Fyrir rúmu ári síðan skrifaði ég grein um mikilvægi þess að komast í gegnum Covid krísuna án þess að eftir standi gjaldeyrishöft og sviðin jörð vafasamra viðskiptahátta, markaðsmisnotkunarmála og innherjasvika. Sýna í verki að fjármálamarkaðurinn eigi traust skilið, sem væri forsenda fyrir því að markaðurinn gæti sinnt grunnhlutverki sínu og hjálpað til við að koma okkur upp úr þessari krísu. Með öðrum orðum: Ekkert rugl.
Það er ekki tímabært að hrósa sigri á þessari vegferð, en sl. ár hefur aftur á móti fyllt mig bjartsýni og trú að við séum á réttri leið. Ört vaxandi þátttaka almennings í hlutabréfaviðskiptum, sem kom síðast fram í því að 24 þúsund aðilar skráðu sig fyrir hlut í Íslandsbanka í nýafstöðnu hlutafjárútboði, sýnir að fólk er byrjað að treysta aftur.
Mikil þátttaka erlendra fjárfesta í útboðinu, þrátt fyrir að bankinn sé einungis skráður á hlutabréfamarkað hér á landi, er sömuleiðis mikil traustsyfirlýsing. Traust til bankakerfisins heldur einnig áfram hækka, úr 21 í upphafi árs 2020 í 26 í upphafi þessa árs, skv. könnun Gallup á trausti til stofnana.
Það er stundum talað um að spyrja að leikslokum. En það eru engin leikslok á markaðnum, sem á að vera framsýnn og byggja á væntingum og framtíðarhorfum um alla ókomna tíð. Við þurfum því að standa undir þessu trausti og halda áfram að styrkja það. Við munum seint sjá eftir slíkum áherslum.
Vextir eru lágir, fjármagn til reiðu og hlutabréfaverð fer hækkandi. Fjárfestar hafa jafnvel kvartað undan skorti á fjárfestingarkostum. Á sama tíma er atvinnuleysi sögulega hátt og víða virðast fyrirtæki skorta fjármagn. Lausnin hljómar e.t.v. einföld, að koma fjármagninu til þeirra fyrirtækja sem vantar fjármagn svo þau geti ráðið fólk, vaxið og dafnað.
Það hefur verið gaman að sjá fyrirtæki eins og PLAY og Solid Clouds taka ákvörðun um að fara á First North vaxtarmarkaðinn til að fjármagna framtíðaráætlanir sínar. Fyrirtæki sem eru til í að leggja spilin á borðið og bjóða fólki að taka þátt í vegferðinni með sér. Ég vona eindregið að fleiri fyrirtæki íhugi þessa leið á komandi misserum (en er vissulega ekki hlutlaus í þeim efnum).
Nú þegar þorri þjóðarinnar er orðinn bólusettur erum við í dauðafæri til að snúa vörn í sókn. Spýta í lófana, koma fjármagninu „í vinnu“, eins og stundum er sagt, en passa upp á að vanda okkur og gera þetta þannig að fleiri njóti ágóðans ef vel gengur. Með öðrum orðum: Áfram gakk og ekkert rugl!
Höfundur er viðskiptastjóri hjá Nasdaq Iceland.