Af hverju mega stærstu eigendur banka ekki fá að vita hverjir fengu að kaupa með afslætti?

Auglýsing

Fyrir skemmstu var eign almenn­ings í Íslands­banka seld. Um var að ræða afar afdrifa­ríka aðgerð. Ríkið var að selja svo stóran hlut að það er ekki lengur meiri­hluta­eig­andi í bank­an­um. Það þýðir að aðrir hlut­hafar geta tekið sig saman og stýrt bank­anum þangað sem þeir vilja, án þess að ríkið geti rönd við reist, svo lengi sem ákvarð­an­irnar eru í sam­ræmi við lög. 

Ríkið hóf sölu­ferli sitt á Íslands­banka í fyrra­sum­ar, en lög hafa verið í gildi frá byrjun árs 2013 um hvernig eigi að selja hluti rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um, sé áhugi fyrir því. Þá var seldur 35 pró­sent hlutur á verði sem var 34 pró­sent undir mark­aðsvirði ann­ars skráðs banka, Arion banka. Þessir tveir bankar eru að uppi­stöðu nán­ast eins fyrir utan að Íslands­banki er aðeins stærri. Við því var var­að, meðal ann­ars á þessum vett­vangi, að verið væri að selja rík­is­eign langt undir mark­aðsvirði. Á það var ekki hlust­að. Síðan að þessi hlutur var seldur hefur virði hans hækkað um meira en 30 millj­arða króna, eða 62 pró­sent. 

Alls keyptu um 24 þús­und aðilar hlut­inn. Um síð­ustu ára­mót hafði hlut­höfum fækkað um 35 pró­sent, eða um 8.400 alls. Þar er um að ræða þá aðila sem seldi sig út í Íslands­banka á fyrsta tæpa hálfa árinu sem bank­inn var á mark­aði. Hópur sem hafði engan áhuga á að vera lang­tíma­eig­andi að bank­an­um, en meiri áhuga á að kaupa eign á hrakvirði og leysa svo út 60 pró­sent hagnað á fjár­fest­ing­unni hratt og örugg­lega. 

Auglýsing
Engin þörf var á þessum afslætti. Eft­ir­spurn eftir bréfum í Íslands­banka var níföld. Fjöl­margir stofn­ana­fjár­fest­ar, meðal ann­ars líf­eyr­is­sjóð­ir, voru til­búnir að borga mun hærra verð. Færa má rök fyrir því að gefa afslátt, jafn­vel ríf­legan, af banka í sölu ef kaup­and­inn er stór lang­tíma­fjár­festir með mikla reynslu sem gæti haft veru­lega jákvæð áhrif á sam­keppni í íslenska fákeppn­isum­hverf­inu. Það gæti til dæmis verið nor­rænn banki. Eng­inn slíkur fjár­festir hefur hins vegar sýnt áhuga á að kaupa. Þess í stað hefur íslenska rík­is­stjórn­in, og Banka­sýslan henn­ar, verið að dunda sér við að gefa erlendum skamm­tíma­sjóð­um, þeim hluta almenn­ings sem á sparifé og vilja til að taka þátt í hluta­bréfa­braski og íslenskum „fag­fjár­fest­um“ pen­inga í formi afsláttar á rík­is­eign.

Skynd­i­sala sem kom flestum í opna skjöldu

Vinna við næsta skref í sölu Íslands­banka hófst nán­ast strax og búið var að kvitta undir end­ur­nýjað stjórn­ar­sam­starf. Í fjár­laga­frum­varpi rík­is­stjórn­ar­innar var boðað að eft­ir­stand­andi hlutur yrði seldur á árunum 2022 og 2023. Banka­sýsla rík­is­ins boð­aði svo sölu­að­ferð­ina í minn­is­blaði sem birt var á vef hennar og er dag­sett 20. jan­úar 2022. Þar kom skýrt fram að henni hugn­að­ist svokölluð til­boðs­að­ferð þar sem hlutur í bank­anum yrði seldur á einum til tveimur dög­um. 

Í bréfum sem gengu milli Banka­sýsl­unnar og Bjarna Bene­dikts­son­ar, fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, næstu vik­urnar á eft­ir, og voru birt á opin­berum heima­síð­um, var ferlið og ákvörð­un­ar­takan í kringum það svo for­m­að. Tikkað var í öll boxin til að allt væri í sam­ræmi við lög.

Þann 18. mars, klukkan 16:16, var svo greint frá því að Bjarni hefði tekið ákvörðun um hefja sölu á hlut í Íslands­banka. Þessi til­kynn­ing vakti ekki mikla athygli, enda send út á tíma – eftir vinnu á föstu­degi – sem oft er kall­aður Bermúda­þrí­hyrn­ingur frétta. Þá er vinnu­vik­unni lok­ið, hugur almenn­ings kom­inn á föstu­dag­spizzuna og áform helg­ar­innar og vaktir fjöl­miðla orðnar und­ir­mann­aðar með reynslu­minna fólki sem er ósenni­legra til að gera sér stóra mál­tíð úr þeim fregnum sem verið er að koma út. Þegar helgin er liðin er málið sem til­kynn­ingin fjall­aði um svo horfin úr umræð­unni.

Þriðju­dag­inn 22. mars var greint frá því að búið væri að taka í gikk­inn. Selja ætti risa­hlut í Íslands­banka á nokkrum klukku­tímum í lok­uðu útboði til „hæfra fjár­festa“. Það þýddi á manna­máli að þorri almenn­ings fékk ekki að taka þátt. Síðar kom í ljós að búið var að und­ir­stinga nokkra líf­eyr­is­sjóði og ein­hverja erlenda aðila í aðdrag­and­anum og þeir tekið vel í að kaupa. 

Þegar útboðið var um garð gengið um kvöldið kom í ljós að seldur hafði verið 22,5 pró­sent hlutur á 55,65 millj­arða króna með 2,25 millj­arða króna afslætti frá mark­aðsvirði. Við­brögðin bentu til þess að stjórn­völdum hafði full­kom­lega mis­tek­ist að kynna söl­una þannig að venju­legt fólk átt­aði sig á því hvað var í gangi. Hún virt­ist koma nær öllum nema helstu ráða­mönn­um, nokkrum þing­mönn­um, Banka­sýsl­unni, Borg­ar­tún­inu og nokkrum blaða­mönnum í opna skjöldu. Það er umhugs­un­ar­vert fyrir rík­is­stjórn­ina, í ljósi þess að traust á fjár­mála­kerfið hér­lendis er afar lít­ið. Það litla traust (23 pró­sent lands­manna segj­ast treysta fjár­mála­kerf­inu) er meðal ann­ars afleið­ing af banka­hrun­inu. Upp­haf þess var gjör­spillt einka­væð­ing á rík­is­bönkum á árunum 2002 og 2003. 

Af hverju eru litlir einka­fjár­festar í bak­pok­an­um?

Á meðan að ráða­menn ósk­uðu sjálfum sér til ham­ingju með góða sölu lágu engar upp­lýs­ingar fyrir um hverjir hefðu fengið að kaupa, hvernig þeir hefðu verið valdir eða af hverju nauð­syn­legt hefði verið að veita þeim þennan afslátt. 

Fyrstu tíð­indin komu frá erlendum ráð­gjafa Banka­sýsl­unnar sem birti til­kynn­ingu um að 430 hefðu skráð sig fyrir hlut­um. Marg­föld eft­ir­spurn hefði verið í útboð­inu. Svo týnd­ist inn púsl í púslu­spilið í gegnum til­kynn­ingar í Kaup­höll um inn­herja í Íslands­banka sem hefðu verið útvaldir og líf­eyr­is­sjóði sem flögg­uðu þegar þeir fóru yfir ákveðin eign­ar­mörk.

Fólk var beðið um að sýna bið­lund þangað til að allir væru búnir að borga fyrir hlut­ina sem þeir keyptu, en það þurfti að ger­ast fyrir lok dags 28. mars. Svo leið og beið og litlar við­bót­ar­upp­lýs­ingar feng­ust. Hávær orðrómur var um það á mark­aði að verð­bréfa­fyr­ir­tækin sem valin höfðu verið af Banka­sýsl­unni sem sölu­ráð­gjafar án útboðs hefðu hringt í vild­ar­við­skipta­vini, og bara venju­lega vini, sem þau skil­greindu sjálf sem „fag­fjár­festa“ og boðið þeim að vera með. Kjarn­inn hefur rætt við ein­stak­linga sem falla sann­ar­lega undir að vera skil­greindir fag­fjár­festar sem fengu ekki slík sím­töl án sýni­legrar ástæðu.

Auglýsing
Eftirfarandi spurn­ing fór að heyr­ast oftar og oft­ar: af hverju var verið að halda lokað útboð sam­kvæmt til­boðs­fyr­ir­komu­lagi, sem vana­lega er til að lokka stóra fjár­festa að, svo hægt væri að selja hand­völdum einka­fjár­festum litla bita í Íslands­banka? 

Eng­inn vit­ræn svör hafa enn feng­ist við þess­ari spurn­ing­u. 

Hópur sem kaupir eins og almenn­ing­ur, nema með afslætti

Listi yfir alla þá sem fengu að kaupa hefur enn ekki verið birt­ur. Banka­sýslan hélt hins vegar kynn­ingu fyrir ráð­herra­nefnd um efna­hags­mál, sem í sitja Katrín Jak­obs­dótt­ir, Bjarni Bene­dikts­son og Lilja Alfreðs­dótt­ir, á föstu­dags­morgun þar sem greint var með ítar­legri hætti frá fram­kvæmd­inni.

Þar kom til að mynda fram að kaup­endur voru 209 tals­ins. Það þýðir að rúmur helm­ingur þeirra 430 sem skráðu sig fyrir hlut á útboðs­gengi fengu að kaupa. 

Í kynn­ing­unni sagði að inn­­­lendir einka­fjár­­­festar hafi fengið að kaupa í Íslands­­­banka fyrir 16,1 millj­­arða króna. Það er 30,6 pró­­sent af öllum þeim hlut sem seldur var í bank­an­­um. Um að ræða 140 aðila. Afsláttur þeirra á bréfum í Íslands­banka nam 688 millj­ónum króna. Hlut­ur­inn sem þessir 140 aðilar keyptu er í dag sam­an­lagt rúm­lega 1,5 millj­arði króna meira virði en hann var þegar þeir keyptu hann. Eina upp­­lýs­ing­­arnar sem liggja fyrir um hverjir þeir eru koma úr þremur inn­­herj­­a­til­kynn­ingum sem birtar voru í Kaup­höll Íslands.

Alls 24 þeirra sem tóku þátt fengu að kaupa hlut fyrir tíu millj­­ónir króna eða minna, 35 keyptu fyrir tíu til 30 millj­­ónir króna og 20 keyptu fyrir 30 til 50 millj­­ónir króna. Því liggur fyrir 79 aðil­­ar, rúm­­lega helm­ingur allra þátt­tak­enda, keypti fyrir 50 millj­­ónir króna eða minna.

Þetta eru allt fjár­festar sem eru svo litlir að engin ástæða er til þess að gefa þeim afslátt á hlutum í Íslands­banka. Til eru almennir fjár­fest­ar; venju­legt fólk með umtals­verðan sparn­að, arf eða aðrar fjár­magns­eign­ir, sem kaupa hluta­bréf fyrir þessar upp­hæð­ir. Þessi hópur „fag­fjár­festa“ bætir engu við gæði eign­ar­halds Íslands­banka né dreif­ingu þess, enda eru hlut­hafar bank­ans næstum 16 þús­und. Hóp­ur­inn sem keypti fyrir undir 50 millj­ónir króna er um þriðj­ungur af einu pró­senti allra eig­enda.

Voru skertir síð­ast, og áttu þetta inni

Íslenskir fjár­­­festar keyptu 85 pró­­sent af hlutnum sem var seldur fyrir sam­tals 44,8 millj­­arða króna, en erlendir aðilar 15 pró­­sent fyrir 7,9 millj­­arða króna. Þar af fengu 23 líf­eyr­is­­sjóðir að kaupa 37,1 pró­­sent þess sem selt var á 19,5 millj­­arðar króna. Fyrir liggur að stærstu líf­eyr­is­sjóðir lands­ins vildu kaupa mun meira en þeir fengu úthlutað og hefðu auð­veld­lega getað tekið þá hluti sem var úthlutað til einka­fjár­festa. Alls 15 fjár­­­festar keyptu fyrir meira en einn millj­­arð króna og sex keyptu fyrir á bil­inu 500 til 1.000 millj­­ónir króna. 

Í kynn­ingu Banka­­sýsl­unnar í gær­morgun var há hlut­­deild einka­fjár­­­festa ein­göngu rök­studd með því að áskriftir þeirra hefðu skertar á kostnað almennra fjár­­­festa í frumút­­­boð­inu á hlutum í Íslands­­­banka í fyrra­­sum­ar. Þeir áttu þetta inni, sagði Banka­sýsl­an. 

En hverjir eru þessir útvöldu „fag­fjár­fest­ar“? Sem stendur vitum við ekk­ert um það, fyrir utan þá þrjá sem senda þurfti inn­herj­a­til­kynn­ingar út af. Einn þeirra keypti fyrir ell­efu millj­ón­ir. Annar fyrir 27 og sá þriðji fyrir 55. 

Þegar fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra var spurður um málið á Alþingi í vik­unni sagði hann að Íslands­banki væri að taka saman hlut­haf­alista. Þegar því væri lokið gætu beinir hlut­hafar í bank­anum þar borið saman hlut­haf­a­list­ann eins og hann stóð fyrir söl­una og eins og hann stendur eftir söl­una. Nú skulum við muna að hlut­hafar í Íslands­banka eru hátt í 16 þús­und.

Bjarni sagð­ist enn fremur hafa „sent Banka­­sýsl­unni bréf í því skyni að fá end­an­­legan lista yfir úthlutun Banka­­sýsl­unn­­ar. Í anda gagn­­sæis á öllum stigum máls­ins standa vænt­ingar mínar til þess að þessi gögn öll verði hægt að gera opin­ber nema lög standi því í veg­i.“

Eng­inn vill svara

Kjarn­inn leit­aði eftir því að fá hlut­haf­alistana hjá Íslands­banka. Í svari sem barst í gær var því hafnað að afhenda þá og sagt að stjórn­endur bank­ans treysti sér ekki til þess að birta upp­lýs­ingar um hlut­hafa umfram það sem mælt er fyrir í lög­um. Þau lög sem vísað var til í svar­inu eru lög um fjár­mála­fyr­ir­tæki, sem bank­ann til að upp­lýsa um alla sem eiga eitt pró­sent eða meira í hon­um, og lög um árs­reikn­inga, sem skylda fyr­ir­tæki til að birta upp­lýs­ingar um að minnsta kosti tíu stærstu hlut­hafa félags­ins í skýrslu stjórnar í árs­reikn­ingi. Íslands­banki benti á Banka­sýsl­una til sem selj­anda varð­andi frek­ari birt­ingar á kaup­end­um.

Auglýsing
Kjarninn leit­aði til Banka­sýslu rík­is­ins í vik­unni og óskaði eftir lista yfir alla sem fengu að kaupa hlut í Íslands­banka í lok­aða útboð­inu 22. mars. Í svari for­stjóra hennar kom fram að hann gæti ekki veitt þær upp­lýs­ing­ar „að svo stödd­u“. 

Kjarn­inn ákvað líka að leita til Per­sónu­verndar til að sjá hvort eitt­hvað í per­sónu­vernd­ar­lögum kæmi í veg fyrir að upp­lýs­ingar um þá sem fengu að kaupa í rík­is­banka yrðu birt­ar. Í svari stofn­un­ar­innar sagði að áður en Banka­sýslan ákveði að birta per­sónu­upp­lýs­ingar þurfi hún að meta hvort slík birt­ing sam­rým­ist per­sónu­vernd­ar­lög­um. „Per­sónu­vernd hefur ekki þær upp­lýs­ingar sem þarf til að geta svarað með nákvæm­ari hætti á þess­ari stund­u.“

Ekk­ert traust­vekj­andi við fram­kvæmd­ina né svörin

Áður en ráð­ist var í síð­ari einka­væð­ingu íslenskt banka­kerfis var skip­aður starfs­hópur sem vann Hvít­bók um fram­tíð íslensks fjár­mála­kerf­is. Hún átti að vera leið­ar­vísir um hvernig ætti að selja banka og hverju það ætti að áorka. Sá sem stýrði þeirri vinnu er stjórn­ar­for­maður Banka­sýslu rík­is­ins og trún­að­ar­maður fjár­mála- og efna­hags­ráð­herra, Lárus Blön­dal. 

​​Í Hvít­­­bók­inni er meðal ann­ars fjallað um eign­­­ar­hald í banka­­­kerf­inu. Þar seg­ir: „Heil­brigt eign­­­ar­hald er mik­il­væg for­­­senda þess að banka­­­kerfi hald­ist traust um langa fram­­­tíð. Í því felst að eig­endur banka séu traust­ir, hafi umfangs­­­mikla reynslu og þekk­ingu á starf­­­semi banka og fjár­­­hags­­­lega burði til að standa á bak við bank­ann þegar á móti blæs. Mik­il­vægt er að eig­endur hafi lang­­­tíma­­­sjón­­­ar­mið að leið­­­ar­­­ljósi.“

Það þarf ansi skap­andi hugsun til að fella þá 59 einkafag­fjár­festa sem voru hand­valdir til að kaupa fyrir minna en 30 millj­ónir króna í Íslands­banka fyrir tæpum tveimur vikum síð­an, undir ofan­greinda skil­grein­ing­u. 

Vegna sög­unnar var gríð­ar­lega nauð­syn­legt að traust myndi ríkja um sölu á hlutum rík­is­ins í bönk­um. Það er hins vegar ekki traust­vekj­andi að fyr­ir­komu­lag síð­ustu sölu hafi komið meg­in­þorra þjóð­ar­innar í opna skjöldu. Það er ekki traust­vekj­andi þegar rík­is­stofnun ákveður að hand­velja nokkur verð­bréfa­fyr­ir­tæki til að selja hluti í banka á nokkrum klukku­tím­um. Það er ekki traust­vekj­andi þegar þau verð­bréfa­fyr­ir­tæki hand­velja svo hóp ein­stak­linga sem þau skil­greina sem „fag­fjár­festa“ til að taka þátt í lok­uðu útboði þar sem hlutir í rík­is­fyr­ir­tæki bjóð­ast með afslætti. Það er ekki traust­vekj­andi þegar ábyrgð­ar­að­ilar söl­unnar neita að upp­lýsa um hverjir það voru sem mynd­uðu hóp­inn. Og það er ekki traust­vekj­andi þegar þeir geta ekki útskýrt með vit­rænu móti af hverju hringt var í suma til að kaupa umfram aðra. 

Skortur á vilja til að upp­lýsa

Almenn­ingur átti þennan hlut í Íslands­banka sem var seld­ur. Hann á stærstan eft­ir­stand­andi eign­ar­hlut í bank­an­um. Hann á að fá að vita allt um sölu­ferl­ið. Hverjir fengu að kaupa og af hverju þeir voru vald­ir. Aðeins þá, ef engin spill­ing birtist, er hægt að treysta því að fram­kvæmdin hafi verið í lagi.

For­maður fjár­laga­nefnd­ar, stjórn­ar­þing­mað­ur­inn Bjarkey Olsen Gunn­ars­dótt­ir, sagði á þingi í vik­unni að ýta yrði af fullum þunga eftir því að list­inn yfir alla sem fengu að kaupa í Íslands­banka yrði birt­­ur. „Ég vona svo sann­­ar­­lega að það sé ekk­ert innan kerf­is­ins sem stoppar okk­­ur.“

Kerfið sem Bjarkey nefnir er mann­anna verk. Kerfi segja ekki nei, heldur fólkið sem stýrir þeim.

Ef kerfið stendur í vegi fyrir því að við fáum að vita hvernig farið var með okkar eign, þá breytum við ein­fald­lega kerf­inu. Það er nefni­lega eng­inn póli­tískur ómögu­leiki til stað­ar. Bara skortur á vilja til að segja almenn­ingi frá því hverjir fengu að kaupa í bank­anum hans með afslætti.

Við þurfum á þínu framlagi að halda

Þú getur tekið beinan þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Við sem vinnum á ritstjórn Kjarnans viljum hvetja þig til að vera með okkur í liði og leggja okkar góða fjölmiðli til mánaðarlegt framlag svo við getum haldið áfram að vinna fyrir lesendur, fyrir fólkið í landinu.

Kjarninn varð níu ára í sumar. Þegar hann hóf að taka við frjálsum framlögum þá varð slagorðið „Frjáls fjölmiðill fyrir andvirði kaffibolla“ til og lesendur voru hvattir til að leggja fram í það minnsta upphæð eins kaffibolla á mánuði.

Mikið vatn hefur runnið til sjávar á þeim níu árum sem Kjarninn hefur lifað. Í huga okkar á Kjarnanum hefur þörfin fyrir fjölmiðla sem veita raunverulegt aðhald og taka hlutverk sitt alvarlega aukist til muna.

Við trúum því að Kjarninn skipti máli fyrir samfélagið.

Við trúum því að sjálfstæð og vönduð blaðamennska skipti máli.

Ef þú trúir því sama þá endilega hugsaðu hvort Kjarninn er ekki allavega nokkurra kaffibolla virði á mánuði.

Vertu með okkur í liði. Þitt framlag skiptir máli.

Ritstjórn Kjarnans: Sunna Ósk Logadóttir, Þórður Snær Júlíusson, Erla María Markúsdóttir, Arnar Þór Ingólfsson, Eyrún Magnúsdóttir og Grétar Þór Sigurðsson.


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Þorbjörn Guðmundsson
Er íslenska velferðarkerfið ekki lengur griðarstaður þeirra sem minnst hafa?
Kjarninn 11. janúar 2023
Takk fyrir og sjáumst á nýjum miðli á föstudag
Bréf frá ritstjóra Kjarnans vegna sameiningar við Stundina og þess að nýr framsækinn fréttamiðill verður til í lok viku.
Kjarninn 11. janúar 2023
Sverrir Albertsson
Vatn á myllu kölska
Kjarninn 11. janúar 2023
Lögreglumenn standa vörð um gröfurnar í námunni.
Berjast fyrir þorpi á barmi hengiflugs
Lítið þorp í Rínarlöndum Þýskalands er allt komið í eigu kolarisa. Fyrirtækið ætlar sér að mylja niður húsin og stækka kolanámu sína sem þegar þekur um 80 ferkílómetra. Þetta þykir mörgum skjóta skökku við í heimi sem berst við loftslagsbreytingar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Arnþrúður Karlsdóttir, útvarpsstjóri Útvarps Sögu.
Útvarp Saga telur fjölmiðlastyrki skapa tortryggni og bjóða upp á frændhygli
Fjögur fjölmiðlafyrirtæki hafa til þessa skilað inn umsögnum um frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningar- og viðskiptaráðherra, sem mun að óbreyttu framlengja núverandi styrkjakerfi til fjölmiðla.
Kjarninn 10. janúar 2023
Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar.
Viðræðum slitið og Efling undirbýr verkfallsaðgerðir
Samtök atvinnulífsins hafa hafnað gagntilboði Eflingar um skammtímakjarasamning, sem kvað á um meiri launahækkanir en SA hefur samið um við aðra hópa á almennum vinnumarkaði til þessa. Efling undirbýr nú verkfallsaðgerðir.
Kjarninn 10. janúar 2023
Palestínski fáninn á lofti í mótmælum í Reykjavík. Ísraelskri lögreglu hefur nú verið fyrirskipað að rífa fánann niður á almannafæri.
Fánabann og refsiaðgerðir í Palestínu í kjölfar niðurstöðu Sameinuðu þjóðanna
Degi eftir að ný ríkisstjórn tók við völdum í Ísrael samþykkti allsherjarþing Sþ að fela Alþjóðadómstólnum í Haag að meta lögmæti hernáms Ísraelsríkis á Vesturbakkanum. Síðan þá hefur stjórnin gripið til refsiaðgerða og nú síðast fánabanns.
Kjarninn 10. janúar 2023
Gríðarlega mikil dæling á sandi á sér stað í Landeyjahöfn á hverju ári. Markarfljótið ber hundruð þúsunda tonna af jarðefnum út í sjó og það á til að safnast upp í mynni hafnarinnar.
Vilja sjúga sand af hafsbotni í stórum stíl og flytja út
Eftirspurn eftir íslenskum jarðefnum er gríðarleg ef marka má framkomin áform erlendra stórfyrirtækja um nýtingu þeirra. Vinsældir hafnarinnar í Þorlákshöfn eru samhliða mjög miklar.
Kjarninn 10. janúar 2023
Meira úr sama flokkiLeiðari