Það kallast „grænþvottur“ þegar fyrirtæki beitir blekkingum í markaðs- eða kynningarstarfi sínu til þess að sýnast vera umhverfisvænni eða samfélagslega ábyrgari en það raunverulega er. Íslensk fyrirtæki hafa undanfarið í auknum mæli tekið upp hugmyndafræði um samfélagsábyrgð. Stundum vakna grunsemdir um að þetta eða hitt fyrirtækið sé eingöngu að fegra ímynd sína með orðalagi um samfélagsábyrgð, að fyrirtækið sé ekki að segja satt eða segi ekki alla söguna þegar það auglýsir umhverfisvænar vörur eða þjónustu sem það tengir við samfélagsábyrgð. Sú þarf þó ekki að vera raunin og því er nauðsynlegt að fyrirtækin sýni heilindi og almenningur kanni málið áður en dómar eru felldir.
Ketill B. Magnússon, framkvæmdastjóri
Festu - miðstöðvar um samfélagsábyrgð.
Ábyrg upplýsingagjöf
Margir eru á þeirri skoðun að betra sé að segja minna og framkvæmda meira. Það er vissulega rétt að lítil ábyrgð felst í að standa ekki við yfirlýsingar, en það má heldur ekki draga svo úr upplýsingagjöf um starf fyrirtækisins að enginn viti hvernig það starfar og fólk freistist til að geta í eyðurnar. Raunin er sú að bæði viðskiptavinir og starfsmenn vilja gjarnan vita af því ef fyrirtækið vinnur af ábyrgð gagnvart umhvefinu eða samfélaginu. Einhvers staðar þarf að byrja og þó svo endamarkinu hafi ekki verið náð, þá felst ábyrgð í því að gefa raunsanna mynd af þeim áhrifum sem fyrirtækið hefur á hverjum tíma á umhverfið og samfélagið. Hver sem hin raunsanna mynd er þá byggir fyrirtækið upp traust við það að gefa upp rétta mynd af stöðu þess.
Ekki bara glansmynd
Fyrirtækjum, líkt og einstaklingum er annt um orðspor sitt og ímynd. Þau vilja að fólki líki við vörumerkið, tengi það við jákvæða eiginleika og treysti því. Stundum getur þó kynningarstarf fyrirtækisins einblínt of mikið á jákvæðu þættina í starfsemi þess að það verður ótrúverðugt. Fyrirtæki eru ekki fullkomin, frekar en mannfólkið, og þess vegna viljum við frekar fá heiðarlegt svar við erfiðum eða óundirbúnum spurningum heldur en að fá falska glansmynd. Viðskiptavinir vilja að stjórnendur stýri fyrirtækjum skynsamlega, að þeir bregðist við á réttan hátt ef vandamál koma upp, að tillit sé tekið til hagsmunaaðila, enn fremur að reynt sé að lágmarka þann skaða sem þau valda og hámarka jákvæð áhrif sín á umhverfið og samfélagið.
Hvað einkennir grænþvott
Það getur reynst flókið að meta hvort fyrirtæki stundi grænþvott. Bandaríska rannsóknarfyrirtækið UL hefur sett fram lista yfir atriði sem bent gætu til grænþvotts. Þar má nefna hvort athyglinni sé beint frá aðalatriðinu, hvort sannanir fyrir staðhæfingum vanti, hvort rangar merkingar séu notaðar, hvort orðalag sé of loðið eða hvort hreinlega sé verið að segja ósatt.
Þegar rauður varð grænn en lítið annað breyttist
Frægt dæmi um grænþvott er þegar McDonalds í Evrópu breytti litum í vörumerki sínu úr rauðum og gulum í grænan og gulan árið 2009, að þeirra sögn til að undirstrika nýja umhverfisvæna stefnu sína, án þess að breyta starfseminni svo talist gæti. Eða þegar Apple var nýlega ásakað um blekkingar með því að selja Iphone símtæki með ákveðnu minnismagni án þess að nefna að stýrikerfið tekur stóran hluta af minninu svo neytendur neyðast til að kaupa auka auka minni í skýþjónustu Apple.
Árangur og ábyrgð fyrirtæki
Þess er óskandi að íslenskum fyrirtækjum gangi vel að sneyða hjá grænþvotti. Það gera þau með því að endurspegla raunverulega stöðu þeirra hvað varðar samfélagsábyrgð og umhverfisvernd og enn fremur að þau búi yfir þekkingu á þessum hugtökum. Festa – miðstöð um samfélagsábyrgð og Samtök atvinnulífins standa fyrir ráðstefnu í Hörpu þann 29. janúar undir yfirskriftinni Árangur og ábyrgð fyrirtæki. Þar munu nokkur fyrirtæki deila reynslu sinni og sérfræðingar gefa góð ráð um samfélagsábyrgð. Nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á vef Festu, festasamfelagsabyrgd.is.