Nýjar upplýsingar Kveiks um vaxandi ofþyngd barna og afleiðingar hennar á heilsufar þeirra og heilsuhorfur hafa vakið mikla athygli og ekki síður miklar umræður. Viðbrögðin hafa hins vegar verið umhugsunarverð. Meðal annars er talað um, að orsakirnar kunni að hafa verið að börnin hafi verið beitt ofbeldi á æskuárum. Hugsanlegt ofbeldi eins gagnvart öðrum virðist vera orðið altæk skýring á öllu því, sem aflaga hefur farið um þroska og sálarlíf hvers einstaklings. Eitt slíkt ofbeldi eins gegn öðrum er sagt vera fitusmánun.
Setjum sem svo, að ég segi við vin minn: „Þú ert orðinn allt of þungur. Það veldur öllum, sem þér þykir vænt um, sálarkvölum – konunni þinni, börnunum þínum, vinunum þínum - og sjálfum þér miklu heilsutjóni“, þá telst ég vera að fitusmána vin minn algerlega að ósekju og sjálfum mér til mikils ámælis. Sá vinur minn, sem orðinn er 140 til 150 kg. á þyngd, hefur algerlega séð um það sjálfur að fitusmána sig. Á við engan annan en sjálfan sig að sakast og getur til einskis annars leitað en fyrst og fremst til sjálfs sín að takast á við það vandamál sitt með árangri og með annari hjálp, sem hinn fitusmáði verður þó sjálfur og einn að bera sig eftir.
Nonni feiti
Nýjustu upplýsingarnar um vaxandi offitu barna eru meira en athygli verðar. Sjálfur var ég barn vestur á Ísafirði, en offita barna er nú sögð vera einna verst á Vestfjörðum. Með mér í jafnaldrabekkjum í barnaskóla á Ísafirði voru um 70 önnur börn. Í öllum þessum hópi var aðeins einn drengur, sem sagður var vera feitur. Ég vil ekki hér og nú upplýsa hver sá drengur var, en segjum svo að hann hafi heitið Jón.
Nei, það var einfaldlega vegna þess, að uppeldi barna var í höndum foreldra. Foreldrarnir vissu hvaða matur væri heilsusamlegur. Foreldrarnir réðu hverjir vasapeningar barnanna voru og studdu það síður en svo, að þeir peningar, sem foreldrarnir veittu okkur börnunum, væru notaðir til þess að kaupa eintómt slikkeri og gosdrykki - hvað þá heldur hættulega orkudrykki eða koffíndrykki eins og nú tíðkast en þá voru ekki til. Heilsugæslustöð var þá ekki til vestur á Ísafirði, en hann Ragnar, heimilislæknirinn okkar, þurfti mér vitanlega aldrei að ráðleggja foreldrum mínum eitt né neitt til þess að halda mér burtu frá offitu. Það gerðist einfaldlega af sjálfu sér – eins og það virðist gerast af sjálfu sér að börnin á þessum slóðum séu nú orðin í meiri ofþyngd en nokkurs staðar annars staðar á landinu. Og í Kveik virtist vera að það væri sök heilsugæslustöðvarinnar. Þar þyrfti fleiri starfsmenn: Líkamsþjálfa, fæðuspecialista, fjölskylduráðgjafa, menntaða fagmenn og fagkonur. Aldeilis hreint ekki neina fitusmánara.
Sjálfsskoðun
Fyrst ég hefi dregið sjálfan mig inn í þessa umræðu er sjálfsagt að upplýsa, að við hjónin eigum fjögur börn. Ekkert þeirra hefur fitusmánað sig. Og enga aðstoð þurft frá heilbrigðisyfirvöldum til þess að tryggja að svo sé ekki. Ekkert þeirra og ekkert okkar barnabarna hefur þurft að glíma við vandamál offitu. Sú hefur hvorki verið okkar reynsla sem foreldris né þeirra sem barna og barnabarna. Mér þykir það einfaldlega vera sjálfsagt og eðlilegt. Eðlileg afleiðing af uppeldi barna. Hvað svo sem nýjustu upplýsingar um mikla fjölgun offeitra barn segja. Segja þær nokkuð annað en nákvæmlega það?
Ég vil líka fúslega upplýsa, að síðar á ævinni varð ég of þungur. Þegar miðaldra var orðinn. Allnokkuð yfir kjörþyngd. Vinir mínir vöktu m.a. athygli mína á því. Auk auðvitað fjölskyldunnar. Ofþyngdinni fylgdu veikindi, sem mér hefur tekist að yfirstíga. Ofþyngdin hefur líka dalað. Verulega. Hvers vegna? Vegna þess, að ég bar sjálfur ábyrgð á því hvernig komið var. Og ég bar sjálfur og ber ábyrgð á því að hafa tekist á við vandamálið – og náð árangri. Það hefur enginn gert fyrir mig. Engin heilsugæslustöð. Enginn fjölskylduráðgjafi, Enginn næringarfræðingur. Enginn opinber starfsmaður. Foreldrarnir öxluðu ábyrgðina á mér á meðan ég var barn. Sjálfur hef ég þurft að axla ábyrgðina síðan. Ég - eins og við öll – veit hver ber ábyrgðina. Ég – eins og við öll – veit hvernig á að takast á við vandamálið. Ég – eins og við öll – veit að orðið „fitusmánun“ á við þann, sem þannig hefur sjálfur smánað sig en ekki hinn, sem bendir á hvað hefur gerst og hvetur þann, sem ábyrgðina ber, til þess að takast á við sitt eigið vandamál.
Því það er bara EINN sem ber meginábyrgðina eftir barnæskuna. Bara EINN, sem getur tekist á við eigið vandamál. Vissulega getur sá, sem vill, beðið um hjálp. En til þess þarf eigin vilja. Vilja til þess að ná árangri. Sem sá einn getur náð, sem fitusmánaði sig sjálfur.
Höfundur er fyrrverandi heilbrigðisráðherra.