Þann 25. júlí næstkomandi mun fjórða Druslugangan leggja af stað frá Hallgrímskirkju en Druslugöngur eiga það sammerkt að stuðla að því að færa áhersluna frá hátterni og klæðnaði brotaþola kynferðisofbeldis að gerendunum. Forsaga málsins er sú að kanadískur stjórnmálamaður reyndi að kenna brotaþola nauðgunar um það að viðkomandi var nauðgað vegna þess að konan, brotaþolinn, hafði að hans mati verið druslulega klædd og hagað sér eins og drusla, verið of full og ábyrgðin væri því hennar.
Í beautytipshópnum á Facebook hefur rignt inn sögum kvenna af nauðgunum og þar er mikill vilji til þess að skila skömminni til gerendanna og losa sig við þessa sömu ábyrgð og kanadíski stjórnmálamaðurinn vildi eigna brotaþolum kynferðisofbeldis. Nauðganir eru samt ekki eftir forskrift og eru mjög mismunandi. Viðbrögð brotaþola eru mjög mismunandi og engin ein rétt leið fyrirfinnst til að bregðast við slíku ofbeldi. Sumir frjósa, aðrir berjast um, aðrir gera eitthvað allt annað. Það virðist samt gegnumgangandi að þeir sem voru fullir þegar verknaðurinn átti sér stað, fóru viljugir með viðkomandi og náðu ekki að sporna við verknaðinum taki þessa ábyrgð á sig.
Ég var ekki full. Ég var ekki druslulega klædd. Ég reyndi að berjast á móti, en þið sem hafið reynt að bola burt 100 kg manni á meðan þið hafið haldið á iðandi smábarni skiljið alveg að slíkt er ekki hægt. Ég sagði nei, ég sagði hættu, ég grét en allt kom fyrir ekki. Meðan barnið blaðraði í fanginu á mér hjakkaðist hann á mér eins og tuskudúkku því það var hans réttur. Ég hef alltaf upplifað þessa atburðarás sem nauðgun. Ég hef aldrei talið mig bera ábyrgð á henni. Þetta var ekki mér að kenna. Samt tók það mig tíu ár að leggja fram kæruna.
Brotaþolar heimilisofbeldis eru oft fastir í aðstæðunum og ná ekki að koma sér úr samböndunum og ná þeirri fjarlægð sem þarf til að byggja sig upp. Oft er ástæðan sú að brotaþola er hótað því að missa börnin eða að viðkomandi hefur verið brotinn markvisst niður. Sömu lög hafa hingað til gilt um ofbeldi í nánum samböndum og annað ofbeldi hér á landi. Því þarf að breyta. Eitt af því sem þarf að taka á er að fyrningartíminn er sá sami sem er mjög óréttlátt því að brotaþolar heimilisofbeldis koma sér oft ekki úr sambandinu og ná að byggja sig upp innan fyrningartímans eins og áður sagði. Fæstir sem búa enn með maka sínum ná að kæra viðkomandi fyrir það ofbeldi sem hann er eða hefur verið beittur innan sambandsins.
Við þurfum úrræði fyrir alla og lög sem skilja það og viðurkenna að ofbeldi og afleiðingar ofbeldis í nánum samböndum eru oft annars eðlis en ofbeldi og afleiðingar þess þegar um ótengda aðila er um að ræða.