Kvótakerfið er skynsamlegt að því leyti að það kemur í veg fyrir að við göngum of mikið á stofnana en allt fjaðrafokið snýst í kringum úthlutun og framsalsrétt þess. Svo mælir Þórður Snær Júlíusson í Kjarnagrein sinni: „Að eiga auðlind sem aðrir græða á“. Enn fremur veltir hann fyrir sér hvers vegna þjóð, sem samkvæmt skilgreiningu, er eigandi auðlindar má ekki ráðstafa henni eins og henni sýnist: „hvort það sé ekki bara heiðarlegra að segja það beint út“ að hún megi það ekki.
Ég er að hugsa um að gera það bara. Kæri Íslendingur, ef þú ferð ekki sjálfur og veiðir þennan fisk, þá átt þú ekkert í honum!
Í upphafi voru veiðarnar þar til frjálsar, við gengum of hart að stofnunum og ríkisstjórnin ákvað að grípa í taumana. Kvótakerfið varð til, ákveðið var að úthluta eftir veiðireynslu. Kannski væri meiri sátt í þjóðfélaginu ef landsmenn allir hefðu fengið framseljanlegan kvóta í upphafi. Þeir sem nenntu ekki að veiða, myndu þá selja sinn hluta, og láta aðra um harkið.
Hallgrímur Helgason kom með skemmtilega lýsingu í annars niðurdrepandi grein sinni um „Brunann mikla 2015“: „Gull finnst í Esjunni og allir sem skóflur eiga arka af stað. Þeir sem mestan mokstur sýna fá svo mesta kvótann […]“. Þar sem Hallgrímur sér spillingu, sé ég sanngirni. Hver annar á að fá mesta kvótann? Varla auminginn sem nennir ekki að moka, hvaða vit er í því? Þá vil ég frekar hafa hlutina eins heimspekingurinn John Locke: „að menn njóti dugnaðar síns eða gjaldi leti sinnar.“
Auminginn sem nennir ekki að moka, sá sami og hefði selt sinn hluta, hann telur sig engu að síður eiga fiskinn í sjónum. Trompast úr öfundarbræði þegar hann les í fréttum um stórgróða útgerðarmanna og telur sig vera arðrændan. Ekki það að hann nenni að vinna í fiski. Af hverju ætti hann annars að gera það? Launin á gólfinu eru ömurleg. Ef þú stendur þig vel, þá kemur Kristján Loftsson og treður bragðdaufum vanilluíspinna í andlitið á þér, rétt á meðan hann og aðrir stjórnarmenn gæða sér á hnetutopp.
„Þjónn, hver er fiskur dagsins?“
Fiskur dagsins er makríll. Hann er nýr, ferskur og framandi. Kom úr suðurhöfum árið 2006, og um leið og hann stakk ugganum inn fyrir 200 mílurnar, hrópuðum við samhljóða; minn! Síðan þá höfum við stofnað til illdeilna við nánast hvaða þjóð í Norður-Atlantshafi: Evrópusambandið, Íra, Skota, Norðmenn, Færeyinga – við viljum fá okkar hlut. Ef vísindamaður á Svalbarða henti út öngli sínum, væri okkur skapi næst að siga gæslunni á hann. Rökin eru, að makrílinn kemur sársvangur í okkar lögsögu, fyllir magann og heldur leið sinni áfram. Eigum við að láta þennan nýtilkomna varg nota Íslandsmið sem sína persónulegu fóðrunarstöð? Eftirláta veiðarnar Írum og Norðmönnum, eftir að hann er orðinn feitur og pattaralegur?
„Hver á að veiða fiskinn?“
Sigurður Ingi Jóhannsson rembist þessa dagana eins og rjúpan við að koma makrílfrumvarpi sínu í gegnum þingið. Enginn er ánægður. Ráðherrann er að reyna að ákveða hver eigi að veiða fiskinn. Fyrr reifaði ég þá hugmynd, að Íslendingar ættu allir að fá sinn kvóta – sinn hluta af þjóðareigninni – þá myndaðist kannski sátt. Meðal makrílveiði hefur verið síðastliðin ár c.a. 150.000 tonn, það gerir u.þ.b. hálft tonn á hvern. Getum kallað þennan gjörning „kvóta-leiðréttinguna“. Er ekki komið nóg af leiðréttingum? Auminginn myndi þá selja sinn hlut og lifa sáttur, meðan markaðurinn sveiflaðist kröftuglega, þar til að endingu „bestu mokararnir“ fengu hæstan hlut á kostnað smærri útgerða. En auminginn yrði ekki sáttur, hann vill ekki eiga kvótann, hann vill vera áskrifandi.
„En það er svo erfitt að komast að!“
Sægreifarnir koma í veg fyrir alla nýliðun í greininni. Já það er torvelt að komast að – þessir dallar eru dýrir – en er það ekki í mörgum öðrum greinum líka? Er eitthvað auðveldara að stofna flugfélag? Skúli Mogensen er ekki aumingi. Hann langaði í flugfélag svo hann keypti sér flugvél. Ef hann hefði langað í útgerð þá hefði hann keypt sér skip.
„En hvað með alla trillukarlana?“
Þessi rómantíska hugmynd um trillukarlinn, sem rær við sólarupprás og kemur heim í faðm fjölskyldunnar við sólarlag, útileikinn, syngjandi, sæll og glaður.
Ykkur rómantíkarana vil ég spyrja: Hvað haldið þið að gerist ef við látum trillurnar sjá alfarið um veiðarnar? Tökum makrílinn sem dæmi: Segjum sem svo að við tökum upp á því að banna stóru útgerðunum (og skipunum) að veiða (enda bölvaðir arðræningjar). Látum veiðarnar í hendur syngjandi trillukarlanna og trillukvennanna. Hvað gerist? Eitt er víst að það fer meira en helmingi meiri olía í slíkar veiðar. 60 lítrar per tonn miðað við 160 (Ég miða hér við rannsókn Eyþórs Björnssonar frá árinu 2004. ath. að engin gögn voru til um makrílveiðar, svo ég vísa í síldveiðar í flotvörpu, enda mjög sambærilegar veiðar, þar sem tegundirnar veiðast yfirleitt saman).
Ég sé litla rómantík í hlýnun jarðar. Trillufólkið verður bara að finna sér eitthvað annað að gera. Starfstéttir koma og fara, og þær sem geta ekki fylgt straumnum drukkna. Saknar einhver kolanámumanna? Skiptiborðs- eða lyftustjóra? Ég sé enga skynsemi í því að þráast við úreldar, óhagsýnar, óumhverfisvænar afturhaldshugmyndir, sama hversu falleg póstkort þær mynda. Nú tek ég kannski full sterkt til orða, er ég segi að trillusjómenn séu úreldir, en þeir eiga a.m.k. ekkert heima á makrílveiðum.
„En ég á þennan fisk, það stendur í lögunum!“
Hvað þýðir það að eitthvað sé þjóðareign? Þýðir það að auminginn geti labbað niður á bryggju, bent á einn fiskinn, sem duglegir sjómenn eru að skipa upp og sagt; þennan á ég!? Eða þýðir það að ríkið, þ.e. þjóðin hefur yfirráð yfir honum og úthlutar honum á sem skynsamlegastan hátt í átt að almannaheill? Ég hallast að því síðarnefnda.
Það má vel vera, að samfélagið verði betra, ef við þjörmum hraustlega að útgerðarmönnum. Kannski þurfum við meiri pening til að borga læknum mannsæmandi laun. Kannski þurfum við að byggja nýjan skóla. En sú krafa, að þykjast eiga tilkall, í eitthvað sem ekki var komið nálægt að skapa, er innantóm öfund.
Höfundur er sjómaður.