Sjö þingmenn Framsóknarflokksins, þau Þorsteinn Sæmundsson, Vigdís Hauksdóttir, Páll Jóhann Pálsson, Líneik Anna Sævarsdóttir, Haraldur Einarsson, Silja Dögg Gunnarsdóttir og Þórunn Egilsdóttir, hafa endurnýjað pólitískan áhuga sinn á því að reist verði 120 milljarða áburðaverksmiðja í Helguvík eða í Þorlákshöfn. Þingsályktunartillaga þess efnis liggur nú fyrir þinginu, en upplegg hennar er að sjömenningarnir vilja að ríkisstjórn Íslands beiti sér fyrir hagkvæmniathugun og könnun á möguleika á því að reisa „sem fyrst“ áburðaverksmiðju.
Að baki tillögunni er forsenda sem er bundin við eftirtalin orð í þingsályktunartillögunni sjálfri í formi greinargerðar: „Undanfarin ár hefur heimsmarkaðsverð á áburði hækkað umtalsvert, einkum vegna aukinna áburðarkaupa Kínverja og Indverja. Heimsmarkaðsverð áburðar náði hámarki árið 2008. Síðan hefur verðið lækkað nokkuð en er nú heldur hærra en fyrir árið 2006. Ljóst er að áburðarverð mun að öllum líkindum haldast hátt í næstu framtíð vegna aukinnar ræktunar matvæla sem nauðsyn er á til að brauðfæða síaukinn mannfjölda.“
Verðsveiflur og áhætta
Ástæðan fyrir áhuga sjömenningana á áburðaverksmiðjunni er því aðallega bundin við það mat þeirra að um einstakt viðskiptatækifæri er að ræða. Ekki er þó annað hægt en að nefna að þessi texti greinargerðarinnar í þingsályktunartillögunni sýni glögglega um hversu mikla áhættu er að ræða. Verðsveiflur eru miklar og eftirspurnin hefur verið drifin áfram af ótrúlegu hagvaxtarskeiði Indlands og Kína á undanförnum árum. Verðið á áburði nú er það lægsta í átta ár og ómögulegt að segja til um það með vissu hvernig það mun þróast. Til lengdar litið mun fjölgun mannkyns vafalítið kalla á meiri áburðarnotkun, en hugsanlega gæti einhverjum öðrum en sjömenningunum dottið í hug að byrja að framleiða hann og þannig tekið til sín tekjur sem annars gætu komið hingað.
Í þessum skrifum er ekki gengið út frá því að íslenska ríkið eigi að fjármagna verksmiðjuna og eiga hana en samkvæmt tillögunni er kostnaður við hana um 120 milljarðar króna og um 150 til 200 störf verði við hana til framtíðar. Því verður ekki trúað upp á sjömenningana að þeir vilji setja skuldum vafinn ríkissjóð, sem borgar 85 milljarða á ári í vexti, í þá stöðu að fjármagna 120 milljarða fífldjarfa áhættufjárfestingu eins og mál standa. Ég ætla í það minnsta að leyfa þeim að njóta vafans, og geri ráð fyrir að þeir séu að hvetja ríkisstjórnina til þess að leggja út í vinnu og kostnað við undirbúning fyrir mögulega áburðaverksmiðju annarra. Reyndar hefur verið á orðum Þorsteins Sæmundssonar í viðtölum við fjölmiðla að skilja að honum sé alvara með það að ríkissjóður eigi að greiða 120 milljarða fyrir verksmiðjuna og eiga hana, en það er ekki útilokað að það sé misskilningur. Áhuginn sem slíkur á verksmiðjunni er nægt tilefni til þess að velta þessum málum fyrir sér.
Ef að sjö menningarnir eru að koma fram með þessa tillögu fyrir hönd einhverra einkafjárfesta, og þannig að láta ríkið taka á sig kostnað við hagkvæmniathugun á þessu verkefni, þá er lágmarkskrafa að koma fram með upplýsingar um slíkt áður en lengra er haldið. Allt annað er óboðlegt.
Einkafjárfestar meiga gera þetta
Í ljósi þess að bygging áburðaverksmiðjunnar felur í sér mikla áhættu fyrir þá sem leggja fjármagn í hana, og rekstur hennar vitaskuld líka í ljósi verðsveiflna og óvissu um þróun mála, samanber greinargerð sjömenningana, þá er það ákveðin fífldirfska að fara út í byggingu verksmiðjunnar. Fyrir mitt leyti þá vona ég þó að einkafjárfestar séu tilbúnir að taka þessa áhættu með sína eigin peninga. Það yrði gott fyrir hagkerfið ef einhver annar en ríkissjóður er tilbúinn til þess að fjármagna verkefnið að fullu og borga allar skuldbindingar sem því fylgja. Það myndi skapa störf og hafa áhrif á þjónustu til góðs. Áhætta getur verið góð. Hugsanlega myndi þetta ganga upp. Hugsanlega ekki. En þá geta þeir sem stóðu í þessum fjárfestingum borið ábyrgðina á öllu saman, tapi eða gróða.
Allt um áburðinn upp á borðið
Sjömenningarnir þurfa að gera hreint fyrir sínum dyrum þegar kemur að áburðinum. Í ljósi þess hve upplýsingarnar í greinargerðinni með þingsályktunartillögunni eru fátæklegar þá er ekki á hreinu hvað sjömenningunum gengur til með þessari tillögu. Það er ekki í verkahring stjórnmálamanna að vera að reyna að sikta út viðskiptatækifæri hér og þar sem aldrei undir nokkrum kringumstæðum geta talist til verkefna sem fé úr ríkissjóði ætti að fara í. Eins og mál standa núna þá verða sjömenningarnir að koma með fleiri upplýsingar um áburðaverksmiðjuna sem þeir vilji að rísi upp á borðið. Annars er ekki annað hægt en að dæma þessa endurfluttu þingsályktunartillögu um áburðaverksmiðjuna sem tóma dellu sem þingmenn eiga að ekki að vera eyða dýrmætum tíma sínum og launum frá okkur skattgreiðendum í.