Að kröfu Landsvirkjunar er gervi-kosturinn Kjalölduveita settur í biðflokk 3. áfanga rammaáætlunar þrátt fyrir að Þjórsárver, svæðið vestan Þjórsár og niður að efstu fossum í ánni sé í verndarflokki samkvæmt ályktun Alþingis um 2. áfanga. Ekki síst fyrir harðfylgi Vinstri grænna.
Verkefnisstjórn 3. áfanga rammaáætlunar hafnaði því að taka fyrir Kjalölduveitu. Landsvirkjun ásakaði þá verkefnisstjórnina um lögbrot. Umhverfisráðuneytið hafnar þessum ásökunum Landsvirkjunar. Ráðuneytið segir:
„Í ljósi ofangreinds og fyrirliggjandi gagna getur ráðuneytið ekki tekið undir þá afstöðu Landsvirkjunar að ákvörðun verkefnisstjórnar hvað varðar Kjalölduveitu hafi verið ólögmæt. Eins og sjá má í bréfum faghópa til verkefnissjórnar, dags. 6. og 8. maí 2015, tóku báðir faghóparnir virkjunarkostinn til umfjöllunar, mátu hann skv. viðurkenndri og vel skilgreindri aðferðafræði og skiluðu rökstuddri niðurstöðu. Því telur URN [umhverfisráðuneytið] fullyrðingar Landsvirkjunar um að virkjunarkosturinn Kjalölduveita hafi ekki fengið „ lögmæta umfjöllun faghópa“ ekki standast skoðun. Þar af leiðir að fullyrðingar um að verkefnisstjórn hafi ákveðið „einhliða að ekki skildi fjallað um virkjunarkostinn Kjalölduveitu“ og að honum hafi verið „raðað beint í verndarflokk án umfjöllunar faghópa“ eru einnig rangar. Að mati ráðuneytisins hlaut virkjunarkosturinn fullnægjandi umfjöllun faghópa sbr. áðurnefnt bréf formanna faghópa þar sem umfjöllun þeirra og niðurstöðum varðandi virkjunarkostinn er lýst.“
Málflutningur Landsvirkjunar síðustu misserin gegn rammaáætlun hefur öðru fremur einkennst af rógburði.
Varúðarreglunni snúið á hvolf
Samkvæmt tillögu meirihluta umhverfis- og samgöngunefndar verða Héraðsvötn færð úr verndarflokki í biðflokk.
Í meirihlutaáliti umhverfis- og samgöngunefndar segir um Héraðsvötn:
„Við umfjöllun nefndarinnar um framkomna tillögu til þingsályktunar hefur verið bent á þörf á endurmati verkefnisstjórnar á þessum kostum og því landssvæði sem þeir tilheyra. Þau sjónarmið komu fram fyrir nefndinni að mikil neikvæð áhrif fyrirhugaðra virkjana í Héraðsvötnum í Skagafirði á vistgerðir með verulega hátt verndargildi, og þá sérstaklega flæðiengjar, kunni að vera ofmetið.“
Hér er varúðarreglunni snúið á hvolf. Verktakinn skal njóta vafans vegna „framkominna sjónarmiða í nefndinni.“ Þessi vinnubrögð vill nú VG gera að sínum.
Afstaða VG
Í almennum stjórnmálaumræðum á Alþingi 8. júní sl. sagði Orri Páll Jóhannsson, fulltrúi VG í umhverfis- og samgöngunefnd: „Sátt verður að ríkja um nýjar virkjanir til að byggja upp grænt og kolefnishlutlaust samfélag. Mestu skiptir að það verðir gert af varfærni gagnvart viðkvæmri náttúru landsins.“ Finnur Ingólfsson hefði ekki getað orðað það betur.
Um rammaáætlun
Rétt fyrir síðustu aldamót kynnti Finnur Ingólfsson, þv. iðnaðarráðherra, rammaáætlun til sögunnar. Fullyrt var að héðan í frá yrðu allir virkjunarkostir metnir á gullvog. Unnið yrði mjög faglega, en allir vissu hvað málið snérist um: Fyrst klárum við Kárahnjúkavirkjun.
Nú eru skilaboðin þessi: Fyrst klárum við Kjalölduveitu.
Ástæða er til að benda á skýrslu sem gerð var af að beiðni forsætisráðherra, Katrínar Jakobsdóttur, um „eflingu trausts á stjórnmálum og stjórnsýslu“ dags. 5. september 2018. Vinnubrögð stjórnvalda við afgreiðslu rammaáætlunar nú eru síst til þess fallin að efla traust.
Höfundur er formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands.