Ragnar Þór Pétursson kennari skrifaði pistil sem birtur var í Kjarnanum á baráttudegi verkalýðsins, 1. maí, undir fyrirsögninni „Eru kennarar mjólk?“. Þannig háttar til að ég les iðulega það sem Ragnar skrifar og er honum oft sammála. Þetta er í fyrsta skipti sem ég svara skrifum hans og ég hefði gjarnan viljað að það væri vegna þess að ég væri honum enn einu sinni sammála – en því miður er ekki svo.
Í pistli sínum leggur Ragnar Þór út frá grein í Skólavörðu Kennarasambands Íslands (KÍ) þar sem fjallað er um erindi Gunnars Steins Pálssonar almannatengils á nýafstöðnum ársfundi KÍ um ímynd kennara. Ragnari Þór finnst erindið greinilega frekar asnalegt, auk þess sem hann gefur í skyn að Gunnar Steinn sé ómerkilegur pappír, maður sem aðallega hafi unnið fyrir útrásarvíkinga. Sem hann gerði örugglega. Það var hinsvegar ekki ástæðan fyrir því að Kennarasambandið valdi að fá hann til að halda erindi, heldur sú staðreynd að hann hefur í gegnum tíðina margoft verið fenginn til að vinna fyrir stéttarfélög við allskonar aðstæður. Þekking hans er því umtalsverð eins og innlegg hans á ársfundi KÍ (sem Ragnar Þór sat ekki) sýndi glögglega.
Kjaramál kennara tíu ára hringavitleysa
Ragnar Þór rekur í grein sinni hvernig kjaramál kennara fari stöðugt í hringi. Þar nefnir hann raunar aðeins kjarabaráttu grunnskólakennara þrátt fyrir að innan KÍ séu kennarar á fleiri skólastigum, en látum það liggja milli hluta. Í stuttu máli er þetta myndin sem teiknuð er upp: Á tíu ára fresti gera forsvarsmenn grunnskólakennara afspyrnu vonda kjarasamninga, fara síðan að huga að ímynd rétt áður en þeir hlaða í átök til að vinda ofan af vitleysunni og leiðrétta vondu kjarasamningana með tilheyrandi verkföllum og átökum. Eftir það eru hlutirnir væntanlega í lagi um hríð þar til hringnum er náð og sagan endurtekur sig. Ragnar hefur ekki legið á þeirri skoðun sinni að undanförnu að honum finnast nýjustu kjarasamningar grunnskólakennara ekki góðir. Ég er ósammála honum en virði að sjálfsögðu skoðun hans. Þegar samið er fyrir fjölmennar stéttir er ólíklegt að niðurstaða náist sem allir eru fullkomlega sáttir við. Ég minni hins vegar á að yfirgnæfandi meirihluti kennara samþykkti nýjan kjarasamning grunnskólakennara og lagði þannig blessun sína yfir hann. Samningarnir geta því ekki verið alslæmir.
Ímynd skiptir máli, hana þarf alltaf að hafa í huga og stöðugt þarf að hlúa að henni.
Varðandi ímynd kennara þá er ekki rétt að KÍ hugi aðeins að henni á vissum afmörkuðum tímabilum. Í Kennarahúsinu er þvert á móti stöðugt rætt um þau mál þó umræðan sé mismikið uppi á borðinu. Hann nefnir ímyndarátak Félags grunnskólakennara árið 2007 sem dæmi og gerir að því skóna að það hafi verið misheppnað og illa ígrundað. Slíkt eigi ekki að endurtaka, enda hafi ímyndarátök engin áhrif. Þar ætla ég að leyfa mér að mótmæla. Ímynd skiptir máli, hana þarf alltaf að hafa í huga og stöðugt þarf að hlúa að henni. En það er rétt – ímynd verður ekki til í einu stuttu átaksverkefni eða með einhverju áhlaupi. Hana þarf að skapa yfir langan tíma og með stöðugri vinnu. Það þarf að hlúa að ímynd kennara með því að upplýsa almenning um hvað stéttin er að fást við dags daglega og það gera engir aðrir en kennarar sjálfir.
Um það fjallaði einmitt ársfundur Kennarasambandsins, því eftir erindi Gunnars Páls tóku við vinnustofur sem um 100 fulltrúar fundarins tóku þátt. Þar var hver einasti ársfundarfulltrúi hvattur til að skrifa greinar, blogga, kommenta á Facebook, tísta og nota allar mögulegar aðferðir til að upplýsa um þau fjölbreyttu verkefni sem kennarar takast á við í starfi sínu. Einnig voru fundargestir hvattir til að virkja aðra kennara til að gera slíkt hið sama. Sem er ekkert annað en það sem Ragnar Þór gerir reglulega – skrifa og vekja athygli á málefnum kennara. Á uppbyggilegan og jákvæðan hátt. Með því eykst skilningur á kennslu og öðrum verkefnum kennara. Og í framhaldi eykst vonandi áhugi ungs fólk að leggja kennslu fyrir sig sem og skilningur á að það þarf að greiða kennurum sanngjörn (og þá hærri) laun fyrir vinnu sína. Um það snerist ársfundur Kennarasambandsins.
Hálfur milljarður í ímyndarmál?
En ímynd einstakra stétta hefur líka bein áhrif þegar kemur að því að semja um kaup og kjör. Tökum lækna sem dæmi sem náðu að semja um verulegar kjarabætur í vetur. Ein ástæðan fyrir því að barátta þeirra gekk upp var að almenningur var sammála að borga þyrfti læknum hærri laun. Við það skapaðist þrýstingur sem læknar nýttu sér meðal annars með því að ráða ímyndarsérfræðing (Gunnar Stein) til að vinna fyrir sig. Á svipuðum tíma reyndu flugmenn og starfsmenn á Herjólfi að sækja með átökum hærri laun. Báðar deilur enduðu með lagasetningu sem fáir settu sig upp á móti enda var engin stemmning í samfélaginu fyrir því að laun þessara hópa hækkuðu (hvort sem kröfur þeirra áttu rétt á sér eða ekki). Þrýstingur almennings hefur því áhrif, þvert á það sem Ragnar Þór fullyrðir. Þau áhrif ná langt út fyrir samningaborðið í húsnæði Ríkissáttasemjara.
Staðreyndin er að Gunnar Steinn hefur ekki verið ráðinn af Kennarasambandinu í neitt slíkt verkefni. Hann þáði ekki einu sinni greiðslu fyrir umrætt erindi sitt á ársfundinum.
Í greininni í Skólavörðunni er haft eftir Gunnari Stein að ein leið til að fara í ímyndarátak sé að stofna þriggja manna nefnd sem hefði skýrt umboð og algert sjálfstæði til að vinna að málinu. Sú nefnd þyrfti um 50 milljónir á ári næstu 10 árin til að vinna með. Í tengslum við það gefur Ragnar í skyn að KÍ hafi nú ákveðið að fela umdeildasta spunameistara landsins stjórn á slíku verkefni og moka í hann alls 500 milljónum á næstu tíu árum. Ekkert gæti verið fjarri sanni. Staðreyndin er að Gunnar Steinn hefur ekki verið ráðinn af Kennarasambandinu í neitt slíkt verkefni. Hann þáði ekki einu sinni greiðslu fyrir umrætt erindi sitt á ársfundinum. Hann var fenginn til að halda erindið til að vekja ársfundarfulltrúa og kennara almennt til umhugsunar og umræðu. Það er ekki annað að sjá en að það markmið hafi náðist – Kennarasambandinu að kostnaðarlausu.
Höfundur er útgáfu- og kynningarstjóri Kennarasambands Íslands.