Þjóð í hafti eftir Jakob F. Ásgeirsson, blaðamann Morgunblaðsins til margra ára og nú útgefanda, er merkileg heimild um íslenska hagkerfið. Hún dregur fram glögglega hversu takmarkandi haftabúskapur, í tærustu mynd, getur verið fyrir fólk og fyrirtæki. Hún er ógnvekjandi á margan hátt, sé veruleikinn sem í henni er lýst heimfærður til dagsins í dag. Þó útgáfuárið, sé meira en aldarfjórðungi frá okkur þá búa Íslendingar við strangan haftabúskap, kannski flestir án þess að taka mikið eftir því. Það segir líka sína sögu að efnisatriði bókarinnar eiga greinilega vel við samtímann, því hún er uppseld hjá Forlaginu, samkvæmt upplýsingum á vef þess.
Við fjölskyldan, ég og konan mín og tveir strákar okkar, erum að undirbúa flutning til New York. Þar ætlum við að freista gæfunnar, í orðsins fyllstu merkingu. Fara í nám, skrifa um það sem gengur á í þessum púlsi heimsmálanna og anda að okkur margslungnum kraftinum í borginni. Það er okkar skoðun, að þetta sé góð ákvörðun og fjárfesting sem muni skila sér til baka margfalt þegar upp er staðið, ekki síst fyrir strákana.
Eitt er ég að láta fara í taugarnar á mér þessa dagana meira en annað, í undirbúningi flutninga. Það er veruleikinn sem Jakob lýsir svo vel í Þjóð í hafti. Skammtakerfið, pólitískur haftabúskapur. Ríkisvaldið, í gegnum lög stjórnmálamanna, setur okkur fjölskyldunni reglur um hvernig við eigum að lifa, meðal annars með framfærsluskammtakerfi þar sem línan er dregin um hversu miklum fjármunum við megum eyða þegar við erum úti. Fyrir utan hversu óþolandi það er, að stjórnmálamenn séu með puttana í þessu yfirleitt í gegnum stofnanir samfélagsins, þá er líka umhugsunarefni að þetta sé yfirhöfuð gert. Einstaklingar sem flytja út, venjulegt fjölskyldufólk, ógna ekki stöðugleika þjóðarbússins með sínum framfærslufærslum, sem helst ekki nema meira en 10 til 20 milljónum á ári.
Þetta skammtakerfi er hins vegar andlegt ofbeldi, sem grefur undan tiltrú fólks á því að einstaklingar séu sinnar gæfu smiðir og geti staðið og fallið með eigin ákvörðunum á hverjum tíma. Í alþjóðavæddum heimi er þetta með nokkrum ólíkindum, verður að segjast.
Það sem ég á erfitt með að skilja, og tel mig ekki hafa fengið almennilegar skýringar á, er hvernig það getur farið saman við hugmyndir um jafnræði í tengslum við höftin, að svona sé komið fram við einstaklinga og fjölskyldufólk sem eru að flytja úr landi á sama tíma og alþjóðleg stórfyrirtæki dæla tugum milljarða úr hagkerfinu innan hafta. Beinhörðum gjaldeyristekjum af viðskiptum sínum.
Álframleiðendurnir Alcoa, Rio Tinto og Century Aluminum koma þar helst upp í hugann, en heildarverðmæti vegna framleiðslu þeirra og sölu á Íslandi nema 227 milljörðum króna. Um 80 milljarðar af þeim verðmætum verða eftir í landinu í formi launa og þjónustu, en hluti af afganginum fer úr hagkerfinu með einum eða öðrum hætti. Kaup á súráli nema um 65 milljörðum. Svigrúmið þarna á milli er 82 milljarðar króna, á árs grundvelli. Nú eru að verða liðin sjö ár frá höftum, og því er um að ræða mikla peninga sem ættu að vera hér innan hagkerfisins - ef allt er eðlilegt.
Alveg burt séð frá því hvort fyrirtækin eru að greiða skatta og skyldur eins og önnur fyrirtæki hér á landi, sem miklar efasemdir hafa komið fram um, þá myndi ég vilja fá fram nákvæmlega hvernig farið er með þessa 227 milljarða króna sem Hagstofan segir mér að álframleiðendur hér á landi komi með inn í hagkerfið. Í hvað fara þessir peningar nákvæmlega. Ég er nokkuð viss um að gjaldeyrinn, sem eftir er þegar búið er að draga fá innkaup á súráli, laun og aðkeypta þjónustu, sé að fara úr landi. En það væri fróðlegt að sjá hvernig þessar fjármagnshreyfingar eru. Höftin eru dauðans alvara og varla geta þessi fyrirtæki komist upp með að skilja einstaklinga eftir í skammtakerfi ríkisvaldsins, og önnur útflutningsfyrirtæki í strangri skilaskyldu á gjaldeyri, meðan þau koma gjaldeyrinum úr landi.
Ég skil vel að þessi alþjóðlegu fyrirtæki skuli færa fjármuni yfir í önnur lönd eins og hentar og með þeim aðferðum sem þau kjósa að nota. En ekki eftir nóvember 2008. Þá voru sett lög um víðtæk fjármagnshöft á Íslandi, sem gilda fyrir alla. Álframleiðendurnir hljóta að falla þarna undir líka. Þetta er þriðja stærsta stoðin í útflutningstekjum Íslendinga á eftir sjávarútvegi og ferðaþjónustu. Þeir tveir síðarnefndu geirar skila miklum ávinningi fyrir íslenskt þjóðarbú og gjaldeyrinn rennur sannarlega hingað og þurfa þeir að undirgangast strangar kröfur um skilaskyldu.
Alveg eins og Jakob fer yfir í Þjóð í hafti þá bjóða fjármagnshöft upp á mismunun í sinni ömurlegustu mynd. En ég á erfitt með að sætta mig við það að þurfa að undirgangast skammtakerfi ríkisvaldsins, í þágu þess að viðhalda fjárhagslegum stöðugleika þjóðarbússins, á sama tíma og erlend álframleiðslufyrirtæki virðast komast upp með að koma í það minnsta tugum milljarða í erlendum gjaldeyri úr landi á hverju ári. Bróðurpartur þjóðarinnar þyrfti að flytja tímabundið úr landi og fara á eyðslufylleríi, til þess að jafna áhrifin af þessu fyrir efnahagsreikning þjóðarbússins.
Þó ég sé að setja fram þessi hugðarefni með „eigin hagsmuni“ mína að leiðarljósi, þar sem ég stend í flutningum, eins súrealískt og það nú hljómar, þá er það mikið umhugsunarefni fyrir Ísland að þurfa að búa við haftabúskapinn og neikvæð áhrif hans á samfélagið. Höftin takmarka sjálfsögð réttindi eins og peningalegt sjálfstæði einstaklinga og fyrirtækja. Til lengdar grafa þau undan samkeppnishæfni, og þrýsta alþjóðlegri þekkingu úr landi, í skiptum fyrir láglaunastörf. Stjórnmálamenn hljóta að velta því fyrir sér, hvort millifærslur hjá venjulegu fólki séu að ógna fjárhagslegum stöðugleika þjóðarbússins eða ekki. Hvort það sé hreinlega þess virði að setja upp takmarkanir eins og þessar sem að ofan er lýst, í stað þess að einblína á stóru fjármagnshreyfingarnar sem skipta máli, og treysta fólkinu. Eftirlitið er hvort eð er eftir-á miðað, og óþarfi að setja upp skammtakerfi sem vinnur gegn öllum til að þrengja að meintum þrjótum. Ástæðan fyrir því að álframleiðendurnir eru hér sérstaklega nefndir, er að hann er langstærstur þegar kemur að beinni erlendri fjárfestingu í landinu. Þess vegna er skiljanlegt að því sé velt upp, hvernig fjármagnshreyfingarnar, til og frá landinu, eru hjá þeim í ljósi haftanna og skammtakerfisins á einstaklingana.
Eigi þetta að ganga svona til lengdar þá þarf Jakob að fara endurútgefa Þjóð í hafti sem allra fyrst, og þá með nýjum dæmisögum úr hversdagsleikanum. Eftir aldarfjórðung gætu þau skrif orðið tilefni til upprifjunar í ljósi hringrásar sögunnar.