Það segir sína sögu að Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna (World Food Programme) metur fjárþörf sína frá júní til nóvember á þessu ári upp á 22 miljarða dollara. Nei, ég efast reyndar um að margir lesendur skilji þessa sögu eins og hún er. Okkur er bókstaflega drekkt í alls konar tölum og tímabilum sem eru óskiljanleg. Setjum þetta þá í samhengi: Fjárþörf fyrir sex mánaða tímabil í ár fyrir stærstu stofnun heimsins sem veitir matvælaaðstoð er sem sagt 22 milljarðar, sem er nærri þrisvar sinnum stærri tala en fyrir sömu stofnun heilt ár áður en Kóvid og stríð í Úkraínu skullu á. Þrisvar sinnum meiri þörf núna á hálfu ári en var fyrir heilt ár áður. Það skilur maður einhverjum skilningi.
Það er líka hægt að útskýra þetta með fjölda þeirra sem eru í bráðum matarskorti svo stappar nærri hungursneyð: 350 milljónir manna í meira en 80 ríkjum heims. Talan hefur tvöfaldast á skömmum tíma.
Stríðinu að kenna?
Já, að hluta, bara að hluta. Eins og David Beasley framkvæmdastjóri WFP útskýrði í Silfrinu fyrir stuttu blasti við hrikaleg matvælakreppa FYRIR faraldur og löngu áður en stríðið skall á. Úkraína flytur vissulega út mikið af matvælum og mörg lönd reiða sig á innflutning þaðan, en það eru ekki mjög mörg ríki sem eiga næstum allt sitt undir mat þaðan.
Það sem nú gerist í heiminum er flóknara og mun verra en að úr leysist með því einu að ljúka þessu vonda stríði. Í fyrri grein minni í Kjarnanum fjallaði ég um matvælakreppuna og því kominn tími til að bæta við um heiminn eins og hann er.
Margföldunartafla hörmunga
Nokkrir margfaldarar ganga gegnum matvælakerfi heimsins. Sá fyrsti er aukinn kostnaður við aðföng og flutninga á sama tíma og fjöldi þeirra sem býr við neyð eykst gríðarlega og gjafmildi þeirra sem mest eiga minnkar.
„Gleymdu stríðin“ hafa ekki horfið. Í Afganistan búa 97% íbúa undir fátæktarmörkum. Í Suður-Súdan, Jemen og Sýrlandi hefur ófriður geysað í meira en áratug og svo bætast við „ósýnilegu stríðin“ sunnan Sahara og enn trompa svo stöðuna „steingleymdu stríðin“ í Írak, Líbíu og Mjanmar.
Allar þessar tölur, ólíku svið og endalausa óáran er ofar skilningi okkar. Við bara náum þessu ekki þótt það standi á blaði og myndir segi meira en þúsund orð. Það er veruleg áskorun fyrir rithöfunda og listamenn að koma þessum skilningi að einhverju leyti til almennings. Þetta var vel túlkað í myndverki á Feneyjatvíæringnum 2019 þar sem Christian Marclay sýndi 40 War Movies. Þar eru Hollywood-stríðsmyndir lagðar hver ofan á aðra með sama fjölda hljóðrása þar sem blandast saman sprengjuregn og þjáningarhljóð.
„Það grillir bara í mjóa ræmu frá hverju „stríði“, en heildin myndar samfelldan hrylling. Heimurinn birtist eins og hann er meðan sinfónía morða, rána og nauðgana ómar.“ Allt tengist eins og Leónardó da Vinci sagði 500 árum fyrr: „Jemen, Tsjad, Suður-Súdan, Sómalía, Nígería, Malí, Búrkína Fasó, Líbía, Afganistan, Írak, Kongó, Mjanmar, Sýrland, Líbanon, Palestína … Bang, bang, búmm. Öskur. Vein.“ (Úr Heimurinn eins og hann er).
Þriðji margfaldarinn er svo náttúruhamfarir og loftslagsáföll. Man nokkur eftir að Madagaskar hefur átt við langvarandi þurrka að stríða og hungursneyð? Að tugir milljóna manna hafa ekki fengið uppskeru í samfellt fimm ár á Horni Afríku (Sómalía, Eþíópía, Kenía)? Hitabylgjur með sviðna jörð í Evrópu og flóð í Pakistan og Flórída. Tjónið af þessum völdum er metið á tæpa þrjátíu milljarða dollara á árinu.
Og meira til
Margfaldari númer fjögur er þreföld áhætta samtímis í mörgum ríkjum: Hækkandi orkuverð, hærra matvælaverð, fjármálakreppa sem skekur fátæk skuldsett ríki með vaxtabyrði og gengisáhættu.
Af þeim rúmlega 100 ríkjum sem kreppan ógnar eru 40 í Afríku sunnan Sahara og WFP líkir ástandinu hjá þeim við „fárviðri“ enda meðal fátækustu ríkja heims.
Ósigrar
Þeir lesendur sem fylgdust með loftslagsráðstefnunni í Egyptalandi (COP 27) vita ugglaust að þar náðist enginn árangur í þá átt að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Eitt dæmi um að fögur fyrirheit stefni á öskuhauga samtímasögunnar. Þau eru fleiri:
1) Heimsmarkmiðin fyrir 2030 munu ekki nást. Algjör uppgjöf blasir við í baráttunni fyrir „Zero hunger“ – eða heimi án hungurs.
2) Parísarmarkmiðið í loftslagsmálum um að halda hlýnun innan við 1,5 gráður mun ekki nást, hugsanlega stefnir í 2-3 gráður að lágmarki.
3) Loforð 90 þjóðarleiðtoga (2020) um „náttúruvænt hagkerfi 2030“ mun ekki nást þótt þeir hafi lýst yfir „hnattrænu neyðarástandi“ (e. planetary emergency).
Hvað þarf eiginlega til? Í Heiminum eins og hann er fannst mér nauðsynlegt að fjalla líka um pólitísku víddina sem varðar þetta allt og felur í sér enn eina uppgjöfina - fyrir þeim sem græða á óbreyttu ástandi.
Stefán Jón Hafstein er höfundur bókarinnar Heimurinn eins og hann er. Myndir eru úr bókinni.