Kjarninn fjallaði um skekkjur í hagvaxtarspám í grein sem birtist 26. febrúar sl. undir fyrirsögninni „Hagvaxtarspár Seðlabankans og Hagstofu Íslands nær alltaf rangar“. Í greininni segir að spá Seðlabankans um hagvöxt ársins 2006 uppá 4,2% hafi verið eina spá bankans sem hafi reynst rétt upp á einn aukastaf. Allar aðrar spár um hagvöxt á tímabilinu frá árinu 2000 til ársins 2013 hafi verið rangar miðað við þessa nákvæmni.
Ásgeir Daníelsson, forstöðumaður Rannsóknar- og spádeildar, Hagfræði- og peningastefnusviðs Seðlabanka Íslands. Þær skoðanir sem koma fram í þessari grein eru höfundar.
Þessi aðferð við að mæla gæði hagspáa er nokkuð óvenjuleg en látum það vera. Eitt af því mikilvægasta en jafnframt erfiðasta við kynningu á hagspám er að útskýra óvissuna í þeim. Stundum verða viðbrögðin við slíkum útskýringum eitthvað á þessa leið: „Ég heyri það vinur að þú veist bara ekkert um þetta.“ Fræg eru ummæli Harry Trumans fyrrverandi forseta Bandaríkjanna sem bað um einhentan hagfræðing af því að hann var þreyttur á að hlusta á hagfræðinga ræða um að „on the one hand“ gæti þetta gerst en „on the other hand“ eitthvað annað. Þótt óvissa sé í spám – og oft mikilvægt að gera sér grein fyrir því hversu mikil hún er og fjalla sérstaklega um tiltekna fráviksmöguleika sem eru taldir líklegir – minnkar það ekki mikilvægi þeirra upplýsinga sem felast í (grunn)spánum.
Spár um hagvöxt á árinu 2006
Saga skekkjunnar í spánni um hagvöxt ársins 2006 er gott dæmi um þá spennu sem fylgir starfi þjóðhagsspámanna. Eins og segir í greininni í Kjarnanum spáði Seðlabankinn í fyrsta hefti Peningamála ársins 2006 sem kom út í mars það ár að hagvöxtur ársins yrði 4,2%. Fyrsta opinbera tala Hagstofunnar um hagvöxt ársins birtist í mars árið 2007 og hljóðaði upp á 2,6% sem þýddi að bankinn hafði ofspáð hagvextinum um 1,6 prósentur. Seinna hækkaði Hagstofan matið á hagvextinum og frá árinu 2011 var mat hennar að hagvöxtur ársins 2006 hefði verið 4,7% sem þýddi að Seðlabankinn hafði vanspáð hagvexti ársins um 0,5 prósentur. Þannig var staðan þangað til 19. september 2014 þegar Hagstofan birti endurskoðaðar tölur um hagvöxt frá árinu 1998 en þá kom í ljós að hagvöxtur ársins 2006 var 4,2% og – bingó! – spáin frá því í mars 2006 reyndist rétt upp á einn aukastaf!
Fyrir nokkrum vikum var danski hagfræðingurinn Lars Christensen í viðtali í ríkissjónvarpinu. Þar var honum lýst sem manninum sem spáði á árinu 2006 fyrir um kreppuna haustið 2008. Vorið 2006 kom Christensen til Íslands og kynnti nýlega skýrslu Danske Bank um íslenskt efnahagslíf á frægum fundi á Grand Hotel. Í þessari skýrslu er talið líklegt að efnahagssamdráttur upp á 5-10% verði á Íslandi á næstu tveim árum. Á fundinum veifaði Christensen eintaki af Peningamálum Seðlabankans og sagði að þar væri svipuð spá. Þótt báðir aðilar spáðu að hagvöxtur mundi minnka spáði hvorugur því að allir þrír stóru íslensku bankarnir myndu falla. Ef því hefði verið bætt við spárnar hefðu þær orðið mun dekkri en þær voru.
Yfirlýst markmið þessa fræðsluefnis er mjög virðingarvert, að fræða íslenskan almenning um fjármál. Margt er þarna mjög vel gert en einhvern veginn hefur það æxlast svo að mörg lykilhugtök í hagfræði eru ranglega útskýrð
Árin 2004-2006 voru góð ár í íslensku efnahagslífi. Hagvöxturinn var 8,2% árið 2004, 6,0% árið 2005 og 4,2% árið 2006, allt skv. nýjustu tölum Hagstofunnar. Atvinnuleysi var mjög lítið en verðbólgan skaust uppá við á árinu 2006 í kjölfar lækkunar gengisins. Hvort sem menn horfðu til þess að ólíklegt er að efnahagslíf þróaðs hagkerfis vaxi á þessum hraða í mörg ár í röð eða höfðu áhyggjur af afleiðingum ofþenslu, t.d. verðbólgu, og vildu að stjórnvöld beittu stjórntækjum sínum til að draga úr henni, var eðlilegt að búast við því að hagvöxtur minnkaði. En hagvöxtur ársins 2007 kom mörgum spámönnum óþægilega á óvart en þau óþægindi komu í áföngum. Í mars á árinu 2007 spáði Seðlabankinn 0,8% vexti. Í mars 2008 þegar Hagstofan birti fyrstu tölur um hagvöxt ársins upp á 3,8% leit þessi spá ekkert afleitlega út þótt hún væri kannski ekki beinlínis góð. Fljótlega hækkaði Hagstofan matið á hagvexti ársins 2007 og var hann talinn 6,0% á árunum 2010-2013 en í endurskoðuninni sem birt var 19. september sl. var hagvöxtur ársins orðinn 9,7% og skekkjan í spá Seðlabankans 8,9 prósentur sem er auðvitað afleitt.
Mismunandi aðferðir við að mæla hagvöxt
Neðst í greininni í Kjarnanum er vísað í fræðsluefni um hugtökin landsframleiðsla og hagvöxt en þetta efni er hluti af fræðsluefni sem upphaflega birtist í ríkissjónvarpinu undir yfirskriftinni „Ferð til fjár“ en Kjarninn hefur birt úrdrætti úr þessum þáttum. Yfirlýst markmið þessa fræðsluefnis er mjög virðingarvert, að fræða íslenskan almenning um fjármál. Margt er þarna mjög vel gert en einhvern veginn hefur það æxlast svo að mörg lykilhugtök í hagfræði eru ranglega útskýrð, m.a.s. var virtur og alvörugefinn sjónvarpsmaður látinn lesa upp ranga skilgreiningu á viðskiptajöfnuði og fara rangt með samhengi viðskiptajafnaðar við skuldastöðu þjóðarbúsins í þætti sem sýndur var á RÚV 22. janúar sl. Í þættinum sem vísað er til í greininni í Kjarnanum um spárnar er engin alvarleg villa en þó gleymist ein aðferð við að mæla landsframleiðslu. Hægt er að mæla landsframleiðslu á þrenna vegu: Það er hægt að mæla hvernig fólk og fyrirtæki ráðstafar peningum sínum til kaupa á nýframleiddum vörum og þjónustu (ráðstöfunaruppgjör); það er hægt að mæla virðisaukann í öllum fyrirtækjum landsins (framleiðsluuppgjör) og það er hægt að mæla tekjur af framleiðslunni í formi launa, vaxta, hagnaðar og leigu (tekjuskiptingaruppgjör). Ef allt er rétt reiknað og allar upplýsingar sem byggt er á réttar eiga þessar þrjár aðferðir að gefa nákvæmlega sömu niðurstöðu.
En þannig er þetta ekki í reynd, hvorki hér á landi eða í útlöndum. Hagstofan birti í fyrsta sinn tekjuskiptingaruppgjör í nóvember sl. en útreikningur á landsframleiðslunni byggir enn á útreikningum frá ráðstöfunarhlið og frá framleiðsluhlið. Sú var tíðin að Þjóðhagsstofnun, sem sá um þjóðhagsreikninga þangað til hún var lögð niður árið 2002 og Hagstofan tók þetta verkefni yfir, birti sérstaklega það sem kom út úr uppgjöri á þjóðhagsreikningum frá framleiðsluhlið jafnframt útkomunni sem fékkst frá ráðstöfunarhlið. Mismunur á mælingum landsframleiðslunnar frá ráðstöfunarhlið og frá framleiðsluhlið var sýndur í töflum og nefndur „mismunur uppgjörsaðferða“. Stærstur var þessi mismunur árið 1990 þegar hann var 8,0% af landsframleiðslu skv. ráðstöfunaruppgjöri og árið 1983 þegar hann var 7,9%. Lægsta gildið var einnig árið 1990 þegar landsframleiðsla skv. framleiðsluuppgjöri var reiknuð aftur skv. nýjum grunni. Frá árinu 1998 hefur Þjóðhagsstofnun/Hagstofa ekki birt niðurstöður framleiðsluuppgjörs og ráðstöfunaruppgjörs sérstaklega en tölunum er hagrætt þannig að útkoman sé sem næst því sem talið er að sé rétta gildið. Hagstofur annarra landa nota flestar þessa aðferð og nýta þannig upplýsingar úr öllum þrem aðferðunum til að mæla landsframleiðsluna. Stundum er reiknað út meðaltal en oftast er reynt að leggja mat á áreiðanleika þessara mismunandi upplýsinga og endanlegt gildi á landsframleiðslu og hagvexti fundið út frá því.
Sum atriði í vinnslu þjóðhagsspáa er auðvelt að sjá fyrir. Önnur eru erfiðari viðfangs. Fyrir nokkrum vikum var t.d. ákveðið að auka loðnukvótann á yfirstandandi vertíð um 320 þús. tonn. Áhrif þess á landsframleiðslu þessa árs eru sennilega á bilinu ½ – 1%.
Eitt sinn var hér nefnd að störfum sem hafði það verkefni að kanna undanskot undan skatti og notaði hún mismun uppgjörsaðferða til að mæla umfang slíkra undanskota. Gert var ráð fyrir að ráðstöfunaruppgjörið mældi landsframleiðsluna rétt en að í framleiðsluuppgjörið vantaði virðisaukann hjá þeim sem störfuðu svart. Þótt hugmyndin að baki þessari áætlun sé ekki alveg út í hött er sennilegt að mismunur uppgjörsaðferða sé lélegur mælikvarði á umfang undanskota undan skatti. Hins vegar gefur umfang hans og breytileiki vísbendingar um óvissuna í mælingum á landsframleiðslu.
Mikilvægi þess að greina spáskekkjur
Greining á skekkjum í spám er mjög mikilvæg. Þess vegna birtir Seðlabankinn reglulega yfirlit yfir skekkjur í spám bankans. Nokkur undanfarin ár hefur umfjöllunin um skekkjur í spánum birst í síðasta hefti Peningamála hvers árs, síðast í Peningamálum 2014-4 þar sem fjallað var um skekkjur í spám bankans á árinu 2013. Í töflu 4 kemur fram að bankinn vanspáði hagvextinum á árinu 2013 í öllum heftum Peningamála sem gefin voru út á árinu 2013 og í fyrsta heftinu sem gefið var út á árinu 2014. Þegar þetta hefti var gefið út lágu fyrir fyrstu tölur Hagstofunnar um landsframleiðslu þriggja fyrstu fjórðunga ársins 2013. Meðalspáskekkjan í þessum fimm spám var 1,3 prósentur og skekkjan í fyrstu spánni var 1,4 prósentur.
Sum atriði í vinnslu þjóðhagsspáa er auðvelt að sjá fyrir. Önnur eru erfiðari viðfangs. Fyrir nokkrum vikum var t.d. ákveðið að auka loðnukvótann á yfirstandandi vertíð um 320 þús. tonn. Áhrif þess á landsframleiðslu þessa árs eru sennilega á bilinu ½ - 1%. Verð á olíu hefur lækkað mikið undanfarna mánuði með verulegum áhrifum á verðbólgu og viðskiptajöfnuð. Þegar metin er óvissa í spám um hagvöxt hér á landi er skekkja upp á 1 prósentu ekki stór stærð. Sennilega er óvissa í mælingum Hagstofunnar á hagvexti líka minnst 1 prósenta. Þegar óvissan er þetta mikil er óvarlegt að gefa mælingar og spár upp með aukastöfum. Þegar Hagstofan gaf út fyrstu tölu sína um hagvöxt ársins 2007 upp á 3,8% gefur hún til kynna að nákvæmnin í mælingunni sé 0,1 prósenta, þ.e. að rétta talan liggi á bilinu 3,75-3,85%. Afrúningur yfir á næstu heilu tölu, 4% í þessu tilfelli, væri nær lagi, en það gæfi til kynna að nákvæmnin í mælingunni væri upp á 1 prósentu. Það sama gildir um spár um hagvöxt. Með þessu er ég ekki að leggja til að Hagstofan hætti að birta tölur um hagvöxt upp á einn aukastaf eða að Seðlabankinn hætti að birta spár þar sem spáin um hagvöxt er tilgreind með einum aukastaf. Það eru alþjóðlegar hefðir í þessum málum sem erfitt er að brjóta gegn og landsframleiðslan er ekki bara hagfræðilegt hugtak heldur hluti af framtali sem framlög ríkisins til alþjóðastofnana tekur mið af. Hins vegar er rétt að hafa þessa stærð á óvissunni í huga við lestur hagtalna og hagspáa. Munurinn á spá upp á 3,2% og annarri upp á 3,3%, eða jafnvel uppá 3,6% er innan allra eðlilegra skekkjumarka, alla vega hér á landi og sennilega í mörgum öðrum ríkjum einnig.