Það er mikið rætt um þá hættu sem steðjar að málinu okkar. Hvert og eitt getum við hæglega lagt okkar af mörkum til að varðveita þessa gersemi.
Frumlegir menn hafa bent á hve margt sé til dæmis líkt með Facebook og sveitasímanum okkar gamla og mælt með að kalla þessa víðlesnu bók því góða nafni. Fyrir þá yngri sem ekki átta sig á töfrum sveitasímans vil ég útskýra að hann var þeim kostum búinn að hver bær hafði sína hringingu, ýmist stutta eða langa, og mismargar.
Þar sem ég var í sveit voru hringingarnar þrjár stuttar. Ef þannig hringdi var mér sagt að þá, og aðeins þá, ætti ég að taka upp tólið og gæta þess alltaf að tala ekki af mér—væla til dæmis ekki yfir nokkrum hlut ef foreldrar mínir hringdu eða masa um hluti sem engum komu við. Síminn væri þeirri náttúru gæddur að öll sveitin væri þess megnug að hlusta á samtalið ef henni þóknaðist.
Sími þessi var svo stór hluti af þjóðarsálinni að um hann var ort og Haukur Morthens söng um það hvernig upp komst um einkamál kaupakonunnar hans Gísla í Gröf, því:
„Öll sveitin í háspennu hlerar
ef hringt er að Gröf síðla dags
og Jói eða Jón heyrist hvísla:
Kem í jeppanum eftir þér strax!“
Notendur nútímasveitasímans ættu að hafa þetta í huga þegar þeir líma athugasemdir á síður sínar. Við hlerum öll í háspennu og því best að láta ekkert flakka sem sveitinni kemur ekki við.
En það er ekki nóg með að við hlerum. Ástæðan til þess að við tökum upp sveitasímann er einnig sú að við þráum athygli og sækjumst eftir atkvæðum, sem flestir kalla læk. Þetta er hálfklúðurslegt orð, því að gefa læk eða læka minnir á karlkynsorðið læk og þar af leiðandi vatnselg. Það er eins og við séum að skvetta kaldri gusu hvert á annað í hrifningu okkar.
Orðsnjall maður hefur bent á að nær sé að vísa til þess að okkur líki við það sem skrifað er og gefa því lík. Hann benti Gyrði Elíassyni á þetta, sem umsvifalaust áttaði sig á að sjúkdómur sá sem hrjáir okkur er einfaldlega líkþrá. Við gjóum sífellt augunum í átt að farsímanum eða tölvunni í óslökkvandi þrá um fleiri lík. Í hvert skipti sem við líkin bætist fara hormón af stað í höfði okkar sem valda sæluvímu, en skortur á líkum veldur, samkvæmt nýjustu rannsóknum, bæði ugg og kvíða. Þetta er nútímafarsótt sem hlífir engum.
Leggjum okkar af mörkum. Tökum upp sveitasímann, gefum líkum líf og þjáningu okkar nafn sem henni sæmir.
Höfundur er skáld og höfundur bókarinnar: News Muse: Humorous Poems Inspired by Strange News.