Fyrir páska sagði Lilja Alfreðsdóttir viðskiptaráðherra frá því í fjölmiðlum að hún hefði komið því skýrt á framfæri innan ríkisstjórnarinnar að hún væri mótfallin þeirri leið að selja bréf í Íslandsbanka til valins hóps fjárfesta. Hún hefði viljað almennt útboð. Önnur leið var hins vegar valin og því miður væri fátt sem kemur henni á óvart í þessu máli og hver útkoman varð. Skilaboðin voru öllum skiljanleg. Viðskiptaráðherra var þarna að lýsa því að á hana hefði ekki verið hlustað. Forsætisráðherra hefði valið þá leið sem fjármálaráðherra lagði til en hafnað sjónarmiðum viðskiptaráðherra. Lilja bætti svo um betur og sagði að meira myndi koma í ljós í þessu máli á næstu dögum. Hún vildi hins vegar ekki segja hvað það væri því hún var á leiðinni í páskafrí.
Voru átök innan ríkisstjórnarinnar?
Hvorki forsætisráðherra né fjármálaráðherra hafa getað neitað orðum viðskiptaráðherrans en ríghalda í að engin bókun liggi fyrir. Bera fyrir sig ímyndaðan trúnað um opinber ummæli ráðherrans. Forsætisráðherra segir bara að auðvitað hafi skoðanaskipti átt sér stað. Sennilega hefði það þó jafngilt stjórnarslitum hefði viðskiptaráðherra bókað gegn formanni Sjálfstæðisflokks og formanni Vinstri grænna á þriggja manna ráðherrafundi um efnahagsmál þar sem ákvarðanir voru teknar um þriðju stærstu einkavæðingu Íslandssögunnar. Í því ljósi svarar það engu um hvort átök voru innan ríkisstjórnarinnar að engin bókun liggi fyrir.
Meira muni koma í ljós á næstu dögum
Í umræðum í þingsal í morgun virtist viðskiptaráðherra staðfesta að formaður Framsóknarflokksins hefði ekki hlustað á varnaðarorð hennar. Hún svaraði spurningum um þetta með þeim orðum að það væru ekki alltaf allir sammála. Eftir stendur þá sú spurning hvort viðskiptaráðherra hafi verið einangruð um þessa afstöðu innan eigin flokks. Enginn þingmaður flokksins hefur viljað staðfesta að innan þingflokks hafi þessi varnaðarorð varaformanns Framsóknarflokksins verið rædd.
Síðar sama dag var tónninn í viðskiptaráðherra orðinn annar inni í þingsal. Hún sagði alla ráðherranefndina um efnahagsmál haft efasemdir í aðdraganda sölunnar. En engu að síður keyrðu þau öll sem einn maður á þennan vegg. Það eru auðvitað stórkostleg tíðindi ef forystumenn ríkisstjórnarinnar voru öll sammála höfðu efasemdir en breyttu samt ekki í samræmi við það. Og úr varð sala sem einkennist af hagsmunaárekstrum og 83% þjóðarinnar er óánægð með.
Hin pólitíska ábyrgð
Augljóst er að aðdragandi sölunnar, ákvarðanir innan ríkisstjórnarinnar sjálfar og umræður þar eru viðkvæmar. Þetta eru þær spurningar sem mestu máli skipta, því þessar ákvarðanir lögðu grunninn að sölunni. Rannsóknarnefnd getur skoðað stóru myndina en ekki bara hegðun einstaka sölufulltrúa. Fyrir páskafrí vakti það athygli þegar viðskiptaráðherra sagði: „Ég er þó ekki á því að hægt sé að skella skuldinni alfarið á stjórnendur Bankasýslunnar og þykir miður að málið sé einfaldað þannig. Ábyrgðin hlýtur að vera stjórnmálamanna sem tóku ákvörðun í málinu“. Þessar kjarnaspurningar um pólitíska ábyrgð vilja forystumenn ríkisstjórnarinnar hins vegar ekki að verði ræddar eða rannsakaðar. Og af þeirri ástæðu vilja þau ekki rannsóknarnefnd.
Viðskiptaráðherra svaraði ekki spurningu minni í morgun um það hvað hún átti við þegar hún sagði að meira myndi koma í ljós í þessu máli á næstu dögum. Á almenningur ekki rétt á því að heyra við hvað hún á? Varla getur það verið lögmál að vara fólk alltaf við eftir að slysið verður?
Höfundur er þingmaður Viðreisnar.