Misskipting auðs og þar með valds í heiminum er mikil, 55% efnaminni íbúa heimsins eiga einungis 1,3% af auði heimsins, en efnamestu 12% íbúa heimsins eiga 85% af auðnum samkvæmt skýrslu Credit Suisse frá 2021.
Eftir því sem hitabylgjur, flóð, þurrkar og aðrar birtingarmyndir loftslagsbreytinga hafa orðið algengari hefur það orðið meira og meira ljóst að þeir allra ríkustu deila alls ekki lífsskilyrðum með þeim efnaminni. Þeir ofurríku geta auðveldlega flúið aðstæður eða ráðist í rándýrar aðgerðir til að geta lifað við þær. Á sama tíma og hitabylgja geisaði nýlega í Evrópu, var svalur andvari í köldustu höfuðborg Evrópu. Þar var einkaþotustæðið stútfullt, enda verðlagið hagstætt. Ef einkaþoturnar stoppa í minna en 6 klukkustundir er ekki greitt fyrir flugvélastæðið eins og kom fram nýlega.
Losun gróðurhúsalofttegunda per farþega með einkaþotu er margfalt meiri en með hefðbundinni farþegaþotu (sem eru þó engar umhverfisgeitur) en það er þrátt fyrir að losunin sé yfirleitt reiknuð miðað við að einkaþotan sé full setin. En eins og sást í fréttum RÚV í síðustu viku eru þoturnar alls ekki alltaf fullsetnar, þar sáust 2 farþegar fara um borð í Bombardier Global 5000, 29,5 metra langa einkaþotu sem getur tekið 19 farþega. Til samanburðar er algengasta flugvélin í innanlandsfluginu De Havilland Canada DHC-8-400, 32,5 metrar á lengd og getur tekið 76 farþega.
Eldsneytisnotkun flugvéla er mest í flugtaki og þar með er útblástur loftmengandi efna mestur þá. Loftmengun í kjölfar bruna þotueldsneytis svipar til bruna dísilolíu, en í útblástri frá þotum má finna fíngert sót sem getur farið djúpt í lungu og út í blóðrásina, einnig má finna nituroxíð, brennisteinsoxíð, rokgjörn lífræn efnasambönd, fjölhringlaga arómatísk kolvetnissambönd sem og ýmiskonar málma. Gangandi, hjólandi og akandi vegfarendur sem eru skammt frá flugbrautarendunum fá óhreinsaðar brunaleifar þotueldsneytisins yfir sig við flugtak. Enda liggur mengunarslikjan og ólyktin eftir flugtak oft lengi yfir aðliggjandi svæðum.
Við gætum síðan nefnt hávaðann frá þessum þotum en hann er umtalsverður og heyrast drunurnar bæði eldsnemma á morgnana og seint á kvöldin, en sumar þotanna eru á stærð við farþegaþotur í millilandaflugi og hávaðinn eftir því.
Endalaus yfirgangur þeirra ofurríku yfir sameiginlegum gæðum eins og hreinu lofti og takmörkuðu rými fyrir auknum útblæstri gróðurhúsalofttegunda er óþolandi og meðvirkni yfirvalda gagnvart þessari elítu sömuleiðis. Hversu mikið af deigkenndum pappaskeiðum þarf almenningur að japla á, á meðan þeir efnamestu fá ókeypis stæði fyrir einkaþoturnar sína í miðborginni? Fyrsta skref til að taka á þessu væri að flytja einkaþotuflug frá Reykjavíkurflugvelli.
Höfundur er doktorsnemi