Í dag tilkynnti Bjarni Benediktsson, formaður flokks okkar Sjálfstæðismanna, að Ólöf Nordal verði nýr innanríkisráðherra. Þessi ákvörðun hans hefur tvennskonar tíðindi í för með sér.
Í fyrsta lagi….
Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.
Í fyrsta lagi endurheimtum við Sjálfstæðismenn með þessu einn af öflugri einstaklingum síðari ára í stjórnmálum hér á landi. Ólöf er um leið vel gerð, greind og góð manneskja með kjarngóða reynslu sem nýtist henni vel í störfum. Innkoma hennar í stjórnmál og flokksstarf mun án efa styrkja ríkisstjórn og verða happadrjúgt fyrir land og þjóð.
Hitt….
Hitt sem er að mínu mati ekki síðri tíðindi er að Bjarni Benediktsson sýnir með þessu að hann er löngu orðinn alvöru formaður sem hlustar á rök en tekur sjálfstæðar og kjarkaðar ákvarðanir. Með þessu sýnir hann víðsýni og einurð. Tekur hag heildarinnar fram yfir ákvarðanir sem tímabundið kunna að vera "auðveldari" og nærtækari. Atlögur að honum og deilur um hann innan flokks er löngu orðin gömul saga og útskýrist öðru fremur af þeirri ólgu sem fylgdi þeim tíðaranda sem var þegar hann tók við sem formaður.
Að lokum….
Það er ekki hægt annað en að brosa út í annað yfir tilraunum til að útmála þessa ákvörðun Bjarna sem vantraust á þingflokkinn. Hjá þingmönnum Sjálfstæðisflokksins er eðlilegur og heilbrigður metnaður til að vinna hugsjónum sínum brautargengi. Auðvitað eiga flestir þingmenn það sameiginlegt að vilja verða ráðherrar. Skárra væri það. Því skal þó til haga haldið að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins er öflug liðsheild þar sem ólíkir einstaklingar með margskonar hæfileika koma saman til að vinna að víðsýnni og þjóðlegri umbótastefnu á grundvelli einstaklingsfrelsis og atvinnufrelsis með hagsmuni allra stétta fyrir augum. Þingmenn þekkja það öðrum betur að þessi markmiði eru æðri einsaklingsmetnaði. Að bæta á ný öflugum liðsmanni eins og Ólöfu inn í þessa baráttu er öllum til góða. Það styrkir þá liðsheild sem Sjálfstæðisflokkurinn er.