Í síðustu grein fjallaði ég um valdatöku fagmennta- og stjórnendastéttarinnar innan verkalýðshreyfingarinnar. Ég fjallaði jafnframt um þær fjölbreyttu aðferðir sem þessi stétt hefur þróað til að verja hagsmuni sína, en það eru aðferðir sem standa ekki verka- og láglaunafólki til boða. Ég kom jafnframt inn á að fagmennta- og stjórnendastéttin hefur löngu sagt skilið við samstöðu með verka- og láglaunafólki, og berst þess í stað fyrir viðhaldi og helst aukningu launabils milli ófaglærðra og fagmenntaðra. Stéttarfélög fagmenntastéttanna vilja afleggja beittasta vopn verka- og láglaunafólks, verkfallsvopnið, og láta kjaraviðræður þess í stað fara fram í umhverfi þar sem stéttin er á heimavelli: umhverfi sérfræðingaveldis og stéttasamvinnu.
Það að þessi hugmyndafræði, fyrst í búningi Salek-verkefnis Gylfa Arnbjörnssonar og síðar Grænbókar-verkefnis Drífu Snædal, hafi náð tangarhaldi á forystu Alþýðusambands Íslands er mikið umhugsunarefni fyrir allt félagsfólk í aðildarfélögum sambandsins. Til að skilja það hugarfar og pólitísku veraldarsýn sem leiddi til þess að nær öll heildarsamtök íslensks launafólks hafa gengist svona auðveldlega inn á hugmyndafræði fagmennta- og stjórnendastéttarinnar um stéttasamvinnu er gagnlegt að horfa til sögu og hnignunar vinstrihreyfinga á Vesturlöndum. Þessi síðasta grein í greinaflokki mínum fjallar um það, og setur þannig greiningu mína á kreppu íslensku verkalýðshreyfingarinnar í stærra samhengi.
Breytt stéttasamsetning
Strax upp úr árinu 1980 og enn sterkar eftir árið 1990 fer að myndast hugarfar uppgjafar gagnvart markaðsöflum á vinstrivængnum í stjórnmálum Vesturlanda, einnig á Íslandi. Kemur þar annars vegar til að á eftirstríðsárunum náðist svo sannarlega mikill árangur í að lyfta lífskjörum hinna verst settu, tryggja stórbætt heilbrigðiskerfi og menntakerfi, innleiða félagslegar tryggingar svo sem atvinnuleysisbætur og fleira og fleira. Samhliða þessu myndaðist töluverður félagslegur hreyfanleiki sem leiddi til þess að fólk af verkamannastétt, á milli kynslóða og jafnvel innan þeirra, náði að tryggja sér tekjur, afkomuöryggi og lífsstíl millistéttar sem á Íslandi hafði áður aðeins verið opinn þröngum hópi embættismanna, lækna, presta o.s.frv. Hliðarafleiðing þessa var að synir og dætur verkamannastéttarinnar sem barðist fyrir þessum umbótum, oft með þátttöku í starfi verkalýðsfélaga, misstu sjálf tengsl við verkamannastéttina - tilheyrðu henni enda ekki lengur.
Meðfram þessu fækkar í röðum verkamannastéttarinnar, og fyrr eða síðar fer að bera á skorti á verkafólki til að vinna erfiðisvinnu til dæmis í byggingarvinnu, iðnaði og umönnunarstörfum. Strax á 7. og 8. áratugnum fara stór Vestur-Evrópulönd að flytja markvisst inn fólk frá fátækari löndum til að ganga í þessi störf. Verkalýðsfélög voru sökum fordóma oft mjög lengi að horfast í augu við þessa nýju samsetningu verkamannastéttarinnar og veittu ekki innflytjendum tækifæri og hvatningu til að taka þátt í félögunum. Þetta var mjög misráðið og leiddi til veikingar á starfi verkalýðsfélaga.
Er nóg að gert?
Sérfræðingarnir og hin veiklaða félagslega forysta í félögum almenns verkafólks fer um þetta leyti að spyrja sig hvort að hugsanlega hafi verið nóg að gert í kjaramálum hinna lægst settu. Er hugsanlega búið að tryggja nægan félagslegan hreyfanleika? Eru bóta- og stuðningskerfi hins opinbera hugsanlega orðin nægilega öflug til að hægt sé að lifa af lægstu launum? Getur verið að raðir virkra almennra félagsmanna í félögum láglaunafólks séu orðnar það fámennar að engin hætta sé á meiriháttar uppreisn jafnvel þótt gott verði látið heita? Einnig spilar inn í að á síðustu áratugum 20. aldarinnar byrja stjórnmálaflokkarnir sem höfðu verið mikilvæg stoð verkalýðshreyfingarinnar – sósíaldemókrata- og kommúnistaflokkar – að upplifa mikið fylgistap, innri upplausn og hnignun. Peter Mair talar í bók sinni Ruling the Void um það hvernig sósíaldemókrataflokkar kusu að í reynd að rjúfa tengsl við verkalýðsstéttina og gerast þess í stað „catch-all” flokkar sem veðja á að höfða til jafns til allra kjósenda – en sá ímyndaði meðal-kjósandi sem þar var farið að eltast við átti æ minna sameiginlegt með verkalýðsstéttinni.
Í samræmi við breytta stéttasamsetningu gerðist það líka að vaxandi þungi færðist í kjarabaráttu sona og dætra verkamannastéttarinnar, sem gengin voru í raðir menntaðra sérfræðinga mestmegnis á launum hjá ríkinu. Á Íslandi endurspeglaðist þetta mjög skýrt kraftmikilli kjarabaráttu BSRB um miðjan 9. áratuginn þar sem nýfenginn verkfallsréttur var nýttur af fullum þunga og verulegar kjarabætur náðust. Á sama tíma var félagslegt starf í verkamannafélögum á borð við Dagsbrún á hraðri niðurleið og verkfallsaðgerðir meira og minna úr sögunni.
Verkalýðshreyfingin barin niður
Doði lagðist yfir forystu og félagslegt starf í verkalýðshreyfingunni, sem að hluta má að segja að hafi leitt af ágætum árangri við að tryggja hluta stéttarinnar tröppugang upp í vaxandi millistétt. Við þetta bættust svo stórar breytingar á hinu hnattræna sviði sem allar fólu í sér áskoranir. Upp úr 1980 náði nýfrjálshyggjan vopnum sínum og verkalýðsfélög um heim allan horfðu með skelfingu á hvernig Margréti Thatcher tókst um miðjan 9. áratuginn að leggja að velli eina öflugustu hreyfingu verkafólks á Bretlandseyjum, námuverkamannafélagið National Union of Mine Workers. Skömmu síðar hrynja Sovétríkin sem höfðu verið ákveðin stoð í andkapítalískri heimsmynd kommúnista, sem ávallt voru leiðandi í róttækustu örmum verkalýðshreyfingarinnar. Upp úr því tekur alda hnattvæðingar að flæða yfir vestræn hagkerfi, sem leiddi til þess að störf í iðnaði, þar sem oft hafði náðst að tryggja bestu kjörin, hverfa úr landi og eru flutt til þróunarlanda. Mikið var rætt í samfélaginu um hnattvæðinguna og áhrif hennar, en áhrif hnattvæðingarinnar á Íslandi voru þó ekki endilega að störf flyttust úr landi heldur fremur hitt að hlutdeild aðflutts verkafólks í ófaglærðum verkamannastörfum jókst verulega, fyrst í fiskvinnslu og iðnaði, síðar í umönnunarstörfum og að lokum í ferðaþjónustu.
Áhrif alls þessa voru almenn hnignun og hugarfar uppgjafar á vinstrivængnum. Eitt ömurlegasta dæmið um það var ris Tony Blair innan Breska verkamannaflokksins, en Blair kastaði fyrir róða öllum hugsjónum og baráttumálum vinstrisins og verkafólks í skiptum ekki aðeins fyrir gróða- og markaðshyggju heldur einnig áður óþekkta þjónkun við hernaðarhyggju Bandaríkjanna þ.m.t. hina blóðugu og viðurstyggilegu innrás í Írak árið 2003.
Íslenska verkalýðshreyfingin, sérstaklega Alþýðusambandið, var allar götur og fram á þennan dag mjög undir forræði einstaklinga sem tengdust djúpt inn í íslenska stofnanavinstrið. Er hér átt við Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkinn og síðar Vinstri græn og Samfylkinguna, sérstaklega síðarnefnda flokkinn. Raunar voru Alþýðusambandið og Alþýðuflokkurinn formlega samtengd allt til ársins 1940. Þeir straumar sem réðu för innan ASÍ á árunum eftir 1990 voru þeir sömu og innan evrópsku krataflokkanna, hvort sem það er Breski verkamannaflokkurinn, þýski verkamannaflokkurinn eða franski sósíalistaflokkurinn. Gagnvart markaðsöflum og sigursælum hægriflokkum var boðorð hinna deyjandi sósíaldemókrataflokka þetta: „if you can’t beat them, join them“.
Nýir straumar
Árið 2018 stofnaði ég ásamt félögum mínum til þess verkefnis að bjóða fram B-lista til stjórnar Eflingar, lang stærsta stéttarfélags ófaglærðs verkafólks á Íslandi. Það verkefni hefði ekki getað verið meira á skjön við ráðandi hugmyndafræði íslensku verkalýðshreyfingarinnar sem áratugum saman hafði róið í þær áttir sem ég lýsti hér að ofan.
Við á B-listanum og stuðningsfólk okkar trúðum því ekki að búið væri að gera nóg til að tryggja jöfnuð í samfélaginu og bæta kjör hinna lægst launuðu. Þvert á móti þá trúðum við því að meira, miklu meira, þyrfti að gera.
Við trúðum því ekki að vinnumarkaðs-stjórnkerfi undir forræði fagmennta- og stjórnendastéttarinnar, kallað Salek eða einhverju öðru nafni, myndi gæta hagsmuna okkar. Við vildum þess í stað skerpa það eina vopn sem í gegnum áratugi og aldir hefur gagnast láglaunafólki: verkfallsvopnið.
Við óttuðumst ekki yfirburðastöðu millistéttarinnar í íslenskri pólitík og samfélagsumræðu, heldur trúðum á að við hefðum fjöldann og kraftinn til að berjast á okkar eigin forsendum, sem verkafólk.
Við aðhylltumst ekki fordóma gegn verkafólki af erlendum uppruna, fordóma sem sögðu að erlent verkafólk væri úti á þekju, fáfrótt um réttindi sín, áhugalaust um hagsmuni sína og of jaðarsett í samfélaginu til að geta staðið fyrir máli sínu. Við sýndum að aðflutt vinnuafl á Íslandi er kraftmikill og stoltur hópur, og að fjarvera þeirra úr verkalýðsbaráttu síðustu ára var ekki vegna áhugaleysis þeirra heldur vegna útilokandi viðhorfs stéttarfélaganna sjálfra.
Mikilvægast af öllu var þó kannski það að við trúðum því að verkafólk sjálft hafi baráttumátt, færni og rétt til þess að taka sjálft í hendur þau vopn sem þeim eru heimil og sem í gegnum söguna hafa nýst þeim best.
Við kunnum, við getum
Eftir kosningasigur B-listans árið 2018 hafa Eflingarfélagar sannað að allt þetta var ekki aðeins réttmætt heldur mögulegt. Ekki bara með því að komast í gegnum kjarasamninga, verkfallsaðgerðir og innri átök sterkari heldur en áður, heldur það sem meira er, með því að ná raunverulegum árangri mælt í grjóthörðum krónum og aurum. Gögn kjaratölfræðinefndar um kjarasamningalotuna 2019-2020 sýna svo ekki verður um villst að Eflingarfélagar fengu meiri hækkanir en aðrir, en ekki minni eins og ella hefði verið raunin ef prósentuhækkanir hefðu ráðið för. Okkur hefur tekist að afsanna áróður valdastéttarinnar og sérfræðingaveldisins um að aðeins þægð og „lágvært tif” skili árangri – við höfum sýnt að með því að vera stór, fjölmenn, hávær, samstiga og sýnileg þá náum við árangri. Árangri sem var búið að tilkynna verkafólki að ekki væri hægt að ná.
Þegar baráttan við atvinnurekendur hófst veturinn 2018-2019 átti ég aldrei von á öðru en að úr þeim herbúðum myndi berast ýmis konar brjálsemi. Hins vegar var ég ekki við því búin að verða vitni að, eins og rakið hefur verið í þessum greinaflokki, þeirri ótrúlegu sjálfssefjun, sjálfsblekkingu og bjöguðu söguskoðun sem ræður ríkjum innan íslensku verkalýðshreyfingarinnar, ekki síst innan ASÍ. Þaðan af síður átti ég von á því að því að Drífa Snædal myndi standa svo grimman vörð um stéttasamvinnu sem raun hefur borið vitni.
ASÍ sem hugmyndafræðilegt stjórntæki ríkisins
Áður fyrr var það svo að Alþýðusamband Íslands var bæði breytingaafl fyrir réttlæti í íslensku samfélagi og mótstöðuafl gegn óréttlæti. Í dag er Alþýðusamband Íslands það ekki. Þvert á móti hefur sambandið orðið meðvirkt með íslenska auðvaldskerfinu, sem er ótrúlegt í ljósi þess að ef einhver stofnun ætti að hafna þess konar meðvirkni þá er það Alþýðusambandið.
Franski heimspekingurinn Louis Althusser, sem var hliðhollur réttlætisbaráttu almennings um allan heim, skrifaði ritgerð árið 1970 um þetta meðvirknishlutverk sem valdastofnanir taka sér oft innan kapítalískra samfélaga. Hann talaði í frægri ritgerð um það hvernig stofnanir breytast í „hugmyndafræðileg stjórntæki ríkisins“ en átti þó ekki endilega við ríkisstofnanir. Hann vísaði til allra þeirra formlegu og óformlegu stofnana sem saman standa vörð um óbreytt ástand í samfélaginu. Þessar stofnanir eru ekki endilega undir beinum yfirráðum hins opinbera og þær beita ekki endilega valdi sínu með þvingunum, heldur styðjast þær oft við sjálfvilja þátttöku almennings og nýta sér fíngerða vefi blekkinganna. Þar er sjálfsblekkingin ekki undanskilin. Althusser nefnir sem dæmi skólakerfið, fjölmiðla, fjölskylduna, menningarlífið og vel að merkja verkalýðsfélög. Althusser var glöggur að því að leyti að jafnvel á þeim tíma þegar verkalýðsfélög í V-Evrópu voru miklu þróttmeiri og róttækari en nú (um 1970) þá áttaði hann sig á því að hægt er að virkja þau sem eitt af hugmyndafræðilegum stjórntækjum hins ríkjandi valds — og saga Alþýðusambands Íslands síðustu áratugi sem og örlög þess í dag hljóta að teljast fjarskalega gott dæmi um einmitt það.
Útgönguleiðir
Hvaða leiðir eru færar fyrir íslenska verkalýðshreyfingu út úr þeim vanda sem hér hefur lýst, nefnd dæmi um og greindur? Að óbreyttu mun Alþýðusambandið bugast undan þeirri kreppu sem það stendur frammi fyrir. Sambandið mun verða í herkví milli þeirra afla sem krefjast þess að sambandið ræki hlutverk sitt sem umbreytinga- og mótstöðuafl og hinna sem vilja að sambandið haldi áfram á braut Salek-væðingar og stéttasamvinnu. Enginn forseti eða forysta í sambandinu getur leitt það með áfram þessa djúpu mótsögn óleysta innanborðs. Eins og segir í upphafi fyrstu greinannar í þessum flokki þá er afsögn forseta ASÍ fyrr í þessum mánuði viss viðurkenning á því hversu illilega það hefur misheppnast að greiða úr þessum vanda.
Í grófum dráttum hljóta tvær leiðir að vera færar. Annars vegar sú að Alþýðusambandið horfist í augu við þá breyttu stöðu sem upp er komin, lagi sig að henni og breyti um kúrs. Farið verði í djúpa og alvarlega vinnu við að endurmeta stefnuna. Ég legg til að í þeirri vinnu verði viðurkennt að verkefni íslenskrar verkalýðshreyfingar er ekki lokið. Þvert á móti er raunverulegt og stórt verk að vinna í baráttu við auðstéttina og sérhagsmunaöflin. Skylda sambandsins er að þróa og leiða þetta verkefni, og vera óhrætt við að skora á hólm þær ýmsu stofnanir valdsins sem standa vörð um óbreytt ástand, sama hvort það eru lífeyrissjóðir, fjármálakerfið, Samtök atvinnulífsins eða ríkisstjórnin. Þá þarf Alþýðusambandið að viðurkenna fyrir sjálfu sér að eina vopnið sem getur leitt til árangurs í verkalýðsbaráttu eru verkföll eða trúverðug hótun um beitingu þeirra.
Þá þarf að láta af kreddubundinni varðstöðu um lífeyrissjóðakerfið, sem er löngu orðin að kvöð og byrði á verkalýðshreyfingunni. Lífeyrissjóðirnir eru tæki sem verkalýðshreyfingin sjálf lét á sínum tíma smíða. Hreyfingin á að nýta sjóðina í þágu sinna markmiða, hvort sem það er í húsnæðismálum, varðandi samfélagsábyrgð fyrirtækja eða jafnaðarstefnu í launum innan fyrirtækja, en ekki láta sérfræðingaveldi sjóðanna eða rödd atvinnurekenda í stjórnum sjóðanna segja sér fyrir verkum. Þegar þessum kreddum hefur verið hent á ruslahauga sögunnar ættu okkur að vera fleiri leiðir færar.
Endurnýjun verkfallsvopnsins
Varðandi verkfallsvopnið, þá er ljóst að verk er fyrir höndum. Eitt er að verkalýðshreyfingin á almennum vinnumarkaði hafi sjaldan farið í verkföll á síðustu áratugum, en mjög strjál notkun á verkfallsvopninu leiðir auðvitað til þess að það ryðgar. Verkalýðsfélög þurfa að gera félagsfólk sitt í stakk búið fyrir verkfallsaðgerðir, enda er hin raunverulega áskorun í sambandi við verkfallsaðgerðir er ekki lagalegs eðlis heldur snýst fyrst og fremst um að tryggja virkni, vilja og þolgæði nægilega stórs og öflugs hóps félagsfólks.
Að mínum dómi ríkir í dag innan verkalýðshreyfingarinnar, líka opinberu félaganna, vanþekking á því hvað þarf til að verkfallshótun sé trúverðug. Þar skiptir mestu máli að tryggt sé að stuðningur sé við verkfall – það er að segja, að verkfallsboðun verði líklega samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta – og einnig hitt, að félagsfólk sé reiðubúið að taka þátt í verkfallinu ekki aðeins með því að sitja heima heldur einnig með því að vera virk og sýnileg. Það þýðir að mæta á fjöldasamkomur, verkfallsvakt og fleira í þeim dúr. Þá þurfa að liggja fyrir skynsamlegir og raunhæfir útreikningar á því hvað hægt verði að greiða mikið í verkfallsstyrki og mat á því til hversu mikils er hægt að ætlast af félagsfólki í verkfalli í skiptum fyrir verkfallsstyrk.
Einnig þurfa verkalýðsfélögin að láta af þeim sið að setja framkvæmd kjaraviðræðna í hendur örlítilla hópa skipaða formanni og sérfræðingum. Félögin þurfa að hafa hugrekki til þess að opna sig fyrir þátttöku félagsfólks í sjálfum viðræðunum, því aðeins þannig er hægt að tryggja að stuðningur sé í baklandi félaga við þær ákvarðanir og málamiðlanir sem taka þarf eftir því sem viðræðum vindur fram.
Hugsanleg endurskipulagning
Takist ASÍ ekki að breyta um kúrs er aðeins ein önnur leið fær: Hún er sú að þau félög sem vilja starfa í verkalýðshreyfingu sem er raunverulegt framfara- og mótstöðuafl skilji sig frá sambandinu. ASÍ er í dag eina landssamband launafólks á almennum vinnumarkaði, með um 130 þúsund félagsmenn. Þetta er hugsanlega alltof margt félagsfólk undir einum hatti, sérstaklega ef horft er til samanburðar við opinberu félögin og landssambönd þeirra. Opinberir starfsmenn deilast niður á þrjú félög (KÍ, BSRB og BHM) sem eru hvert um sig með á bilinu 10-24 þúsund félagsmenn. Slíkur fjöldi er miklu viðráðanlegri, og þetta fyrirkomulag hefur hvorki hamlað opinberu félögunum frá því að eiga í samstarfi sín á milli né við Alþýðusambandið eða aðra aðila vinnumarkaðarins. Tvö eða fleiri heildarsamtök á almenna vinnumarkaðnum gætu auðveldlega starfað hlið við hlið og sameiginlega í þeim málum þar sem samkomulag næðist um slíkt.
Mörgum þykir vænt um nafn og sögu Alþýðusambands Íslands, sem er skiljanlegt, en á hinn bóginn getur það bersýnilega ekki gengið að sambandið aftri eðlilegri framþróun og nauðsynlegum breytingum í hagsmunabaráttu félagsfólks. Það þarf að nálgast hlutina með opnum hug og kasta af sér fjötrum íhaldssemi og fortíðardýrkunar.
Sérfræðingar sem vinna fyrir okkur
Í þessari grein hefur m.a. verið rætt á gagnrýnum nótum um fagmennta- og stjórnendastéttina (e. professional-managerial class). Eins og tekið var fram í síðustu grein ber þó ekki að skilja þau orð þannig að verkalýðshreyfingin þurfi ekki að starfa á grunni þekkingar og rannsókna, sem aflað er af hæfu fólki. Að sjálfsögðu er nauðsynlegt að hreyfingin hafi á að skipa menntuðum sérfræðingum sem hafa sótt sér nauðsynlega menntun á sviði hagrannsókna, vinnnumarkaðslögfræði og skipulagningar verkalýðsbaráttu. Hins vegar þarf að vanda mjög til valsins á þeim, því staðreyndin er sú að fagmennta- og stjórnendastéttin hefur undirgengist verulega hnignum á síðustu áratugum. Eins og Catherine Liu bendir á í bók sinni Virtue Hoarders frá 2021, sem nefnd var í síðustu grein, þá hefur millistéttin – og fagmennta- og stjórnendastéttin þar fremst í flokki – í vaxandi mæli snúið baki við verkalýðsstéttinni og hallað sér að auðvaldsstéttinni. Hvergi er þetta skýrara en í stétt hagfræðinga, þar sem tekist hefur að útskúfa nær öllum sjónarmiðum og straumum öðrum en stækustu nýfrjálshyggju úr vopnabúri fræðigreinarinnar. Hefur þetta m.a. leitt til andófshreyfingar innan stéttarinnar sjálfrar, sem krafist hefur endurskoðunar á kennsluháttum í faginu enda hafi efnahagskreppan 2008 sýnt fram á hættulega vanrækslu á gagnrýnni hugsun meðal stéttarinnar. Í dag er staðan sú að nær útilokað er að nokkur námsmaður komist í gegnum nám í hagfræði við Háskóla Íslands án þess að verða fyrir heilaþvotti nýfrjálshyggjunnar.
Uppvakningur eða umbætur?
Ég hef nú í fjórum greinum lýst þeim vanda sem er á höndum vegna vanmáttar Alþýðusambands frammi fyrir breytingum innan íslensku verkalýðshreyfingarinnar. 40 ára tímabili þar sem leiðtogar og forysta hreyfingarinnar mynduðu sátt um stéttasamvinnu, undirgefni við sérfræðingavald og almenna uppgjöf gagnvart því verkefni að breyta samfélaginu okkar í átt að jöfnuði er lokið. Nýir tímar eru hafnir. Ég hef rakið í nokkuð löngu og ítarlegu máli dæmi um það hvernig sambandið hefur þverskallast við að viðurkenna þessa nýju tíma, og haldið dauðahaldi í afdankað klíkuveldi innan sambandsins og löngu dauða hugmyndafræði um vinnumarkaðsmódel sem íslenskur almenningur hefur hafnað.
Ætli sambandið sér að móta stefnu sína ekki út frá skoðunum og veruleika félagsmanna í aðildarfélögum sambandsins heldur útfrá veruleikafirrtum hugmyndum menntaðrar millistéttar sem komið hefur sér fyrir í ráðuneytum, hjá hagsmunasamtökum hálaunaðra ríkisstarfsmanna og í samtökum atvinnurekenda þá er sambandið ekkert nema uppvakningur sem við skulum öll taka höndum saman um að kveða í gröfina.
Höfundur er formaður Eflingar.