Alþjóðlegi hamingudagurinn er tíu ára í ár en árið 2012 lýstu Sameinuðu þjóðirnar í fyrsta sinn yfir alþjóðlegum hamingjudegi. Deginum er ætlað að vekja athygli á mikilvægi hamingju og vellíðan fyrir alla og mikilvægi þess að samfélög leggi sitt af mörkum til að skapa fólki möguleika á að verða hamingjunnar aðnjótandi.
Allir eiga að geta upplifað gleði og hamingju, þessa sem meðal annars felst í því að njóta samvista við samferðafólk okkar líkt og segir í Hávamálum, „maður er manns gaman“.
Það er okkar að ráðstafa tímanum og skapa rými fyrir samskipti og sambönd við fólk, njóta þess sem er og búa til minningar sem verða að ylhýrum afturblikum sem við getum hjúfrað okkur að þegar húmar að.
Tíminn er hamingjuauðlind þar sem félagsleg tengsl búa, slökun eða hvað sem er sem gefur vægi í lífinu. Hvernig við upplifum tímann, ráðstöfum honum gefum af honum eða eyðum er á okkar valdi. Lífið er gert úr tíma og aldeilis óvænt hversu mikinn eða lítinn tíma við fáum.
Það er við hæfi á alþjóðadegi hamingjunnar að nýta smá tíma og stund af þessum degi til að sinna því sem veitir okkur gleði og vellíðan og velta því fyrir okkur hvort við erum að veita því þann tima sem við viljum leggja inn.
Höfundur er formaður Félags um jákvæða sálfræði.