Snædís Snorradóttir, framleiðandi hjá Tjarnargötunni.
Sem betur fer hafa ekki allir lent í slysi, en ég held að flest allir hafi orðið hræddir.
Ég er framleiðandi hjá fyrirtækinu Tjarnargatan og okkur var falið það skemmtilega og krefjandi verkefni að hanna, skrifa, mynda og framkvæma auglýsingarnar þrjár þar sem brotið er á konum á bar, húsasundi og á vinnustað.
Eins og svo oft áður förum við á svokallaðan „breinstorm” fund til að móta beinagrind af handriti. Fljótlega á þessum fundi átta ég mig á því að ég virkilega tengi við þessa tilfinningu, að vera svipt valdi af öðrum. Ég lýsti fyrir samstarfsfélögum mínum hvernig það er að vera kippt af jörðinni og upplifa líkama ekki sem sinn eigin. Ofsahræðslan sem grípur um mann og lamar skilaboðin frá heila til útlima, öskrin sem óma inni í manni en komast ekki til skila í raddböndin og tímaleysið ógurlega.
Gnístandi einmannaleiki
Ég tók fyrir tvö dæmi af eigin lífsreynslum til að útskýra fyrir samstarfsfélögum hvernig við gætum sett okkur í spor annarra hvað varðar slíka upplifun, því ég hef í raun upplifað þessa tilfinningu tvisvar.
Árið 2007 var ég að vinna undir brúnni á Selfossi. það var gullfallegur dagur og ég sit inni í vinnubíl í hláturskasti með vinnufélaga. Allt í einu lyftist bíllinn upp á annan endann og er hent aftur niður, bíllinn lyftist á hinn endann og hrapar til jörðu. Í hendingi næ ég að komast út og þá upplifi ég hræðsluna sem ég get best lýst sem gnístandi einmannaleika. Ég hef ekkert vald yfir líkamanum og það eina sem hefur alltaf verið öruggt var það ekki – jörðin. Ég var nánast í kjarna jarðskjálftans sem var ansi harður og rétt eins og í bíómyndunum gerðist allt saman í slow motion. Ég kastaðist til og ekkert hefði getað „bjargað mér”.
Mér fannst ég finna svo mikið fyrir útlimunum án þess að geta hreyft þá og hljóðin sem fylgdu hræðslunni voru ömurleg. Allt magnaðist upp og bassinn í jörðinni fyllti öll vit.
Aflið var slíkt að brúin á Selfossi svignaði upp marga metra og minnti mig á gúmmíorm. Mér fannst ég finna svo mikið fyrir útlimunum án þess að geta hreyft þá og hljóðin sem fylgdu hræðslunni voru ömurleg. Allt magnaðist upp og bassinn í jörðinni fyllti öll vit. Ég var bjargarlaus og beið þess að skjálftinn mundi líða hjá. Gersamlega stjörf, frosin.
Sár sem bar ör sem ber mig, ég ekki það
Árið 2002 lá leið mín til Akureyrar á útihátíð með vinum. Við vorum mörg og skemmtum okkur vel.
Ég man að ég dró mig örlítið út úr hópnum til að tala í símann á bak við sölubás. Skyndilega var mér hrint og ég lenti á maganum í grasinu. Um leið vissi ég að hér var ekki allt með felldu. Þegar ég sný mér við finn ég fyrir líkamlegri lömun.
Ég man hvert einasta smáatriði, frá skökkum tönnum niður í hvítu klossana sem maðurinn var í og allt þar á milli.
Ég man hvert einasta smáatriði, frá skökkum tönnum niður í hvítu klossana sem maðurinn var í og allt þar á milli. Hann lét þunga sinn fall á mig og ég missti andann og fékk, eins og ég get best lýst því, stífkrampa og lömun á sama tíma. Ég stífnaði upp og gat ekki barist um, kom ekki upp hljóði og náði ekki andanum. Atburðurinn gerðist á nokkrum sekúndum, þó svo að ég gæti ekki sett tíma á þetta þar sem þessi tími líður aldrei. Þetta er ekki augnablik sem kemur og fer, ekki minning eða tímamót. Þetta var sár sem bar ör sem ber mig, ég ekki það.
Ólík en samt svo lík
Ástæðan fyrir því að ég bar þessar sögur saman var sú að eins ólík og þessi atvik voru þá voru þau svo lík. Hvernig getur það verið að viðbrögðin voru nánast þau sömu ? Á fundinum fórum við svo að ræða sögur okkar á milli - „ég lenti í þessu, hinn lenti í hinu” og við áttum það öll sameiginlegt að hafa lent í atviki þar sem við vorum hrædd og varnarlaus. Þar kom tengingin, að geta sett sig í spor annarra með einhverju móti, að geta lagt höndina á félaga og sagt „ég skil þig” og fundið það í hjartanu að það er að vissu leiti satt.
Við verðum að ná að koma skilaboðunum til allra, hvort sem þú hefur lent í jarðskjálfta, árás, innilokunarkennd, köfnunartilfinningu, bílslysi, lofthræðslu, kvíðakasti eða hvað sem er, og vissulega er engin upplifun eins, mis hrikalegar og hefur ekki eins áhrif á hvern og einn. Sú staðreynd að við vitum að hver og einn gæti mögulega verið skrefinu nær í að skilja hvað kynferðisofbeldi getur haft djúpstæð áhrif á einstakling, lamað persónu af hræðslu og varnarleysi, erum við strax skrefinu nær í að búa í öruggri borg.
Örugg borg er fólkið sem býr í henni
Fundurinn fór á flug, hvernig getum við tengt þetta saman og það sem meira er, hvernig getum við látið áhorfanda taka þátt, vera virkan og jafnvel bera ábyrgð? Til þess að áhorfandi vilji hjálpa verður hann að skilja. Mundir þú slá glas úr hendinni á konu af því það gæti verið að þú hafir kannski séð einhvern setja töflu ofan í glasið ? Algeng viðbrögð eru að loka augunum, telja þér trú um að þetta komi þér ekki við. En ef þú vissir að þú gætir komið í veg fyrir að þessi kona upplifi það sem þú upplifðir í þínu slysi/atviki, mundiru þá opna augun ?
Örugg borg er ekki endilega bygging, lýsing eða götur. Örugg borg er fólkið sem býr í henni.
„En ert þú mögulega gerandi?” var önnur ráðgáta sem við veltum fyrir okkur. Komumst við nær geranda ? Sýna hans skugga hlið ? Já! Þar sem margir eru nú með snjallsíma við höndina á öllum stundum fannst okkur tilvalið að nýta okkur það. Áhorfandi slær inn símanúmerið sitt og getur í kjölfarið horft á myndböndin í tölvunni og skoðað sjónarhorn gerandans í leiðinni. Gerandi hefur mögulega lent í atviki þar sem hann var hræddur á lífleiðinni og séð að allt við gjörðir hans er brot á annarri manneskju.
Tjarnargatan, sem stóð að verkinu sem heild, blandaði saman hugmyndum og fann leið til að láta verkið ná til sem flestra vill þakka fyrir að hafa verið falið þetta merka verkefni. Örugg borg er ekki endilega bygging, lýsing eða götur. Örugg borg er fólkið sem býr í henni.
Takk fyrir okkur.
Herferð UN Women á Íslandi um Öruggar borgir (e. Safe Cities Global Initiative) stendur yfir frá 18. til 25. nóvember. Hluti af herferðinni eru pistlaskrif um öruggar borgir sem birtast munu á heimasíðu Kjarnans á meðan að herferðin stendur yfir. Hjarta hennar er á heimasíðunni www.oruggborg.is. Hægt er að lesa meira um herferðina og styrkja sambærileg verkefni í fátækustu löndum heims á heimasíðu landsnefndar UN Women á Íslandi.