Fjölmargt hefur verið rætt og skrifað um þær umræður sem spunnust í kringum moskulóðina á síðustu metrum kosningabaráttu sveitastjórnarkosninganna. Hafa ýmsir lýst yfir áhyggjum sínum af því að sú öfgafulla umræða sem hefur um skeið fengið að leika lausum hala í evrópskum stjórnmálum virðist nú vera komin til Íslands.
Umræða um málefni innflytjenda er ekki sérlega langt á veg komin á Íslandi þótt hún hafi verið að sækja í sig veðrið síðustu árin. Ef litið er til þróunar í nágrannalöndunum er ljóst að við erum enn að slíta barnsskónum í þessum efnum. Við höfum því tækifæri til að taka málefnið föstum tökum, fylgjast með gangi mála hjá öðrum þjóðum og sjá hvar hægt er að gera betur.
Það sem moskuumræðan í aðdraganda kosninganna leiddi meðal annars í ljós var þörfin fyrir að efla upplýsta og um leið yfirvegaða umræðu í þessum efnum í stað þess að eltast við hraðsoðnar staðhæfingar stjórnmálamanna sem slengt er fram í hita hins pólitíska leiks. Hér er einmitt tækifæri fyrir okkur að brjótast út úr þeirri leiðinlegu hringrás sem innflytjendaumræðan virðist festast í víðast hvar í Evrópu. Þar berast oft sömu æsifréttirnar landa á milli og eiga þátt í því að skapa það hugmyndafræðilega virki sem þeir öfgafyllstu reyna af fremsta megni að byggja utan um álfuna. Innan þess býr hin evrópska forréttindastétt og situr ein að kjötkötlunum. Á sama tíma er einnig víða unnið markvisst að því að hlaða virki utan um þjóðríkin og þær þjóðir sem þau byggja. Þar verða til virki inni í virkjum.
Normalísering fordóma
Þegar áróður gegn útlendingum er farinn að smeygja sér inn í hina almennu pólitísku umræðu er hætta á því að fordómafullar staðhæfingar sem áður voru sjaldheyrðar frá ráðamönnum þjóðarinnar fari að „normalíserast“. Þetta höfum við séð í löndum í kringum okkur þar sem fordómafull orðræða hefur smám saman nálgast hina pólitísku miðju. Í nýafstöðnum Evrópuþingskosningum fengu öfgahægriflokkar víða gott gengi. Stjórnmálaflokkar sem hafa verið kenndir við „þjóðernispopúlisma“ í Frakklandi, Bretlandi og Danmörku unnu enn fremur stórsigur. Það sem einna helst sameinar þessa flokka ásamt gagnrýni þeirra á Evrópusambandið er andstaða við innflytjendur og frjálst streymi fólks yfir landamæri (þ.e. sín landamæri).
Hjá flestum þessara flokka hefur andstaða gegn innflytjendum, og ekki síst múslimum, lengi verið við lýði. Í þessum löndum hafa því ófáir slagir verið teknir um moskubyggingar. Þar hefur umræðan aftur á móti þróast í nýja átt síðustu árin og má segja að fyrri skoðunum hafi verið pakkað inn í nýjan og praktískari búning. Þar sem áður var barist gegn slæðum og svínakjöti, framandi atvinnustarfsemi og nýjum trúarbrögðum, ásamt ýmsu fleira sem innflytjendur hafa fært með sér inn í nýtt land, er nú barist fyrir því að stöðva streymið yfir landamærin og um leið takmarka aðgengi nýrra íbúa að hinu opinbera félagskerfi. Virkið skal nú byggt utan um velferðarkerfið.
Bótaferðalangar og ferðamenn í hælisleit
Gott dæmi um normalíseringu á annars fordómafullum staðhæfingum um flutning fólks milli landa, sem teknar hafa verið upp víða í Evrópu, eru hugtök sem þýdd hafa verið sem „bótaferðalangar“ (e. benefit tourism) og „ferðamenn í hælisleit“ (e. asylum shopping). Bæði vísa þau í sömu hugmynd: að einstaklingar af erlendum uppruna sem flytjast til hinna velmegandi landa Evrópu séu einhvers konar sníkjudýr í leit að fríu uppihaldi og verði þannig dragbítar á hinu félagslega kerfi – okkar kerfi sem við höfum borgað í. Umræðan sem slík um streymi fólks milli landa er vissulega mikilvæg nú á tímum þegar miklar breytingar hafa orðið á mynstri fólksflutninga í Evrópu. En útgangspunkturinn er oftar en ekki byggður á fordómum og fáfræði.
Hér á landi hefur þessi angi umræðunnar ekki farið mjög hátt en þó hefur bólað á svipuðum viðhorfum. Ekki alls fyrir löngu var t.d. rætt í Reykjavíkurbréfi Morgunblaðsins um rétt fólks til að vita af mikilli og hraðri ásókn „annarra þjóða fólks“ í velferðarkerfi „sem það hefur ekkert lagt til“. Þá varð nokkurt fjaðrafok út af orðum forstjóra Útlendingastofnunar snemma á síðasta ári þegar hún skýrði aukningu á hælisumsóknum á Íslandi og lengri úrvinnslutíma þeirra m.a. með hinum svokölluðu „ferðamönnum í hælisleit“ sem kæmu hingað fyrst og fremst vegna þessa fría húsnæðis og fæðis sem stæði hælisleitendum til boða meðan málsmeðferð ætti sér stað. Gera má ráð fyrir því að meira eigi eftir að heyrast af þess konar málflutningi ef íslenskir stjórnmálamenn ætla sér að halda áfram að elta þau popúlísku „trend“ sem áberandi hafa verið í stjórnmálalandslagi Evrópu.
Innrásin
Umræðan um „innrás“ innflytjenda í velferðarkerfi velmegandi þjóða fór fyrst verulega af stað í hinum ýmsu Evrópulöndum í aðdraganda þess að opna átti fyrir frjálst flæði vinnuafls frá átta nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins árið 2004. Umræðan hefur blossað upp aftur nú þegar opnað var fyrir aðild Rúmeníu og Búlgaríu að opnum vinnumarkaði í byrjun árs 2014. Þrátt fyrir að umræðan hafi verið fyrirferðarmikil og hafi líklega átt stóran þátt í góðu gengi hægriflokka í síðustu Evrópuþingskosningum bendir fátt til þess að ásókn í velferðarkerfi sé ráðandi þáttur í fólksflutningum innan Evrópu.
Ítarleg úttekt á flæði fólks innan Evrópusvæðisins, sem gerð var á síðasta ári fyrir Evrópusambandið, sýnir að staðhæfingar um velferðartúrisma eiga ekki við rök að styðjast. Þvert á móti þiggja innflytjendur víðast hvar minni aðstoð frá hinu opinbera en innfæddir og meðal þeirra er hlutfallslega lægra atvinnuleysi. Þessum upplýsingum hefur þó ekki mikið verið haldið á lofti, enda fer það ekki saman við pólitíska stefnu þeirra sem hæst gjamma.
Umræðan um „ferðamenn í hælisleit“ er oft á svipuðum nótum, en hælisleitendur hafa einnig stundum verið kallaðir „bótaferðalangar í dulargervi“. Hugtökin ein og sér lýsa miklu skilningsleysi á því flókna ferli sem hælisleitandi fer í gegnum og þeim erfiðu sögum sem oftast búa að baki. Auðvitað eru þessi mál ekki svart/hvít fremur en annað og ekki er hægt að alhæfa um stóran hóp fólks. Hælisleitendur ættu þó ávallt að njóta þeirrar verndarstöðu sem alþjóðlegir sáttmálar tryggja þeim. Tölur sýna að margir hælisleitendur sækja vissulega um hæli á fleiri en einum stað, þaðan kemur hugmyndin um ferðamanninn í hælisleit. Dyflinnarreglugerðin, sem gerir ráð fyrir því að fyrsti viðkomustaður flóttamanns í Evrópu skuli sjá um málsmeðferð hans, var m.a. sett á laggirnar til að koma í veg fyrir slíkt. En staðreyndin er sú að aðstæður hælisleitenda í fyrstu móttökulöndum geta verið hörmulegar, biðtíminn langur og framtíðarhorfurnar engar. Víða er enga hjálp að fá og fólk bíður árum saman í ömurlegri vist eftir úrlausn mála sinna sem kannski kemur aldrei. Því er ekki að undra þótt sumir taki málin í eigin hendur og freisti gæfunnar annars staðar.
Opin og heiðarleg umræða
Aukið streymi fólks milli landa hefur vissulega margar breytingar í för með sér og taka þarf á ýmsum krefjandi málum. Hér á landi hefur gott starf verið unnið í móttöku og aðlögun fólks af erlendum uppruna en sífellt verða til ný verkefni og áskoranir. Nauðsynlegt er að umræðan sé frá byrjun opin og heiðarleg, annars er hættan sú að efi og tortryggni verði innbyggð í orðræðuna. Varast ber að afskrifa innflytjendur og flóttafólk með innihaldslausum gífuryrðum og æsifréttum um hnignandi heim. Þannig má vonandi koma í veg fyrir að enn eitt virkið rísi.
Greinin birtist fyrst í nýjasta Kjarnanum. Lestu hann hér.