Actavis er fyrirtæki með sterkar rætur á Íslandi. Það varð til úr Pharmaco og hefur síðan, í gegnum sameiningar og yfirtökur, stækkað í að verða eitt stærsta samheitalyfjafyrirtæki í heimi og síðar alhliða lyfjafyrirtæki. Fyrirtækið hefur líka haft um 700 manns í vinnu hérlendis. En á næstu misserum mun það breytast og störfunum fækka mikið.
Í ljósi þeirra sviptinga hafa ýmis ummæli forsvarsmanna Actavis um framtíðaráform fyrirtækisins og tengsl við Ísland á undanförnum árum verið rifjuð upp í bakherberginu.
Í júní 2010 var Claudio Albrecht ráðinn forstjóri Actavis. Í fréttatilkynningu vegna þess sagði meðal annars: „ „Eftir margar yfirtökur og hraðan vöxt undanfarinna ára er yfirstjórn Actavis staðsett í fimm löndum, víða um Evrópu og í Bandaríkjunum. Ákveðið hefur verið að sameina æðstu stjórnendur félagsins á einum hentugum stað á meginlandi Evrópu. Leitað er að réttu staðsetningunni. Engin breyting verður á starfsemi Actavis á Íslandi að öðru leyti. Hér á landi verður áfram miðpunkturinn í þróunarstarfseminni ásamt því sem verksmiðjan í Hafnarfirði mun áfram gegna lykilhlutverki í framleiðslu og markaðssetningu nýrra lyfja.“
Björgólfur Thor Björgólfsson, sem þá var aðaleigandi fyrirtækisins, ákvað í kjölfarið að blogga um málið. Í færslu sem hann setti inn á vef sinn btb.is þann 24. júní 2010 sagði hann að utan mögulegrar færslu á yfirstjórn Actavis úr landi væri „öruggt að Actavis verður áfram á Íslandi þar sem rætur þess liggja“.
Snemma árs 2011 var síðan tilkynnt að Actavis ætlaði að flytja höfuðstöðvar sínar frá Íslandi til Sviss. Guðbjörg Edda Eggertsdóttir, þáverandi forstjóri Actavis á Íslandi, lét þá hafa eftir sér á hádegisverðarfundi Félags viðskiptafræðinga og hagfræðinga að fyrirtækið sæi sitt óvænna vegna skatta og sífelldra breytinga á þeim og flytti höfuðstöðvarnar frá Íslandi. Skömmu síðar sagði hún í viðtali við Spegilinn á RÚV: „Við höfum gefið það upp að við erum ekki á leið úr landi. Við erum að setja upp höfuðstöðvar í Sviss. Þar er skattaumhverfið mjög hagstætt, ekki eingöngu fyrir fyrirtæki heldur einnig starfsfólk. Það breytir því þó ekki að Actavis verður áfram íslenskt fyrirtæki og við erum ekki á förum“.
Claudio Albrecht tók enn dýpra í árinni í viðtali við Viðskiptablaðið í janúar 2011 þegar hann var spurður hvort að starfsemi Actavis væri á leið úr landi. „Actavis er og verður íslenskt félag“. Hann fullyrti sömuleiðis að Actavis væri alls ekki til sölu. Hann starfar ekki lengur hjá Actavis Group.
Bandaríska lyfjafyrirtækið Watson Pharmaceuticals keypti hins vegar Actavis á vordögum 2012. Í skuldauppgjöri Björgólfs Thors við lánadrottna sína, sem lauk í ágúst í fyrra, fékk hann að halda hlut í Actavis, sem er skráð á markaði í Bandaríkjunum. Sá eignarhluti hefur gert Björgólf Thor ævintýralega ríkan á ný og skilaði honum meðal annars inn á lista Forbes yfir þá sem eiga meira en einn miljarð dali. Eignir hans voru þar metnar á 1,3 milljarð dali, um 172 milljarða króna.
Um miðjan júní 2015 breyttist nafn Actavis í Allergan eftir enn eina sameininguna og síðastliðinn mánudag tilkynnti fyrirtækið að ákvörðun hefði verið tekin um að loka lyfjaverksmiðju þess í Hafnarfirði, sem hjá starfa 300 manns, árið 2017.
Reyndir menn í viðskiptum, sem nú pukrast í bakherberginu, sýna því fullan skilning að fyrirtæki í alþjóðlegri starfsemi þurfi að þróast og vaxa. Því getur alltaf fylgt miklar breytingar. En þeir benda einnig á að saga Actavis sýni að það þurfi alltaf að taka yfirlýsingum forsvarsmanna fyrirtækja um framtíðaráform með fyrirvara. Því í dag, fimm árum eftir að tilkynning sagði að verksmiðjan í Hafnarfirði myndi gegna lykilhlutverki í starfsemi fyrirtækisins hefur henni verið lokað. Fimm árum eftir að Björgólfur Thor bloggaði að það væri „öruggt að Actavis verður áfram á Íslandi þar sem rætur þess liggja“ var tilkynnt um að tæpur helmingur starfa hjá fyrirtækinu hérlendis hverfa úr landi. Fjórum og hálfu ári eftir að þáverandi forstjóri Actavis á Íslandi sagði að Actavis yrði áfram íslenskt fyrirtæki og væri ekki á förum, og þáverandi forstjóri Actavis-samsteypunnar sagði „Actavis er og verður íslenskt félag“ er Actavis ekki lengur íslenskt félag.
Því hringja aðvörunarbjöllur þegar Actavis leggur sérstaklega fram við að tilkynna að önnur starfsemi hérlendis utan lyfjaverksmiðjunnar, sem veitir um 400 manns vinnu, verði óbreytt. Hversu lengi mun það vilyrði halda?