Svo virðist sem Píratar hafi læðst um landið eins og þjófar að nóttu undanfarið, með króka og hauskúpufána á lofti, og farið ránshendi um fylgi annarra flokka. Þegar hæstvirtir stjórnarherrar voru rétt að jafna sig eftir dýrindis veislu með forseta vorum á Hótel Sögu birtist einn Píratinn í pontu hins háa Alþingis og hreytti út úr sér blótsyrðinu „andskotans“ og gaf auk þess í skyn að störf þess líktust sandkassaleik. Þannig særði hann blygðunarkennd stjórnarflokkanna og vó gróflega að heiðri hins háa Alþingis.
Eðlilega áminnti forseti þingsins Píratann fyrir orðbragðið og réttast væri að hann áminnti flokk hans líka fyrir fylgisránið. Svona gera menn ekki. Vinur minn orðaði það ágætlega þegar hann sagði þessa uppákomu í þinginu eins og klippta út úr Monty Python.
Þrír Píratar tóku sæti í þinginu eftir síðustu kosningar og síðan hefur komið í ljós að þeir eiga margt ólært um viðeigandi framkomu á svo fínni samkomu. Á Alþingi snýst allt um völd; komist menn í ríkisstjórn mega þeir gera nokkurn veginn það sem þeim sýnist. Á atkvæðaveiðum er sjálfsagt að ljúga að kjósendum af því að þeir ráða ekki eftir kosningar, meirihlutinn ræður. Ef ríkisstjórnin er einróma um að vilja ekki ganga í Evrópusambandið, þá er rétt að utanríkisráðherra afhendi ESB bréf þess efnis og tilkynni það síðan opinberlega með status á Facebook. Þannig sýna stjórnvöld nýstárlegt verklag og að þau séu í takt við tíðarandann. Ég bíð spenntur eftir snapptjatti frá ráðherranum um næstu stóru ákvörðun stjórnarinnar. Hugsið ykkur tímasparnaðinn sem felst í slíkum aðferðum og að geta bara sloppið við þrasið í þinginu. Svona fer nýja ferlið fram:
- Taka ákvörðun
- Tilkynna múgnum
Gamla ferlið fól hins vegar í sér:
- tillögu um breytingar
- umræður í nefnd
- fyrstu, aðra og þriðju umræðu í þingsal með möguleika á málþófi
- samþykkt lagafrumvarps eða þingsályktunar
Þetta var of langdregið og leiðinlegt ferli til að henta í nútímanum og því tímabært að breyta til. Auk þess prófaði ríkisstjórnin gamla ferlið í fyrra með sama mál og það virkaði ekki þá, hún gerir ekki sömu mistökin tvisvar.
Prósentur fyrir pöpulinn
Fjármálaráðherra gerði vikum saman lítið úr eðlilegum kröfum lækna um kjarabætur, sneri út úr og notaði óspart hugtakið stöðugleiki í því samhengi, sem er eitt þeirra hugtaka sem glata merkingu sinni í meðförum hans og margra kollega hans úr stjórnmálunum. Síðan þuldi hann upp prósentutölur eins og vélmenni, til merkis um meintan árangur af starfi ríkisstjórnarinnar, t.d. fyrir kaupmáttaraukningu undanfarinna mánaða, hagvöxt og verðbólgu. Sömu rök hefur hann síðan notað fyrir kjaraviðræður á almennum vinnumarkaði. Það má alls ekki hækka laun of mikið, því þá er „stöðugleikinn“ í hættu. Sami „stöðugleiki“ er aldrei í hættu þegar laun stjórnenda hækka, né þegar peningum er mokað úr ríkissjóði í niðurgreiðslu á skuldum einstaklinga. „Stöðugleikinn“ er heldur ekki í hættu vegna yfirstandandi og yfirvofandi landflótta landsmanna með mesta menntun, fábreyttara atvinnulífs og minnkandi skatttekna ríkisins (þ.e. minnkun kökunnar). Fjármálaráðherra virðist reyndar mjög hentuglega hafa snúist hugur varðandi kröfur lækna eftir að kjarasamningar við þá voru undirritaðir, því nú hefur ráðuneyti hans birt upplýsingar um hvernig læknar hafi dregist aftur úr öðrum stéttum í launaþróun. Þetta þarf að sjálfsögðu að útskýra fyrir öðrum stéttum svo þær gerist ekki of gráðugar. Píratar, munið að punkta þessi trix hjá ykkur í stílabækurnar.
Hvers vegna ætti fólk að búa á Íslandi þegar landið hefur dregist langt aftur úr nágrannalöndunum í lífskjörum? Hvers vegna ætti fólk að búa á Íslandi til þess eins að skrimta mánuð eftir mánuð vegna lágra launa og uppsprengdrar húsaleigu og fasteignaverðs? Fyrir marga er vel raunhæft að tvöfalda ráðstöfunartekjur sínar í sambærilegum störfum erlendis og munurinn á kaupmætti mælist í tugum prósenta, hann er um 30% hærri í Kaupmannahöfn en Reykjavík (apríl 2015) svo nærtækt dæmi sé tekið. Á meðan tala ráðamenn fyrir óbreyttu ástandi, áframhaldandi notkun óstöðugs örgjaldmiðils, stöðnun í launaþróun o.s.frv. Hvað með stóru fyrirtækin sem stefna úr landi með starfsemi sína og sem eru sum farin að gera upp í öðrum gjaldmiðlum, stuðlar það að stöðugleika? Hvað með sprotafyrirtækin sem eru keypt úr landi áður en þau verða stór, stuðlar það líka að stöðugleika?
Forsendubresturinn
Í þeim þrennum flokkakosningum sem ég hef tekið þátt í hef ég einu sinni kosið hægri flokk, einu sinni miðjuflokk og einu sinni vinstri flokk. Ég lít á þátttöku í kosningum svipuðum augum og val á frjálsum markaði, þ.e. að velja þann kost sem virðist vænlegastur hverju sinni. Mér finnst mun lýðræðislegra að hreyfing sé á fylgi flokka og einstaklinga eftir mati fólks á frammistöðu þeirra og væntingum hverju sinni, frekar en að ákveðnir flokkar geti reitt sig á áskriftarfylgi og logið eins og þá lystir í krafti þess. Framsóknarmenn réttlættu „skuldaleiðréttinguna“ með forsendubresti. Í dag eru hins vegar forsendur stjórnarsamstarfsins brostnar, traust á Alþingi er í algjöru lágmarki og það sama má segja um traust á ríkisstjórninni.
Ég kann að nota prósentutölur eins og fjármálaráðherra og langar að rifja nokkrar nýlegar upp í lokin:
Tæp 40% landsmanna vilja Framsóknarflokkinn síst allra flokka í stjórn. Tæp 80% vilja þjóðaratkvæðagreiðslu um aðildarviðræðurnar við ESB. Fylgi Framsóknarflokksins mælist ítrekað í kringum 10% í könnunum og meirihluti þeirra sem kusu flokkinn í kosningum eru löngu búnir að átta sig á mistökunum.
Hvenær verður þessi forsendubrestur leiðréttur?