburði við valkostinn, sem er að halda aftur inn í völundarhúsið dimma. Á vegferðinni sem er framundan mun ég örugglega gæjast þanngað inn af og til en markmiðið er að fjarlægjast völundarhúsið hægt og rólega og læra að njóta sólarinnar með fjölskyldunni og vinum.
Þakklátur fyrir að lífi mínu var bjargað
Þó líf mitt hafi verið gríðarlega erfitt í tæplega 30 ár er ég í dag óendanlega þakklátur starfsfólki Borgarspítalans sem bjargaði lífi mínu fyrir 23 árum. Ef ég hefði dáið hefði ég ekki séð æskudraum minn um að verða líffræðingur rætast. Ég hefði ekki kynnst eiginkonu minni sem hefur staðið mér við hlið eins og klettur í 22 ár. Ég hefði ekki horft á börnin okkar þrjú fæðast og vaxa úr grasi. Ég hefði ekki fengið meistara- og doktorsgráður vísindasagnfræði. Ég hefði ekki skrifað genabókina örlagaríku. Ég hefði ekki birt greinar í alþjóðlegum fræðitímaritum. Ég hefði ekki skrifað hátt í eitthundrað blaðagreinar.
Ég hefði ekki kynnst iðjuþjálfunum tveimur sem kenndu mér að meta verðmætin sem felast í reynslusögu minni. Ég hefði ekki kynnst geðlækninum sem hefur ekki gefist upp á mér síðan leiðir okkar lágu saman fyrir 5 árum. Og síðast en ekki síst þá hefði ég ekki kynnst sálfræðingnum sem hjálpaði mér að lyfta grettistaki síðast liðinn vetur. Með hennar hjálp hefur mér tekist að öðlast sjálfsskilning sem gerir það að verkum að ef ég þarf aftur að skipta um borð á vinnustaðnum stóra eða yfirgefa hann mun ég hlíta beiðninni af yfirvegun. Í fyrsta skipti í langan, langan tíma horfi ég nokkuð björtum augum framan í aðsteðjandi vetur.
Álitið byggir á erindi sem flutt var á málþingi í Þjóðminjasafninu á alþjóðlega sjálfsvígsforvarnadaginn, sem helgað var sjálfsvígum ungra karla.