Í ár eru 70 ár frá lokum seinni heimstyrjaldar og þess víða minnst.
Stolpern á þýsku þýðir að hnjóta og í Berlín er fjöldi Stolpern- eða Hnotsteina. Hnotsteinn er götusteinn með messingyfirborði þar sem stendur nafn íbúa hússins og örlög. Oft er það dauði í útrýmingabúðum nasista. Listamaðurinn Gunter Demnig kemur steinunum vel fyrir í gangstétt svo að í raun hnýtur enginn um hann, nema í huganum.
Til eru bækur um Hnotsteina í Berlín og sögu fólksins á þeim. Fórnarlamba nasismans er minnst víðar en í Berlín. 48.000 þúsund Hnotsteinum hefur verið komið fyrir á gangstéttum í 18 löndum. Þeir eru orðnir að stærsta stríðs-minnismerki heims.
Þegar Demnig hóf að leggja Hnotsteina í götur Berlínar og víðar vakti það athygli og virðingu. Undanfarið hafa sumir steinar verið huldir svartri málningu, þeir teknir í burtu eða þeim sem vernda þá verið hótað. Nú þarf listamaðurinn lögregluvernd gegn nýnasistum og öðrum sem bókstaflega vilja hylja minninguna um hrylling seinni heimstyrjaldar.
Ef einhver setti niður Hnotstein um fórnarlömb Stalíns í Rússlandi í dag færi hann beint í fangelsi. Endurritun sögunnar er þar í fullum gangi og samkvæmt nýrri könnun Levada stofnunarinnar líta 52% Rússa á Stalín sem „jákvæða hetju“.
Joachim Gauck, forseti Þýskalands.
Ólikt hafast menn að
Joachim Gauck, forseti Þýskalands, hélt ræðu 6. maí við heiðursgrafreit sovéskra hermanna við Holte-Stukenbrock.
Þar minntist hann látinna sóvétmanna og hörmulegri meðferð nasista á þeim. Hann þakkaði og bandamönnum fyrir að frelsa Þýskaland úr klóm nasismans.Gauck leggur ævinlega áherslu í ræðum sínum á mikilvægi þess að þekkja og muna söguna.
Að það sem við gerum í dag er bein afleiðing af því sem við vitum um sögu okkar.
Þann 9. maí notaði forseti Rússlands Vladimir Pútín minningardaginn um 70 ára sigur Sovétmanna gegn nasistum til að kynda undir þjóðerniskennd með hersýningu í Moskvu. Sagan er skrumskæld til að réttlæta einræðisstjórnunarstíl og mikilvægi hernaðarlegs styrks Rússlands í dag. Flestir þjóðarleiðtogar sniðgengu sýninguna vegna hernáms Krímsskaga og stríðsreksturs Rússa í Úkraínu. Leiðtogar Norður Kóreu, Kína ofl. vermdu sætin við Kreml. Á stóru skilti í Moskvu var talið niður til hátíðarhaldanna og sumir virtust að springa úr stórveldisstolti. Patríóta-ís, og -súkkulaði skreytt borðum hins heilaga Georgs býr til stemningu meðan fjöldamorðum Stalíns er sópað undir rauða teppið á torginu. Yfir það óku Armata risa-skriðdrekar Pútíns í fylgd þúsunda hermanna. Angela Merkel kanslari Þýskalands mætti svo daginn eftir 10 maí til að leggja blómakrans að minnismerki.
Meðlimir úr mótórhjólgenginu Næturúlfarnir, aðstoðarmenn Pútíns og vinir , voru ekki með í þetta sinn, því þeir óku til Berlínar. Pólverjar og fleiri litu á ferð Næturúlfanna sem ögrun og sögðu að rússneskir þjóðernissinnar og aðdáendur Stalíns mættu ekki misnota minninguna um 70. ára stríðslok. Pólverjar neituðu að sleppa þeim inn í landið en Ungverjar gerðu það.
Vladimir Pútín og Alexander Saldostanow.
Næturúlfarnir eru þjóðernissinnar sem dreymir um Stór-Rússland. Andstæðingar lýðræðis sem styðja hernám Krímskaga auk stríðs Rússlands í Donbass. Þeir eru hluti af And-Maidan hreyfingu Kreml og hvetja til ofbeldis gegn þeim sem hafa aðrar skoðanir. Í And-Maidan göngu sinni í Moskvu kölluðu þeir Maidan mótmælendur "Mai-Downis” og sýndu um leið fyrirlitningu sína á fólki með Downs heilkenni, sem eins og fatlaðir og fleiri búa við bág kjör í Rússlandi. Leiðtoginn Alexander Saldostanow er kallaður Kirurg, af því að hann lærði læknsfræði. Hann snéri þó af þeirri braut er hann heillaðist svo mjög af kvikmyndinni Mad Max . Hugmyndafræði hans er að Rússland sé leiktjöld þeirrar kvikmyndar og hann einhversskonar Mel Gibson að taka til. Síðan er kryddað með kirkju, KGB, fasisma og hommahatri. Samkvæmt nýjum skjölum frá stjórnarandstæðingnum Navalny hafa næturúlfarnir fengið meira en milljón dollara af rússnesku skattfé til aðgerða sinna. Meðal annars til sviðsetja nýársleikrit þar sem börn eru hrædd með Ameríku og öðrum “vondum löndum” sem vilja Rússlandi illt.
https://www.youtube.com/watch?v=94e8-3S-HoY
Vildu grilla pylsur við Dachau
Nokkrir af þessum mönnum fóru til Berlínar og voru skiptar skoðanir um hvort ætti að veita þeim athygli. Að það væri tilgangur ferðarinnar að sýna rússneskum áhorfendum ríkisfjölmiðla hvað öllum sé illa við Rússland í Gay-rope, Eins og Evrópa er kölluð á meðal þeirra vegna mannréttinda sem samkynhneigðir njóta í sumum landa álfunnar.
Við brottför frá Moskvu veifuðu næturúlfarnir rauðum fánum með myndum af Stalín með slagorðum rauða hersins: „Fyrir föðurlandið! Fyrir Stalín!“. Fjórða maí áðu þeir við útrýmingabúðir nasista í Dachau og litu á það sem móðgun að mega ekki grilla pylsur sínar á grasinu fyrir framan. Það er kannski ekki nema von að þeir viti ekki hvernig á að sýna hinum látnu virðingu því hvergi er minningu þeirra milljóna sem Stalin myrti í Gulag haldið lifandi.
Eina Gulag-safni landsins í Perm var nýlega lokað. Eða réttara sagt ,yfirvöld létu skrúfa fyrir rafmagn og hita.
Sagt var frá ferðalagi úlfanna í rússneskum ríkisfjölmiðlum og hindrununum lýst sem um hernaðaraðgerðir gegn rússneskum friðarenglum væri að ræða. En þeir eru hvorki englar né hetjur. Heldur öfgamenn á fjárstyrks frá yfirvöldum sem taka að sér að mótmæla og espa upp hatursstemningu í Rússlandi Pútíns.
Þann 8. maí, daginn áður en Kirurg mætti á mótórhjóli til Berlínar (með orðu frá Pútín í leðurvestinu), var stríðslokanna minnst í þýska þinginu.
Í fyrsta sinn hélt hvorki kanslari né ráðherra minningarræðu í Bundestag. Í þeirra stað talaði sagnfræðingurinn og prófessorinn Heinrich August Winkler. Winkler er nokkurs konar „Aðalsagnfræðingur“ Þýskalands í dag . Hann kemur oft fram í fjölmiðlum og segir pólitíska misnotkun sögunnar ógnvekjandi. Hann telur endurritun Pútíns á Griðarsáttmála Hitlers og Stalíns vera : "Sérstaklega skelfilega “.
Rödd Winklers er mikilvæg m.a. í ljósi nýlegra orða bæði Merkel kanslara og Steinmeier utanríkisráðherra vegna 100 ára minningar þjóðarmorðs á Armenum. Sér til minnkunar forðuðust þau að minnast á þjóðarmorð til að styggja ekki viðskipti við Tyrkland. Joachim Gauck forseti notaði aftur á móti óhræddur orðið þjóðarmorð. Fyrr á árinu sagði forseti Þýskalands við minningarathöfn í Auschwitz : „Það er engin þýsk sjálfsmynd án Auschwitz”. Á sama tíma eru háværar raddir sem segja að nú sé komið nóg af tali um stríðið og útrýmingu gyðinga. Rétt sé að draga strik yfir fortíðina. En eins og Gauck hefur oft bent á þá er það ekki aðeins ómögulegt heldur beinlínis hættulegt.
Eitt af því sem rússneskar áróðursstöðvar halda fram er að í Kiev sitji stjórn fasista. Nýlega samþykkti úkraínska þingið í Kiev að opna skjalasöfn landsins. Mörg þeirra voru lokuð síðan við upphaf Sovétríkjanna. Nú getur fólk séð hvernig kommúnistar stjórnuðu og hvaða atburðir áttu sér stað í seinni heimstyrjöld. Á sama tíma eru skjalasöfnum lokað í Rússlandi, einnig KGB skjölum. Aftur til 1938 á terrortíma Stalíns. Það er ekki stjórnvöldum í hag að að þjóðin viti hvað gerðist . Á næstu dögum mun skýrsla Boris Nemtsovs um rússneska hermenn sem berjast í Úkraínu koma út. Prentsmiðjueigendum hefur verið hótað og margt gert til að koma í veg fyrir að upplýsingarnar komi fyrir sjónir almennings í Rússlandi. Boris Nemtsov var myrtur í Moskvu 27. febrúar skömmu eftir að hann boðaði útkomu skýrslunnar.