Draumaheimur
Ímyndaðu þér draumaheim þar sem umgengni og nýting á náttúrunni er með sjálfbærum hætti, þar sem réttlæti og jafnrétti ríkir milli manna, þar sem fátækt, hungur og stríð heyrir sögunni til. Það ríkir friður, lýðræði er við völd alls staðar, náðst hefur að skipta gæðum Jarðar jafnt milli manna og þær eru sameign. Virðing er borin fyrir öllum lífverum og dýraníð heyrir sögunni til. Vistkerfi jarðar eru í jafnvægi og auðlindir eru notaðar á skynsaman hátt og unnið er stöðugt að því að vernda líffræðilega fjölbreytni á Jörðinni. Ímyndaðu þér að í þessari framtíðarsýn hefði mannkyninu tekist að halda hlýnun Jarðar innan við 1,5 gráður og þar með náð af afstýra verstu afleiðingum loftslagsbreytinga og hruni vistkerfa. Afleiðingar loftslagsbreytinga voru samt töluverðar með tilheyrandi mannfalli og eyðileggingu en mannkynið tókst á við málin í sameiningu með réttlæti og samkennd að leiðarljósi. Náðst hefur ákveðið jafnvægi í náttúrunni og lífríkið hefur aðlagast breyttu loftslagi. Notkun jarðefnaeldsneytis er úr sögunni.
Ímyndaðu þér lífið í þessum draumaheimi. Hvernig líður þér? Hvað gerir þú og fjölskylda þín á hverjum degi? Hvernig er lífið í nærsamfélagi, í landinu, heimsálfunni og í heiminum öllum?
Raunveruleikinn
Kannski nærð þú í smátíma að ímynda þér slíkan heim en svo nær raunveruleikinn þér aftur niður á jörðina og þú hugsar þér að þetta sé bara einhver útópía sem verði varla hægt að ná. En nú er mikilvægt að staldra við. Hvernig á að vera hægt fyrir mannkynið að leysa úr stóru áskorunum samtímans ef það hefur enga framtíðarsýn, drauma, ímyndunarafl og er kjarklaust? Sá sem býr til framtíðarsýn er ekki einungis draumóramanneskja. Því framtíðarsýnin er leiðarljós sem gefur okkur einnig sýn á vandamál samtímans og hugmyndir um breytingar til að raungera framtíðarsýnina. Ef fólk getur ímyndað sér betri heim og hefur trú á því að slíkur heimur gæti orðið að veruleika verður til staðföst von, þá fæðast hugmyndir, baráttuandinn og kjarkur verða drífandi og breytingar gerast. Að búa til framtíðarsýn, hafa trú á henni og taka þátt í að stuðla að henni er því mjög öflugt tæki til að koma af stað umbreytingum, til að valdeflast og til að hafa trú á framtíðinni frekar en að kvíða fyrir henni. Þannig verður ókomin tíð full af vonum, væntingum og tækifærum og ætti því að vera tilhlökkunarefni.
Framtíðarsýn alþjóðasamfélags
Alþjóðasamfélagið er búið að móta sína framtíðarsýn sem einkennist af sjálfbærri þróun. Orðið þróun gefur til kynna að þetta sé vegferð og umbreytingarnar gerist í skrefum. Heimsmarkmiðin og sérstaklega undirmarkmiðin þar, eru þá vörður á þeirri vegferð, vörður sem eiga að hafa raungerst fyrir árið 2030. Eftir það verða væntanlega sett ný markmið sem vörður fyrir áframhaldandi þróun á þessari vegferð sjálfbærrar þróunar. Framtíðarsýnin er sem sagt til staðar og flestar þjóðir heims hafa skuldbundið sig til að stuðla að heimsmarkmiðunum sem eru vörður á leið að sjálfbærri þróun. Þetta er ekki útópía, þetta er raunveruleg framtíðarsýn alþjóðasamfélagsins. Og með ímyndunar- og sköpunarafli er hægt að sjá þessa sýn fyrir sér.
Við höfum val
Framtíðarsýnin ein og sér mun ekki leiða til umbreytinga samfélaga en er mjög mikilvæg, skapandi og leiðandi byrjun. Hvort sýnin verður að veruleika eða ekki mun vera háð því hvað mannkynið muni taka til bragðs og hvernig við hvert og eitt munum stuðla að umbreytingum.
Enn sem komið er hefur mannkynið val um það hvers konar framtíð verður að veruleika. Verði litlu breytt í núverandi lifnaðarháttum mun hlýnun Jarðarinnar leiða til hamfara sem grafa undan forsendum siðmenningar. Hætta er á því að núverandi lifnaðarhættir margra og ekki síst vestrænna þjóða muni tortíma okkar eigin tegund. Velji mannkynið hins vegar leið umbreytinga verðum sérstaklega við í vestrænum heimi að vera opin fyrir framtíðarsýn sjálfbærrar þróunar, sleppa takinu á ýmsum þáttum núverandi lifnaðarhátta, breyta framleiðslu- og viðskiptaháttum og vera tilbúin að feta nýjar slóðir. Hjálpumst öll að í að velja leiðir í átt að fallegi framtíðarsýn!
Höfundur er sérfræðingur hjá Landvernd. Greinin er úr væntanlegri handbók höfundar um menntun til sjálfbærni.