Við erum agndofa yfir þessu,“ sagði íbúi í Vesturbæ þegar kortlagning á möguleikum innan hverfa Reykjavíkur var lögð fyrir nýlega. Sumir hafa talað um „hreina geðbilun að reyna að þvinga fólk með illu út úr einkabílum“. Hér er átt við greiningarvinnu fyrir nýtt hverfisskipulag sem er grundvöllur samráðs, íbúalýðræðis og hvernig megi nýta land betur. Ekki er verið að samþykkja að bílskúrar íbúa verði teknir eignarnámi. Vinna sem leggur grunn að skipulagi átta hverfa í borginni markar því tímamót í því hvernig við skipuleggjum umhverfi okkar en hún hefur vakið misjöfn viðbrögð.
Reykjavík er í örum vexti. Húsnæðisskortur í borginni er raunverulegt vandamál og þétting byggðar er eina skynsamlega lausnin. Framtíðarsýn borgarinnar er mótuð í aðalskipulagi og ný hverfi hafa verið byggð til að bregðast við mannfjölgun. Innan hverfanna eru hús byggð samkvæmt deiliskipulagi sem nær yfir einstaka lóðareiti. Frá aðalskipulagi niður í deiliskipulag er stórt stökk í skipulagsstigi. Á milli liggja götur, opin rými og viss yfirsýn sem hefur orðið út undan og gleymst í samhenginu. Þannig hafa heilu hverfi borgarinnar þróast sundurleit og ekki alltaf með hag íbúanna að leiðarljósi.
Undanfarin misseri hefur verið unnið að því að brúa þetta bil og skoða einstaka borgarhluta sem heild. Nýtt hverfisskipulag mun skapa tækifæri til að hlúa að nærumhverfi og þjónustu í hverfum og gera þau vistvænni. Eitt helsta markmiðið er að miða skipulagið út frá íbúunum sjálfum og þörfum þeirra, að færa skipulagsvinnuna nær notandanum. Reykjavík hefur alla burði til að vera borg með ekki bara miðbæ og úthverfi, heldur samansafn af öflugum hverfum, hvert með sínu sniði. Laugardalur með frábærum útivistarsvæðum, íþróttaaðstöðu og gourmet-matarverslunum. Breiðholt með litríkri menningu úr öllum áttum eða Grafarvogur með einstöku aðgengi að náttúru og sjávarsíðunni.
Helstu leiðir að betri hverfum eru bættar samgöngur, betri nýting á landi og aukin nærþjónusta. Góð hverfi eru lýðheilsumál og hafa því mikið að gera með lífsgæði okkar. Því er ærin ástæða til að hverfin séu þróuð í góðri sátt við íbúana og kallað sé eftir röddum þeirra. Akkúrat þetta er hlutverk hverfaskipulagsins og með því gefst tækifæri á auknu íbúalýðræði. En því fylgja auknar kröfur til íbúanna um virkni.
Ólíkar raddir þurfa að heyrast
Ný sveitarstjórnarlög kveða á um aukið samráð íbúa og yfirvalda. Það er líka í takt við aukna kröfu almennings þess efnis og því ber að fagna. Mikil verðmæti felast í þekkingu og skoðunum íbúa á umhverfi sínu. Hverfaskipulagið er verkfæri til að virkja þessi verðmæti.
Mikil ábyrgð felst í því að búa við lýðræði; það þarf að gangast við henni og mynda sér upplýstar skoðanir. Það þarf að skoða málið í samhengi, huga að heildarhagsmunum fram yfir einkahagsmuni og án þess að gengið sé á rétt neins.
Það má segja að við séum í betri aðstöðu nú en oft áður að nýta okkur lýðræði. Almenningur er meðvitaðri um rétt sinn, hefur betri aðgang að upplýsingum og er því hæfari til að taka þátt í ákvörðunum um nærumhverfi sitt. Algjör forsenda þátttöku íbúa er að þeir hafi aðgang að upplýsingum. Það þarf líka að vanda vel til upplýsingagjafar. Ótakmarkaður aðgangur er ekki endilega lausnin. Upplýsingarnar þurfa að vera vel framsettar og skiljanlegar, settar í samhengi. Netið er frábær vettvangur og tæki til þátttöku og upplýsingagjafa en ekki nýta sér það allir.
Klessukeyrt lýðræði
Æ oftar kemur upp krafa um atkvæðagreiðslu um umdeild mál en það mætti segja að atkvæðagreiðsla án upplýstrar umræðu sé misbeiting á lýðræði. Kostirnir eru þrengdir við já eða nei, af eða á. Dregnar eru upp of einfaldaðar myndir og hugmyndirnar fyrir fram ákveðnar. Betra væri ef hugmyndirnar mótuðust með víðtæku samráði frá upphafi, byggða á upplýsingagjöf og þar sem ólíkar raddir heyrast.
Á flugvöllurinn að fara eða vera? Bakvið spurninguna eru fjölmargar aðrar spurningar. Fara hvert? Og ef hann verður áfram, hvar á að koma fyrir þeirri uppbyggingu sem er fyrirhuguð á flugvallasvæðinu? Fjölgun íbúa á höfuðborgarsvæðinu er áætluð um 70 þúsund til ársins 2040. Byggingaland er takmörkuð auðlind. Hvar á þá að koma því fólki fyrir? Það er að mörgu að huga og það þarf að skoða alla fleti í sanngirni og sátt. Að smætta svona stórar ákvarðanir niður í tvo póla, með eða á móti, er atlaga að lýðræðislegum gildum. Hættan er að ákvarðanir mótist af áhuga þeirra sem eru virkir þáttakendur frekar en af almannahag.
Glötum ekki tækifærinu
Nú reynir á okkur, við þurfum að sýna þroska og þolinmæði til að sinna lýðræðislegum skyldum. Gríðarleg vinna hefur farið fram við upplýsingaöflun, af þverfaglegum hópi fólks, við drög að hverfaskipulagi borgarinnar. Fyrsta skrefið hefur verið tekið, grundvöllur lagður og hverfin kortlögð svo koma megi auga á tækifærin.
Við viljum öll skilvirkari, heilbrigðari og betri hverfi. Verkfærið hefur verið rétt fram og nú er það okkar að nýta það. Við þurfum að kynna okkur málefnin og nýta okkur þann vettvang sem hverfaskipulagið skapar. Verkefnið er til langs tíma og ef alvöru umræða á sér stað er hægt að þróa hverfi í sátt við íbúa og taka ákvarðanir á traustari grunni. Ef þessi vinna er ekki rædd af heilindum fer hún fyrir bí. Lýðræði felur í sér ábyrgð. Missum ekki sjónar af markmiðunum og látum ekki upphrópanir og æsingamenn slá okkur út af laginu.