Ég ætla að leggja fyrir ykkur dæmi. Segjum að það sé manneskja út í bæ. Þessi manneskja, rétt eins og aðrar, hefur helling af skoðunum og sumar þeirra umdeildari en aðrar. Hún er kannski virkari og árangursríkari en aðrir í að tjá sumar þessara skoðana sem mætti vensla við einhvern miðlægan málstað eða hugmyndafræði - og vinnur því óumflýjanlega hylli sumra og hneykslun annarra. Svo hefurðu fjölmiðla, sem hafa lifibrauð sitt á því að fjalla um það sem vekur athygli fólks. Þessi manneskja og sú hugmyndafræði sem hún er kennd við uppfyllir einmitt þær kröfur og um hana er fjallað. Fólk hefur eðlilega tilhneygingu til að tengja alls konar hluti við andlit, og rétt eins og formenn og forstjórar eru andlit sinna stjórnmálaflokka og fyrirtækja út á við verður þessi manneskja andlit þessarar hugmyndafræði. Það býttar litlu um hvað henni finnst um það, eða hversu vel skilgreint þetta nýtilfengna hlutverk og meðfylgjandi ábyrgð er, hún er sett á stall og titlaður talsmaður, hetja, frumkvöðull og skúrkur allt í senn.
Vandamálið við þetta dæmi er tvíþætt. Í fyrsta lagi eru opinber andlit hvers kyns fyrirtækja, samtaka og stjórmálaafla tiltölulega vel mótaðar stöður. Þeir aðilar sem þeim gegna vita hvernig orð þeirra og gjörðir endurspegla þau öfl sem þau eru í forsvari fyrir. Þeim er jafnvel gefið tilhlýðilegt svigrúm á milli persónulífs þeirra og hins opinbera hlutverks. Í öðru lagi fjalla fjölmiðlar fyrst og fremst um það sem vekur athygli, og það sem vekur oftar en ekki meiri athygli en vel unnin verk og ígrunduð orð er það sem hneykslar, ögrar og pirrar.
Þegar rætt er um jafn opið hugtak og einhverja hugmyndafræði eins og femínisma virðist liggja í augum uppi að hún getur ekki átt sér neina útvalda formenn, forstjóra eða talsmenn. Ótrúlega ólíkur hópur fólks, með ólíkar skoðanir, aðferðafræði og áherslur sameinast um að vilja vinna saman að einu grundvallandi markmiði. Orðið sjálft er ekki mikið meira en stimpill um það, stoltið yfir því að vilja krefjast sömu hluta og vinna saman að sömu niðurstöðu. En fólk vill tengja hluti við andlit, og fjölmiðlar anna þeirri eftirspurn með því að finna það andlit. Þegar sá meinti talsmaður gerir vel, segir eitthvað snjallt eða tekur við verðlaunum og hrósi er e.t.v. um það skrifað. En hverju orði hans, ummælum og gjörðum er líka fylgt eftir, á hinum opinbera vettvangi sem hinum persónulega, í von um eitthvað krassandi. Þegar ein slík manneskja gerðist sek um að skrifa illa ígrundaða stöðufærslu á fésbókarvegg sinn á Sjómannadaginn síðastliðinn voru viðbrögðin fyrirsjáanleg. Mistök hennar voru mistök þeirrar hugmyndafræði sem hún átti að standa í forsvari fyrir og „femínisminn“ var enn og aftur venslaður við hatur, öfgar og blindu. Blaðamaður hjá stórri fjölmiðlasamsteypu skrifaði baksíðupistill í dagblað um hvernig hún fann sig knúna til að afneita orðinu sem umlykur þessa hugmyndafræði vegna hneykslunar sinnar á þessum meinta talsmanni sínum. Fyrir utan að vilja ræða nokkur grundvallaratriði um stílbrögð og rökfræði við téðan blaðamann þá get ég eiginlega ekkert annað sagt en að það hljóti að teljast hennar vandamál þegar hún setur einstaklinga upp á stall til þess eins að hrinda þeim þaðan aftur niður.
Fyrir ótalmörgu fólki eins og mér sem kallar sig femínista er það ótrúlega ergilegt að þess þurfi ár eftir ár að minna fullorðna einstaklinga á að Hildur Lilliendahl og aðrir nafntogaðir femínistar tala ekki fyrir okkur öll, ekkert frekar en að Ómar Ragnarsson tali fyrir alla umhverfissinna landsins eða Gylfi Ægisson fyrir alla tónlistarmenn. Femínismi er fjölþættur, margræður og skemmtilegur hlutur sem sameinar marga af minni kynslóð og veitir þeim innblástur. Nýleg átök á borð við frelsum geirvörtuna og opinská umræða um kynferðislegt ofbeldi og þöggun inn á facebook hópnum Beautytips eru aðeins tvö dæmi af ótalmörgum sem skekið hafa þjóðfélagsumræðuna og eiga rætur sínar að ræka til femínisks hugsunarhátts og gagnrýni. Það er því afar sorglegt að enn virðast svo margir líta á femínisma sem einhvers konar ógn við sig, hættulegan hugsunarhátt og óvin sem þeir þurfa að takast á við. Þeir virðast halda að með því að setja andlit á þennan óvin, finna forsvara sem þeir geta fylgst með, beint andúð sinni að og beðið eftir tækifæri til að klekkja á og rægja þá muni þeir gengisfella þá hugmyndafræði sem hann er kenndur við í leiðinni. Slíkt er ekkert nema fjarstæða. Ég get ekki annað en harmað þá vondu fjölmiðlun og hvimleiða hugsunarhátt sem galdrað hefur fram þennan meinta snák, einungis til að þóknast þeim sem vilja höggva af honum höfuðið.