Það er ekki hægt að segja annað en að baráttan um rektorsembættið í Háskóla Íslands sem hefur staðið í nokkrar vikur hefur verið frekar prúðmannleg. Tveir reyndir frambjóðendur hafa lýst áherslum sínum og sá þriðji, minna reyndur, hefur látið gagnrýnina dynja á Háskólanum. Því hefur verið vel tekið mestanpart. En nú herðist leikurinn. Það þarf að kjósa aftur og þá er komið að því fyrir suma að finna sjálfa sig upp – á nýjan leik. Það er auðvelt að grípa til klisjunnar: Annar frambjóðandinn uppgötvar að hann er nýr og ferskur, boðberi breytinga og nýrra strauma. Og stuðningsmennirnir halda því fram að hinn sé búinn að hafa alltof mikil völd of lengi – hafi eiginlega stjórnað Háskólanum um árabil og vald geti bæði „spillt og dregið úr frumkvæði“, eins og einn þeirra komst að orði í Kjarnanum í gær.
Það er dálítið merkileg hugmynd að Guðrún Nordal komi ný að Háskóla Íslands en Jón Atli Benediktsson hafi setið þar lengi. Guðrún á óslitinn 22 ára feril við Háskóla Íslands og Árnastofnun sem hún veitir nú forstöðu. Hún hefur ekki aðeins tekið þátt í nefndastörfum við skólann heldur hefur hún átt lykilþátt í mörgu því sem í dag er deilt á innan háskólans. Hún sat til dæmis í Vísindanefnd háskólaráðs 2004 til 2008 þegar gríðarlega umdeildar tillögur að vinnumatsreglum urðu til. Hún hefur verið formaður Vísindanefndar Vísinda- og tækniráðs um níu ára skeið og hún hefur stjórnað einni mikilvægustu fræðastofnun okkar, sem starfar náið með Háskóla Íslands í sex ár. Guðrún er reynslubolti í stjórnsýslu. Fyrirfram hefði maður frekar búist við því að hún benti á margra ára reynslu sína og þátttöku í háskólasamfélaginu sem meginrök fyrir því að hún geti orðið góður rektor.
Vandinn er kannski sá að reynslusamanburðurinn er henni ekki að öllu leyti hagstæður. Starfsferill Jóns Atla við Háskóla Íslands er að vísu tveimur árum lengri en Guðrúnar, en hann er að mörgu leyti sambærilegur. Eins og Guðrún hefur Jón Atli verið virkur í stjórnsýslu um árabil og hann hefur setið í og stýrt ýmsum lykilnefndum Háskólans. Jón Atli hefur verið í hlutverki aðstoðarrektors síðan 2009 eða jafnlengi og Guðrún hefur stýrt Árnastofnun. Ólíkt Guðrúnu hefur Jón Atli ekki haft nein formleg völd sem aðstoðarrektor þar sem hann sinnir fyrst og fremst ákveðnum verkefnum í umboði rektors. Og hverjum spillir þá valdið?
Í hörðum slag hættir stuðningsmönnum til að trúa eigin mælskulist og þá geta staðreyndir gleymst. Báðir frambjóðendur eru vissulega hæfir til að gegna starfinu, en hvort er hæfara? Í mínum huga er svarið einfalt. Jón Atli er, eins og rektorar skólans hafa iðulega verið þegar þeir hafa tekið við embættinu, í hópi okkar fremstu vísindamanna. Samhliða stjórnunarstörfum hefur hann kennt námskeið við sína deild, hann leiðbeinir doktorsnemum, leiðir vísindasamstarf og birtir vísindagreinar. Þeir leiðtogahæfileikar sem Háskólinn þarf á að halda eru þeir sömu og koma fólki á toppinn í fræðum og vísindum. Besta reynsla og þjálfun rektors er að hafa leitt alþjóðlegt vísindastarf – unnið með kollegum á sínu sviði og náð árangri í rannsóknum.
Eins og Einar Steingrímsson var óþreytandi að benda á er Háskóli Íslands yfir 80% íslenska vísinda- og fræðasamfélagsins. Við næsta rektor Háskólans blasir það verkefni að tryggja heilbrigt og hvetjandi umhverfi rannsókna á Íslandi. Það verður ekki einfalt mál. Þótt margir íslenskir fræði- og vísindamenn hafi staðið sig vel á síðustu árum hefur háskólasamfélagið verið fjársvelt. Sá sem leiðir Háskóla Íslands þarf að skilja þarfir rannsókna og háskólakennslu út í hörgul. Þess vegna ættum við ekki að gera lítið úr reynslu fólks eða reyna að láta líta út fyrir að hún spilli því frekar en að styrkja það. Leyfum staðreyndunum að njóta sín. Þær segja oft það sem máli skiptir.