Valgerður Pálmadóttir.
Játningin í lekamálinu og framkvæmd kosningaloforðs Framsóknarflokksins um skuldaniðurfellingu (ákveðinna) heimila í landinu, gefur tilefni til að spá í pólitíska stemningu á Íslandi í aðeins víðara samhengi. Þessir atburðir kallast ágætlega á og væri hægt að líta á sem einkenni á ákveðnu póst-pólitísku ástandi.
Ætlun mín er ekki að leggja mat á hvort um afturför (eða framför) sé að ræða því í þessu tilviki merkir „póst“ ekki „á eftir“ í krónólógískri merkingu. Ég veit ekki hvort opinber umræða á Íslandi hefur nokkurn tímann verið sannanlega pólitísk og tengd hugsjónum. Ísland er lítið samfélag þar sem allir þekkja alla þannig að ef til vill hefur pólitíkin ávallt verið höll undir vina- og fjölskyldugreiðastemningu. Lýðræðishugsuðir hafa þó bent á að smæð samfélags geti verið kostur því þá séu meiri líkur á því að allir getir tekið þátt í hinu opinbera samtali. Því kýs ég að líta á íslenska vinapólitík sem ákveðna menningu frekar en nauðsynlegan fylgifisk smæðarinnar.
Póst-pólitík
Póst-pólitík er hugtak sem róttækir heimspekingar á borð við Jaqcues Ranciere og Chantal Mouffe hafa notað til að lýsa því pólitíska ástandi sem fylgdi í kjölfar loka kaldra stríðsins og einkenndist af orðræðu um endalok hugmyndafræða. Stefnur stjórnmálaflokka urðu æ keimlíkari, vísanir í hægri og vinstri hurfu nánast og flokkar endurskilgreindu jafnvel stefnu sína út frá því sem hefur verið kallað „þriðja leiðin“. Bæði Mouffe og Ranciere gagnrýna þá tilhneigingu stjórnmála þriðju leiðarinnar að leitast við að breiða yfir óhjákvæmilegan samfélagslegan ágreining (milli stétta, kynja eða þjóðfélagshópa) með sáttalíkani (consensus) og lausnum sem eigi að gagnast öllum jafn vel.
Ég tel að við getum með nokkurri einföldun beitt þessari kenningu á opinbera umræðu á Íslandi seinustu ár. Póst-pólitíkin einkennist nefnilega einnig af félagssálfræðilegum þáttum eins og uppgjöf og tortryggni í garð stjórnmálafólks og stjórnmála. Pólitískar hugsjónir eru taldar einfeldningslegar í besta falli og í versta falli einberar lygar eða fyrstu skrefin í átt að alræði. Hugtakið pólitík fær neikvæða merkingu og upp sprettur þrá til að losna undan þrasi, svikum og prettum. Stjórnmálafólk á Íslandi virðist ekki vera undanskilið því að hafa andúð á stjórnmálum. Í myndbandi sem dv.is birti í september heyrist Guðfinna Jóhanna Guðmundsdóttir borgarfulltrúi í Reykjavík segja hagfræðinemum að hún hafi „óvart [dottið] inn í borgarstjórn í vor en [hún hafi] engan áhuga á pólitík“.
Atkvæði sem hafa litla pólitíska vídd
Chantal Mouffe myndi í þessu samhengi vara við því að hér væri búið að blanda saman tveimur ólíkum hlutum, nefnilega pólitík og hinu pólitíska. Á meðan pólitík vísar í dægurpólitík, það sem gerist á Alþingi eða í borgarstjórn í dag og í gær, þá vísar hið pólitíska í þann óumflýjanlega ágreining sem liggur til grundvallar samfélaginu. Aristóteles hélt því einmitt fram að við værum í eðli okkar pólitískar verur, vegna þess að við búum í samfélagi með öðru fólki, komum saman og ræðum og deilum um hvernig við teljum best að skipuleggja þessa sambúð.
Atkvæði Óla Palla hafði sem sagt litla pólitíska vídd, þ.e. enga víðari tengingu við hvaða gildi við ættum að hafa að leiðarljósi í samrekstri samfélagsins heldur snerist aðeins um loforð um að lánið hans yrði lækkað.
Þegar útvarpsmaðurinn Óli Palli viðurkenndi fyrir skömmu að hafa kosið Framsókn var ljóst að hann hafði ekki kosið af pólitískum ástæðum heldur persónulegum. „Mér var lofað að stökkbreytta húsnæðislánið mitt yrði leiðrétt og ÞESS VEGNA KAUS ÉG FRAMSÓKNARFLOKKINN í síðustu kosningum!“ . Atkvæði Óla Palla hafði sem sagt litla pólitíska vídd, þ.e. enga víðari tengingu við hvaða gildi við ættum að hafa að leiðarljósi í samrekstri samfélagsins heldur snerist aðeins um loforð um að lánið hans yrði lækkað. Í anda kvikmyndagerðamannsins Adam Curtis má segja að Óli Palli sé gott dæmi um hvernig fólk lítur í auknum mæli á sig sem neytendur en ekki borgara, einstaklinga með ákveðinn lífsstíl í stað þess að vera hluti af samfélagi og þaðan af síður að tilheyra stétt eða samfélagshópi. Þegar Guðfinna sver af sér áhuga á pólitík er það tilbrigði við það stef að fólk sem fer í pólitík veltir ábyrgðinni eða hugmyndinni að framboðinu yfir á einhvern annan, sbr. „margir hafa komið að máli við mig…“ Eins og það sé siðferðilega vafasamt við að vilja beita sér í pólitík af því að maður hafi hugsjónir eða sækist eftir völdum. Ólafur Ragnar hætti við að hætta sem forseti eins og kunnugt er vegna þess að á hann var þrýst og ekki vildi hann yfirgefa þjóð sína á þessu erfiðu tímum. Frægust í anda póst-pólitíkur eru ummæli Hannesar Hólmsteins að „í Sjálfstæðisflokknum [sé] eiginlega fólk sem hugsar ekkert mikið um pólitík og [sé] frekar ópólitískt … Sjálfstæðismenn [séu] menn sem vilja græða á daginn og grilla á kvöldin“ (Stöð 2 20. Janúar 2008).
Skuldaleiðrétting hugmyndafræðilega slök
Vantraust í garð stjórnmála og stjórnmálafólks á Íslandi er alls ekki úr lausu lofti gripið því lekamálið er ekki einsdæmi. En hvernig eigum við að bregðast við? Í kjölfar hrunsins vann Besti Flokkurinn stórsigur í borgarstjórnarkosningunum 2010. Stefnuyfirlýsing Besta Flokksins var pönkuð uppreisn gegn innantómum pólitískum stefnum og spillingu. Stefnan var í anda popúlisma sem er tekinn til sinnar röklegu endastöðvar - fáránleika. Stofnandi flokksins Jón Gnarr tók síðan fram að öll kosningaloforðin yrðu líklega svikin. Kjaftfor, gleðilegur en jafnframt kaldhæðinn uppreisnargjörningur Besta Flokksins höfðaði greinilega vel til íbúa Reykjavíkur á þessum tímum uppgjafar og tortryggni í garð stjórnmálafólks og stjórnmála. Jóni Gnarr tókst að mörgu leyti að hrista upp í reykvískum stjórnmálum en hann talaði samt inn í sama póst-pólitíska andrúmsloft og gerði Framsóknarflokknum kleift að vinna sögulegan sigur í seinustu Alþingiskosningum.
Skuldaleiðréttingin er jafnframt gott dæmi um pólitíska aðgerð sem miðast við hagsmuni ákveðins hóps en er sett fram sem „leiðrétting“ á mistökum og til hagsbóta fyrir „heimilin í landinu“. Hún er hugmyndafræðilega slök og hefur hvorki samfélagsleg gildi að leiðarljósi né framtíðarhugsjón.
Flokknum hefur verið legið á hálsi fyrir að vera popúlískur. Neikvæð skilgreining á popúlisma er að hann sé stefnu- og hugmyndafræðisnauður, beiti fyrir sig loforðum sem erfitt er að efna og að tala fyrir hönd illa skilgreinds hóp - þjóðarinnar eða fólksins gegn „kerfinu“. Skuldaleiðréttingin er jafnframt gott dæmi um pólitíska aðgerð sem miðast við hagsmuni ákveðins hóps en er sett fram sem „leiðrétting“ á mistökum og til hagsbóta fyrir „heimilin í landinu“. Hún er hugmyndafræðilega slök og hefur hvorki samfélagsleg gildi að leiðarljósi né framtíðarhugsjón. Að sama skapi snýst lekamálið ekki um mannleg mistök, heldur um misnotkun valds og stefnu í málefnum hælisleitenda og innflytjenda. Það er mikilvægt að svara þessu með pólitískum rökum og vangaveltum um hvernig samfélag við viljum skapa á Íslandi í stað þess að næra popúlíska óánægju sem færir okkur fjær hinu pólitíska samtali.