Fyrir skemmstu var eign almennings í Íslandsbanka seld. Um var að ræða afar afdrifaríka aðgerð. Ríkið var að selja svo stóran hlut að það er ekki lengur meirihlutaeigandi í bankanum. Það þýðir að aðrir hluthafar geta tekið sig saman og stýrt bankanum þangað sem þeir vilja, án þess að ríkið geti rönd við reist, svo lengi sem ákvarðanirnar eru í samræmi við lög.
Ríkið hóf söluferli sitt á Íslandsbanka í fyrrasumar, en lög hafa verið í gildi frá byrjun árs 2013 um hvernig eigi að selja hluti ríkisins í fjármálafyrirtækjum, sé áhugi fyrir því. Þá var seldur 35 prósent hlutur á verði sem var 34 prósent undir markaðsvirði annars skráðs banka, Arion banka. Þessir tveir bankar eru að uppistöðu nánast eins fyrir utan að Íslandsbanki er aðeins stærri. Við því var varað, meðal annars á þessum vettvangi, að verið væri að selja ríkiseign langt undir markaðsvirði. Á það var ekki hlustað. Síðan að þessi hlutur var seldur hefur virði hans hækkað um meira en 30 milljarða króna, eða 62 prósent.
Alls keyptu um 24 þúsund aðilar hlutinn. Um síðustu áramót hafði hluthöfum fækkað um 35 prósent, eða um 8.400 alls. Þar er um að ræða þá aðila sem seldi sig út í Íslandsbanka á fyrsta tæpa hálfa árinu sem bankinn var á markaði. Hópur sem hafði engan áhuga á að vera langtímaeigandi að bankanum, en meiri áhuga á að kaupa eign á hrakvirði og leysa svo út 60 prósent hagnað á fjárfestingunni hratt og örugglega.
Skyndisala sem kom flestum í opna skjöldu
Vinna við næsta skref í sölu Íslandsbanka hófst nánast strax og búið var að kvitta undir endurnýjað stjórnarsamstarf. Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar var boðað að eftirstandandi hlutur yrði seldur á árunum 2022 og 2023. Bankasýsla ríkisins boðaði svo söluaðferðina í minnisblaði sem birt var á vef hennar og er dagsett 20. janúar 2022. Þar kom skýrt fram að henni hugnaðist svokölluð tilboðsaðferð þar sem hlutur í bankanum yrði seldur á einum til tveimur dögum.
Í bréfum sem gengu milli Bankasýslunnar og Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, næstu vikurnar á eftir, og voru birt á opinberum heimasíðum, var ferlið og ákvörðunartakan í kringum það svo formað. Tikkað var í öll boxin til að allt væri í samræmi við lög.
Þann 18. mars, klukkan 16:16, var svo greint frá því að Bjarni hefði tekið ákvörðun um hefja sölu á hlut í Íslandsbanka. Þessi tilkynning vakti ekki mikla athygli, enda send út á tíma – eftir vinnu á föstudegi – sem oft er kallaður Bermúdaþríhyrningur frétta. Þá er vinnuvikunni lokið, hugur almennings kominn á föstudagspizzuna og áform helgarinnar og vaktir fjölmiðla orðnar undirmannaðar með reynsluminna fólki sem er ósennilegra til að gera sér stóra máltíð úr þeim fregnum sem verið er að koma út. Þegar helgin er liðin er málið sem tilkynningin fjallaði um svo horfin úr umræðunni.
Þriðjudaginn 22. mars var greint frá því að búið væri að taka í gikkinn. Selja ætti risahlut í Íslandsbanka á nokkrum klukkutímum í lokuðu útboði til „hæfra fjárfesta“. Það þýddi á mannamáli að þorri almennings fékk ekki að taka þátt. Síðar kom í ljós að búið var að undirstinga nokkra lífeyrissjóði og einhverja erlenda aðila í aðdragandanum og þeir tekið vel í að kaupa.
Þegar útboðið var um garð gengið um kvöldið kom í ljós að seldur hafði verið 22,5 prósent hlutur á 55,65 milljarða króna með 2,25 milljarða króna afslætti frá markaðsvirði. Viðbrögðin bentu til þess að stjórnvöldum hafði fullkomlega mistekist að kynna söluna þannig að venjulegt fólk áttaði sig á því hvað var í gangi. Hún virtist koma nær öllum nema helstu ráðamönnum, nokkrum þingmönnum, Bankasýslunni, Borgartúninu og nokkrum blaðamönnum í opna skjöldu. Það er umhugsunarvert fyrir ríkisstjórnina, í ljósi þess að traust á fjármálakerfið hérlendis er afar lítið. Það litla traust (23 prósent landsmanna segjast treysta fjármálakerfinu) er meðal annars afleiðing af bankahruninu. Upphaf þess var gjörspillt einkavæðing á ríkisbönkum á árunum 2002 og 2003.
Af hverju eru litlir einkafjárfestar í bakpokanum?
Á meðan að ráðamenn óskuðu sjálfum sér til hamingju með góða sölu lágu engar upplýsingar fyrir um hverjir hefðu fengið að kaupa, hvernig þeir hefðu verið valdir eða af hverju nauðsynlegt hefði verið að veita þeim þennan afslátt.
Fyrstu tíðindin komu frá erlendum ráðgjafa Bankasýslunnar sem birti tilkynningu um að 430 hefðu skráð sig fyrir hlutum. Margföld eftirspurn hefði verið í útboðinu. Svo týndist inn púsl í púsluspilið í gegnum tilkynningar í Kauphöll um innherja í Íslandsbanka sem hefðu verið útvaldir og lífeyrissjóði sem flögguðu þegar þeir fóru yfir ákveðin eignarmörk.
Fólk var beðið um að sýna biðlund þangað til að allir væru búnir að borga fyrir hlutina sem þeir keyptu, en það þurfti að gerast fyrir lok dags 28. mars. Svo leið og beið og litlar viðbótarupplýsingar fengust. Hávær orðrómur var um það á markaði að verðbréfafyrirtækin sem valin höfðu verið af Bankasýslunni sem söluráðgjafar án útboðs hefðu hringt í vildarviðskiptavini, og bara venjulega vini, sem þau skilgreindu sjálf sem „fagfjárfesta“ og boðið þeim að vera með. Kjarninn hefur rætt við einstaklinga sem falla sannarlega undir að vera skilgreindir fagfjárfestar sem fengu ekki slík símtöl án sýnilegrar ástæðu.
Enginn vitræn svör hafa enn fengist við þessari spurningu.
Hópur sem kaupir eins og almenningur, nema með afslætti
Listi yfir alla þá sem fengu að kaupa hefur enn ekki verið birtur. Bankasýslan hélt hins vegar kynningu fyrir ráðherranefnd um efnahagsmál, sem í sitja Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Lilja Alfreðsdóttir, á föstudagsmorgun þar sem greint var með ítarlegri hætti frá framkvæmdinni.
Þar kom til að mynda fram að kaupendur voru 209 talsins. Það þýðir að rúmur helmingur þeirra 430 sem skráðu sig fyrir hlut á útboðsgengi fengu að kaupa.
Í kynningunni sagði að innlendir einkafjárfestar hafi fengið að kaupa í Íslandsbanka fyrir 16,1 milljarða króna. Það er 30,6 prósent af öllum þeim hlut sem seldur var í bankanum. Um að ræða 140 aðila. Afsláttur þeirra á bréfum í Íslandsbanka nam 688 milljónum króna. Hluturinn sem þessir 140 aðilar keyptu er í dag samanlagt rúmlega 1,5 milljarði króna meira virði en hann var þegar þeir keyptu hann. Eina upplýsingarnar sem liggja fyrir um hverjir þeir eru koma úr þremur innherjatilkynningum sem birtar voru í Kauphöll Íslands.
Alls 24 þeirra sem tóku þátt fengu að kaupa hlut fyrir tíu milljónir króna eða minna, 35 keyptu fyrir tíu til 30 milljónir króna og 20 keyptu fyrir 30 til 50 milljónir króna. Því liggur fyrir 79 aðilar, rúmlega helmingur allra þátttakenda, keypti fyrir 50 milljónir króna eða minna.
Þetta eru allt fjárfestar sem eru svo litlir að engin ástæða er til þess að gefa þeim afslátt á hlutum í Íslandsbanka. Til eru almennir fjárfestar; venjulegt fólk með umtalsverðan sparnað, arf eða aðrar fjármagnseignir, sem kaupa hlutabréf fyrir þessar upphæðir. Þessi hópur „fagfjárfesta“ bætir engu við gæði eignarhalds Íslandsbanka né dreifingu þess, enda eru hluthafar bankans næstum 16 þúsund. Hópurinn sem keypti fyrir undir 50 milljónir króna er um þriðjungur af einu prósenti allra eigenda.
Voru skertir síðast, og áttu þetta inni
Íslenskir fjárfestar keyptu 85 prósent af hlutnum sem var seldur fyrir samtals 44,8 milljarða króna, en erlendir aðilar 15 prósent fyrir 7,9 milljarða króna. Þar af fengu 23 lífeyrissjóðir að kaupa 37,1 prósent þess sem selt var á 19,5 milljarðar króna. Fyrir liggur að stærstu lífeyrissjóðir landsins vildu kaupa mun meira en þeir fengu úthlutað og hefðu auðveldlega getað tekið þá hluti sem var úthlutað til einkafjárfesta. Alls 15 fjárfestar keyptu fyrir meira en einn milljarð króna og sex keyptu fyrir á bilinu 500 til 1.000 milljónir króna.
Í kynningu Bankasýslunnar í gærmorgun var há hlutdeild einkafjárfesta eingöngu rökstudd með því að áskriftir þeirra hefðu skertar á kostnað almennra fjárfesta í frumútboðinu á hlutum í Íslandsbanka í fyrrasumar. Þeir áttu þetta inni, sagði Bankasýslan.
En hverjir eru þessir útvöldu „fagfjárfestar“? Sem stendur vitum við ekkert um það, fyrir utan þá þrjá sem senda þurfti innherjatilkynningar út af. Einn þeirra keypti fyrir ellefu milljónir. Annar fyrir 27 og sá þriðji fyrir 55.
Þegar fjármála- og efnahagsráðherra var spurður um málið á Alþingi í vikunni sagði hann að Íslandsbanki væri að taka saman hluthafalista. Þegar því væri lokið gætu beinir hluthafar í bankanum þar borið saman hluthafalistann eins og hann stóð fyrir söluna og eins og hann stendur eftir söluna. Nú skulum við muna að hluthafar í Íslandsbanka eru hátt í 16 þúsund.
Bjarni sagðist enn fremur hafa „sent Bankasýslunni bréf í því skyni að fá endanlegan lista yfir úthlutun Bankasýslunnar. Í anda gagnsæis á öllum stigum málsins standa væntingar mínar til þess að þessi gögn öll verði hægt að gera opinber nema lög standi því í vegi.“
Enginn vill svara
Kjarninn leitaði eftir því að fá hluthafalistana hjá Íslandsbanka. Í svari sem barst í gær var því hafnað að afhenda þá og sagt að stjórnendur bankans treysti sér ekki til þess að birta upplýsingar um hluthafa umfram það sem mælt er fyrir í lögum. Þau lög sem vísað var til í svarinu eru lög um fjármálafyrirtæki, sem bankann til að upplýsa um alla sem eiga eitt prósent eða meira í honum, og lög um ársreikninga, sem skylda fyrirtæki til að birta upplýsingar um að minnsta kosti tíu stærstu hluthafa félagsins í skýrslu stjórnar í ársreikningi. Íslandsbanki benti á Bankasýsluna til sem seljanda varðandi frekari birtingar á kaupendum.
Kjarninn ákvað líka að leita til Persónuverndar til að sjá hvort eitthvað í persónuverndarlögum kæmi í veg fyrir að upplýsingar um þá sem fengu að kaupa í ríkisbanka yrðu birtar. Í svari stofnunarinnar sagði að áður en Bankasýslan ákveði að birta persónuupplýsingar þurfi hún að meta hvort slík birting samrýmist persónuverndarlögum. „Persónuvernd hefur ekki þær upplýsingar sem þarf til að geta svarað með nákvæmari hætti á þessari stundu.“
Ekkert traustvekjandi við framkvæmdina né svörin
Áður en ráðist var í síðari einkavæðingu íslenskt bankakerfis var skipaður starfshópur sem vann Hvítbók um framtíð íslensks fjármálakerfis. Hún átti að vera leiðarvísir um hvernig ætti að selja banka og hverju það ætti að áorka. Sá sem stýrði þeirri vinnu er stjórnarformaður Bankasýslu ríkisins og trúnaðarmaður fjármála- og efnahagsráðherra, Lárus Blöndal.
Í Hvítbókinni er meðal annars fjallað um eignarhald í bankakerfinu. Þar segir: „Heilbrigt eignarhald er mikilvæg forsenda þess að bankakerfi haldist traust um langa framtíð. Í því felst að eigendur banka séu traustir, hafi umfangsmikla reynslu og þekkingu á starfsemi banka og fjárhagslega burði til að standa á bak við bankann þegar á móti blæs. Mikilvægt er að eigendur hafi langtímasjónarmið að leiðarljósi.“
Það þarf ansi skapandi hugsun til að fella þá 59 einkafagfjárfesta sem voru handvaldir til að kaupa fyrir minna en 30 milljónir króna í Íslandsbanka fyrir tæpum tveimur vikum síðan, undir ofangreinda skilgreiningu.
Vegna sögunnar var gríðarlega nauðsynlegt að traust myndi ríkja um sölu á hlutum ríkisins í bönkum. Það er hins vegar ekki traustvekjandi að fyrirkomulag síðustu sölu hafi komið meginþorra þjóðarinnar í opna skjöldu. Það er ekki traustvekjandi þegar ríkisstofnun ákveður að handvelja nokkur verðbréfafyrirtæki til að selja hluti í banka á nokkrum klukkutímum. Það er ekki traustvekjandi þegar þau verðbréfafyrirtæki handvelja svo hóp einstaklinga sem þau skilgreina sem „fagfjárfesta“ til að taka þátt í lokuðu útboði þar sem hlutir í ríkisfyrirtæki bjóðast með afslætti. Það er ekki traustvekjandi þegar ábyrgðaraðilar sölunnar neita að upplýsa um hverjir það voru sem mynduðu hópinn. Og það er ekki traustvekjandi þegar þeir geta ekki útskýrt með vitrænu móti af hverju hringt var í suma til að kaupa umfram aðra.
Skortur á vilja til að upplýsa
Almenningur átti þennan hlut í Íslandsbanka sem var seldur. Hann á stærstan eftirstandandi eignarhlut í bankanum. Hann á að fá að vita allt um söluferlið. Hverjir fengu að kaupa og af hverju þeir voru valdir. Aðeins þá, ef engin spilling birtist, er hægt að treysta því að framkvæmdin hafi verið í lagi.
Formaður fjárlaganefndar, stjórnarþingmaðurinn Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir, sagði á þingi í vikunni að ýta yrði af fullum þunga eftir því að listinn yfir alla sem fengu að kaupa í Íslandsbanka yrði birtur. „Ég vona svo sannarlega að það sé ekkert innan kerfisins sem stoppar okkur.“
Kerfið sem Bjarkey nefnir er mannanna verk. Kerfi segja ekki nei, heldur fólkið sem stýrir þeim.
Ef kerfið stendur í vegi fyrir því að við fáum að vita hvernig farið var með okkar eign, þá breytum við einfaldlega kerfinu. Það er nefnilega enginn pólitískur ómöguleiki til staðar. Bara skortur á vilja til að segja almenningi frá því hverjir fengu að kaupa í bankanum hans með afslætti.