Að gera hlutina í öfugri röð eða vanhugsað var í minni barnæsku kallað að gera hlutina með rasshendinni og fylgdu gjarnan umvandanir í kjölfarið. Þetta orðatiltæki rifjast upp fyrir mér nú þegar ég fylgist með umræðum um frumvarp um náttúrupassa og örlögum þess.
Ísland – Galapagos norðursins
Stefán Tryggvason, athafnaskáld og hugsuður
Ég er sjálfur hótelhaldari og hef undanfarin misseri talað fyrir hugmynd um e.k. aðgangskort að helstu ferðamannastöðum. Ég hef fyrst og fremst séð slíkan passa fyrir mér sem stjórntæki til að stýra álagi á einstaka staði en jafnframt sem aðferð til að afla fjár til uppbyggingar ferðamannastaða og jafnvel annarra stórra verkefna sem eðlilegt má telja að ferðamenn greiði sérstaklega til (t.d. mætti nota fé sem þannig væri aflað til að kosta lagningu jarðstrengs yfir hálendið). Forsenda þessara hugmynda er sú trú mín að Ísland sé í raun og veru einstakt land sem umheimurinn er aðeins að litlum hluta búinn að uppgötva. Með öðrum orðum þá held ég að fátt bendi til annars en eftirspurn eftir ferðum til landsins muni enn aukast í næstu framtíð og líkingin um Ísland sem Galapagos norðursins sé því ekki fjarri öllum sanni. Minnumst þess að ekki eru nema 3-4 ár síðan að umræðan um milljón ferðamenn á Íslandi virtist langt inn í framtíðinni.
Hafnir á þurru landi
Nú þegar ferðaþjónustan er orðin stærsta gjaldeyrisskapandi atvinnugrein þjóðarinnar og árlegur vöxtur milli 10 og 20% þá finnst manni eðlilegt, og ekki seinna vænna, að forsvarsmenn greinarinnar og stjórnvöld setjist niður og ræði stöðu hennar og framtíð. Fyrir mér þarf þar ekki að vera um flókinn gjörning að ræða. Fyrir utan mál sem lúta að skattaumhverfi og almennri lagasetningu þarf fyrst og fremst að ákveða með hvaða hætti ríkið kemur að verkefnum sem greidd verða úr sameiginlegum sjóðum. Ég hef séð fyrir mér samlíkinguna við uppbyggingu hafna umhverfis landið nema hvað hér væri um að ræða „hafnir á þurru landi“. Í stuttu máli sé ég fyrir mér samning um uppbyggingu og rekstur einstakra staða/svæða þar sem ríkið kostar ákveðna grunnþætti svo sem gerð vega og stíga, bílaplana, hreinlætisaðstöðu, upplýsingagjöf, öryggismál og eftirlit og tryggir jafnframt rekstur þessarar þjónustu. Einboðið er að þjóðgarðarnir og önnur svæði í eigu ríkisins falli undir þennan þátt. Og með því að ríkið standi myndarlega að uppbyggingu þessara grunneininga, og bjóði síðan einkaaðilum og sveitarfélögum að samnýta eftir atvikum húsnæði og aðra aðstöðu, til veitingarekstrar, sölu minjagripa, sýningahalds og aðstöðu til sölu afþreyingar, þá er það trú mín að nær öllum hugnist betur að ganga til slíks samstarfs við ríkið en standa utan þess heildstæða kerfis sem þessi uppbygging tryggir. Myndarleg uppbygging svæða þar sem arkitektar, listamenn og iðnhönnuðir leituðust við að hanna mannvirki sem hæfðu hverjum stað og yrðu eftirsóknarverðir viðkomustaðir einir og sér, er að sjálfsögðu mjög kostnaðarsöm. Þá er fyrst ástæða til að fara að ræða gjaldtöku af ferðamönnum. Hún er að mínu mati sjálfsögð og á að vera umtalsverð. Andvirði brennivínsfleygs fyrir Íslandsferðina gæti verið ágætis viðmið!
Vangaveltur um frjálsa för um landið og óheftan aðgang að náttúrunni má leggja til hliðar þar sem þessi gjaldtaka miðaðist aðeins við veitta þjónustu. Sú þjónusta hæfist þegar að því kæmi að leggja ökutæki í stæði og í framhaldinu nýta aðra þá þjónustu sem á skilgreindu þjónustusvæði væri að finna. Allir gætu eftir sem áður ekið og gengið frjálsir um Þingvelli! Það væri fyrst þegar rennt væri inná bílaplanið við þjónustumiðstöðina sem gjaldmælirinn færi að tikka. Fjöldi bílastæða takmarkaði fjölda gesta á svæðum og rautt ljós þýddi einfaldlega fullt þá stundina. Til frekari stýringar má hugsa sér fyrirfram pöntuð stæði, sem væru greidd sérstaklega, ef hópar og e.t.v. einstaklingar vildu tryggja sér aðgang. Framkvæmdin væri að öðru leyti sú að gestir gætu keypt aðgang fyrirfram og í flestum tilfellum rafrænt. Eftirlit yrði tilviljunarkennt en verulegar sektir tryggðu að á skömmum tíma þætti nær öllum kaup á aðgangi sjálfsögð, líkt og gerist í samgöngukerfum stórborga.
Æsifréttamennska og upphrópanir hafa leitt til þess að hver hefur eftir öðrum að ágangur ferðamanna sé að gjöreyða landinu.
Það sem hér er boðað er vissulega miðstýrð lausn með verulegri aðkomu ríkisins. Mikil uppbygging fyrst og fremst úti á landi og fjölgun atvinnutækifæra eftir því. En með trúna á einstakt virði landsins og trú á getu okkar til góðra verka má afla þessara tekna með einfaldri gjaldtöku af ferðamönnum án þess að hefta för nokkurs manns um landið.
Óraunhæft mat á umhverfisspjöllum?
En hver er raunveruleikinn í dag? Æsifréttamennska og upphrópanir hafa leitt til þess að hver hefur eftir öðrum að ágangur ferðamanna sé að gjöreyða landinu, áníðslan sé slík að um mestu umhverfisógn landsins sé að ræða og annað í þeim dúr. Ég spyr bara hefur fólk ekki séð traðk eftir hesta og önnur húsdýr, afleiðingar umferðar ökutækja og mannvirkjagerðar að ógleymdum áhrifum sjálfrar náttúrunnar. Sem bóndi til margar ára og landmótunarmaður þá fullyrði ég að umhverfisspjöll vegna ferðamanna við einstaka ferðamannastaði eru smámál á stóra skalanum og það sem enn frekar skiptir máli, hreinir smáaurar að gera úrbætur þar sem þess er þörf. Þessi meðvirkni og múgæsing hefur síðan leitt til þess að við, fyrst ferðaþjónustuaðilar og samtök okkar og nú þingmenn, höfum margþvælst í afstöðu til svokallaðs náttúrupassa sem hefur það eitt að markmiði að afla fjár til sjálfsagðra úrbóta sem í flestum tilfellum þýðir aðeins að setja plástur á sárin. Inní þessi mál hefur svo blandast dæmalaus umræða um almannaréttinn til að ferðast um landið að ógleymdri þjóðrembuumræðunni um rétt okkar Íslendinga umfram aðra til slíks.
Ég vona að Ragnheiður Elín dragi um margt ágætt frumvarp sitt um náttúrupassa til baka að svo stöddu. Bíðum niðurstöðu nefndar ráðherra sem fjalla á um stefnumörkun í greininni og lagasetningar um „Landsáætlun um uppbyggingu innviða fyrir ferðamenn til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum“, sem von mun vera á. Vonandi verður í framhaldinu gerður e.k. sáttmáli til næstu ára um myndarlega og markvissa uppbyggingu grunnþjónustu í ferðaþjónustu. Þá fyrst er sérstök gjaldtaka af ferðamönnum tímabær, hvort sem það verður á formi náttúrupassa eða einhvers annars. Þangað til skulum við öll anda með nefinu.